Skip to main content

Doktorsvörn í mannfræði - Sveinn Guðmundsson

Doktorsvörn í mannfræði - Sveinn Guðmundsson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
1. september 2017 14:00 til 15:30
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasal

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 1. september ver Sveinn Guðmundsson ritgerð sína Hugur og líkami eða huglíkami?“ - Læknar, hjúkrunarfræðingar og óhefðbundnar lækningar (Mind and Body or Mindbody? -  Doctors and Nurses Working with CAM). Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands kl. 14:00 og er öllum opin. 

Rannsóknin snýr að læknum og hjúkrunarfræðingum á Íslandi sem hafa áhuga á óhefðbundnum lækningum, viðbótarmeðferðum og heildrænum hugmyndum um heilsu. Skoðað er hvernig þau meta þessar meðferðir og hvernig þær samræmast starfi þeirra sem heilbrigðisstarfsmenn. Notast er við eigindlegar rannsóknaraðferðir.

Niðurstöðurnar sýna að þrátt fyrir skort á opinberri stefnu um notkun á óhefðbundnum meðferðum innan heilbrigðisstofnana hefur hluti íslenskra heilbrigðisstarfsmanna fundið þeim stað í starfi sínu. Kerfin tvö, hið opinbera heilbrigðiskerfi og óhefðbundnar meðferðir lifa hlið við hlið, þó er ekki hægt að segja að tvíþætt kerfi ríki né að það sé samþætt. Samvinna á sér stað á ákveðnum sviðum en ekki öðrum og blæbrigðamunur er á henni milli heilbrigðisstétta.

Þannig er munur á viðhorfi innan heilbrigðisstéttanna tveggja. Hjúkrunarfræðingarnir hafa minni áhyggjur af áliti annarra á notkun þeirra á meðferðunum og reyna að finna þeim stað í starfi sínu ef það á við. Læknarnir hinsvegar eru mjög meðvitaðir um vísindalegar kröfur fags síns og álit annarra lækna og fara flestir leynt með áhuga sinn á meðferðunum. Heilbrigðisstéttirnar tvær eiga það hins vegar sammerkt að blanda gömlum og nýjum meðferðum saman, hvort sem þær eru álitnar hefðbundnar eða óhefðbundnar, í þeim tilgangi að víkka út sýn sína á manneskjuna og áhrifavalda á heilsu.

Leiðbeinandi var dr. Jónína Einarsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Ásamt henni sátu í doktorsnefnd dr. Þóra Jenný Gunnarsdóttir, dósent í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands, dr. Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og dr. Marja-Liisa Honkasalo, prófessor í Culture, Health and Well Being við Háskólann í Turku, Finnlandi.

Andmælendur eru dr. Maya Unnithan og dr. Pétur Pétursson.

Sveinn fæddist í Hafnarfirði árið 1979. Hann lauk BA próf í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 2006 og MA próf í mannfræði frá sama skóla árið 2008. Síðustu tíu árin hefur hann unnið við rannsóknir og kennslu við Háskóla Íslands og víðar. Sveinn býr með Ástu Jóhannsdóttur og á einn stjúpson, Mikael Óskar Arnarsson.