Reglur um kennaraskipti milli ríkisháskólanna nr. 1046/2003
I. KAFLI Almenn atriði.
1. gr. Skilgreiningar.
Í þessum reglum gilda eftirfarandi skilgreiningar á hugtökum:
Með háskólakennara er átt við hvern þann starfsmann ríkisháskóla sem hefur ráðningarsamning um starf prófessors, dósents, lektors eða aðjúnkts.
Með aðalstarfi er átt við að ráðningarsamningur hljóði upp á a.m.k. 50% starfshlutfall miðað við dagvinnu, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Með ríkisháskóla er átt við háskóla sem falla undir IV. kafla laga nr. 136/1997, um háskóla sem og menntastofnanir landbúnaðarins sbr. lög nr. 57/1999, að svo miklu leyti sem þær veita æðri menntun í skilningi 1. gr. laga um háskóla. Sá háskóli sem kennari hefur aðalstarf við telst vera heimaskóli en sá skóli sem tímabundi nýtur starfskrafta kennara á grundvelli þessara reglna telst vera heimsóknarskóli.
2. gr. Samningur um kennaraskipti og gildissvið reglna.
Rektor skal heimilt að gera gagnkvæma samninga við aðra ríkisháskóla um kennaraskipti, þ.e. að háskólakennurum að aðalstarfi við heimaskóla sé leyft að gegna starfsskyldum sínum að hluta við heimsóknarháskóla. Sé slíkur samningur gerður skulu þessar samræmdu reglur gilda við framkvæmd mála þar að lútandi, sbr. II. kafla og gerð viðauka við ráðningarsamning sbr. III. kafla.
II. KAFLI Framkvæmd kennaraskipta.
3. gr. Undirbúningur.
Háskólakennara í aðalstarfi er heimilt að sækja um leyfi til þess að gegna tímabundið starfsskyldum sínum að hluta við annan ríkisháskóla, en þann sem hann er í aðalstarfi við.
Háskóladeild getur einnig haft frumkvæði að kennaraskiptum enda sé samþykkis viðkomandi kennara leitað hverju sinni.
Í umsókn kennara eða málaleitan deildar skal koma fram við hvaða háskóla starfsskyldum verði gegnt og að hve miklu leyti. Einnig um hvaða tímabil er að ræða. Umsókn skal fylgja staðfesting viðkomandi háskóla á því að óskað sé eftir kennaraskiptum og að sá háskóli muni standa straum af greiðslum vegna yfirvinnu, að svo miklu leyti sem starfsskyldur kennarans við þann háskóla rúmast ekki innan dagvinnutíma.
4. gr. Umfjöllun deildar.
Umsókn kennara fer til umfjöllunar hjá þeirri háskóladeild, þar sem hann hefur sinn meginstarfsvettvang. Meðfer málsins skal hraða eftir föngum og er miðað við að deildarforseti hafi að öllu jöfnu svarað umsókninni innan tveggja vikna, en fjórar vikur skulu lengst líða áður en svar berst. Samþykki deildin kennaraskipti skal upplýst hvaða breytingar verði á starfsskyldum umsækjandans á vettvangi deildarinnar. Samþykki deildin á hinn bóginn ekki kennaraskiptin skal það tilkynnt með rökstuddri ákvörðun sem bera má undir rektor.
5. gr. Leyfi veitt til kennaraskipta.
Veiti deild leyfi til kennaraskipta eða kennari samþykkir málaleitan deildar, er gerður viðauki við ráðningarsamning viðkomandi háskólakennara. Viðaukinn tekur gildi er hann hefur verið staðfestur skriflega af deildarforseta, viðkomandi kennara og þeim háskóla sem óskað hafi eftir kennaraskiptum. Um viðaukann gilda reglur III. kafla reglna þessara.
Deildarforsetar og aðrir stjórnendur skulu hafa samráð um störf þeirra háskólakennara sem fá leyfi til kennaraskipta.
III. KAFLI Efnisreglur um viðauka við ráðningarsamning.
6. gr. Starfsskyldur.
Kennsluskylda háskólakennara, sem fær leyfi til kennaraskipta, skiptist í tilteknum hlutföllum milli hlutaðeigandi háskóla. Rannsókna- og stjórnunarskylda skal að öllu jöfnu vera óskipt hjá heimaskóla en þessir starfsþættir skulu aðlagaðir þeirri heildarkennsluskyldu sem samkomulag er um. Heimilt er í undantekningartilvikum að skipta rannsóknaskyldu milli háskóla.
7. gr. Launaákvörðun.
Föst laun háskólakennara fyrir dagvinnu mega ekki fara umfram það sem samið hefur verið um í þeim kjarasamningi sem ráðningarsamningur byggist á eða ákvarðað hefur verið af kjaranefnd.
Laun fyrir yfirvinnu vegna kennslu samkvæmt viðauka mega ekki fara umfram það yfirvinnuþak sem í gildi er fyrir launaflokk og starfsheiti vikomandi háskólakennara, skv. kjarasamningi, samþykkt háskólaráðs eða ákvörðun kjaranefndar.
8. gr. Launagreislur.
Háskólakennari fær greidd dagvinnulaun frá heimaskóla. Laun fyrir yfirvinnu eru greidd af hvorum eða hverjum háskóla fyrir sig.
9. gr. Starfstengdur kostnaður.
Ferðakostnaður, kaup á kennslugögnum og annar slíkur kostnaður sem tengist tilteknum starfsskyldum greiðist af þeim háskóla sem starfsskyldunum er gegnt við.
10. gr. Rannsóknamisseri, vinnumat og styrkir.
Um heimild háskólakennara til þess að sækja um rannsóknamisseri, styrki úr sjóðum og greiðslur vegna vinnumats gilda reglur heimaskóla. Við framkvæmd slíkra reglna ber að líta á störf við heimsóknarskóla með sama hætti og störf við heimaskóla. Leyfi til kennaraskipta skapar háskólakennara ekki heimild til þess að sækja um rannsóknamisseri, styrki úr sjóðum eða greislur vegna vinnumats hjá öðrum háskólum. Þegar um umfangsmikil kennaraskipti er að ræða skal kostnaður vegna rannsóknamissera gerður upp á milli þeirra háskóla sem hlut eiga a máli.
11. gr. Gildistími.
Viðauki skal vera tímabundinn og gilda lengst í þrjú ár. Viðauki fellur úr gildi ef til ráðningarslita kemur, óháð því af hvaða ástæðu það er. Sé vilji til þess að framlengja, umfram þrjú ár, þá skipan sem viðaukinn gerir ráð fyrir, skal endurskoða ráðningargrundvöll viðkomandi háskólakennara með það fyrir augum að gerðir verði fleiri ráðningarsamningar um störf hans.
12. gr. Gildistaka o.fl.
Reglur þessar sem háskólaráð Háskóla Íslands hefur sett á grundvelli laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands, öðlast þegar gildi.
Háskóla Íslands, 19. desember 2003.
Páll Skúlason
Þórður Kristinsson