Mið-Austurlandafræði og arabíska - Grunndiplóma


Mið-Austurlandafræði og arabíska
Grunndiplóma – 60 einingar
Markmið Mið-Austurlandafræða og arabísku við Háskóla Íslands er að stuðla að aukinni fræðslu, þekkingu og áhuga á Mið-Austurlöndum og menningu þeirra í víðum skilningi og jafnframt að veita nemendum grunnfærni í arabísku sem er helsta tungumál svæðisins.
Skipulag náms
Saga Mið-Austurlanda I (MAF101G)
Í námskeiðinu verður farið yfir sögu þess svæðis sem telst til Mið-Austurlanda frá fornöld og fram á miðaldir. Fjallað verður um uppgang Egypta, Súmera og annarra þjóða í hinni svokölluðu 'vöggu siðmenningarinnar'. Sérstök áhersla verður lögð á uppgang íslam á 7. öld og það heimsveldi sem múslimar byggðu upp næstu aldir þar á eftir. Fjallað verður um Múhameð spámann og eftirmenn hans, tilurð Kóransins, kalífat Umayya, kalífat Abbasída og 'gullöld' íslam. Námskeiðið er kennt á íslensku en mest af lesefninu verður á ensku.
Arabíska I (MAF102G)
Nemendur byrja á því að læra arabíska stafrófið og málhljóðin ásamt undirstöðuatriðum. Eftir að nemendur hafa náð góðum tökum á stafrófinu verður farið í helstu málfræðiatriði, einfalda setningargerð og orðaforða. Samhliða því er einblínt á bæði hlustun og munnlega tjáningu. Mikil áhersla er lögð á mætingu og heimavinnu nemenda. Námskeiðið er kennt á ensku.
Námskeiðið er undanfari MAF204G: Arabíska II.
Arabíska II (MAF204G)
Í þessu framhaldsnámskeiði í arabísku verður haldið áfram að þjálfa þau atriði sem byrjað var á í grunnnámskeiðinu. Gert er ráð fyrir að nemendur hafi náð góðum tökum á stafrófinu og geti lesið einfaldan texta og skrifað setningar. Áhersla er lögð á lestur og skrift og farið verður dýpra í arabíska málfræði og notkun orðabókar. Þá verður áfram einblínt á bæði hlustun og munnlega tjáningu samhliða því. Mikil áhersla er lögð á mætingu í tíma og heimavinnu nemenda. Námskeiðið er kennt á ensku.
Undanfari námskeiðsins er MAF102G: Arabíska I.
Saga Mið-Austurlanda II (MAF203G)
Þetta námskeið tekur upp þráðinn þar sem námskeiðinu Saga-Miðausturlanda I sleppir. Það er þó ekki nauðsynlegur undanfari, hægt er að taka bæði námskeiðin eða annað þeirra. Hér verður farið yfir þróun mála í Mið-Austurlöndum frá ca 1300, uppgang Ottómana og Safavída, og sér í lagi tengsl þeirra við Vesturlönd. Meðal efnis verður nýlendustefna Evrópuríkja í þessum heimshluta og áhrif þeirra á menningu og stjórnmál, uppgangur þjóðernishyggju og tilurð ríkja, og ýmis átök og ágreining sem mótað hefur svæðið allt til dagsins í dag. Námskeiðið er kennt á íslensku en mest af lesefninu verður á ensku.
Arabíska III (MAF301G)
Námskeiðið byggir ofan á það sem farið var í í Arabísku II. Áfram verður unnið með uppbyggingu orðaforða og áherslu á alla færniþætti: tal, hlustun, lestur og skrift, og kafað verður dýpra í málfræðina.
Mikil áhersla er lögð á mætingu og heimavinnu nemenda.
Námskeiðið er undanfari MAF401G Arabíska IV.
Arabíska IV (MAF401G)
Námskeiðið byggir ofan á það sem farið var í í Arabísku III. Áfram verður unnið með uppbyggingu orðaforða og áherslu á alla færniþætti: tal, hlustun, lestur og skrift, og kafað verður dýpra í málfræðina.
Mikil áhersla er lögð á mætingu og heimavinnu nemenda.
Undanfari námskeiðsins er MAF301G Arabíska III.
Hafðu samband
Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2
Sími: 525 4400
Netfang: hug@hi.is
Skrifstofan er opin virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.
Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.
Fylgstu með Hugvísindasviði:

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.