Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 5. september 2024

7/2024

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2024, fimmtudaginn 5. september var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Andri Már Tómasson, Arnar Þór Másson, Davíð Þorláksson, Elísabet Siemsen, Hólmfríður Garðarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Sigurbjörg Guðmundsdóttir (varamaður fyrir Viktor Pétur Finnsson), og Silja Bára Ómarsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson. Katrín Atladóttir boðaði forföll og varamaður hennar einnig.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að fundargerð síðasta fundar hefði verið samþykkt, undirrituð rafrænt og birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og greindi Ólafur Pétur Pálsson frá því að hann myndi ekki taka þátt í afgreiðslu liða 2b og 8b og Arnar Þór Másson lýsti því yfir að hann tæki ekki þátt í afgreiðslu liðar 8b. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Stefna og starfsemi Háskóla Íslands.

a.    Kynning.
Rektor gerði grein fyrir megindráttum í starfsemi Háskóla Íslands og fór yfir helstu atriði í starfi háskólaráðs.

b.    Kjör varaforseta háskólaráðs, sbr. 4. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands. nr. 569/2009.
Fyrir fundinum lá tillaga rektors um að Ólafur Pétur Pálsson verði varaforseti núverandi háskólaráðs á starfstíma þess 1.7.2024-30.6.2026.
– Samþykkt samhljóða. Ólafur Pétur Pálsson tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

3.    Minnisblað um viðbrögð við ábendingum nefndar háskólaráðs um störf ráðsins á liðnu starfsári, sbr. 10. gr. starfsreglna háskólaráðs og fund þess.
Á fundi háskólaráðs 27. júní sl. lagði nefnd um störf ráðsins, sbr. 10. gr. starfsreglna þess, fram álit um störf ráðsins starfsárið 2023-2024. Fyrir fundinum lá minnisblað starfsmanna ráðsins um viðbrögð við ábendingum í áliti nefndarinnar. Málið var rætt og tekið undir þau viðbrögð sem til eru lögð.

4.    Drög funda- og starfsáætlunar háskólaráðs 2024-2025.
Rektor gerði grein fyrir framlögðum drögum að funda- og starfsáætlun háskólaráðs starfsárið 2024-2025. Málið var rætt og beindi rektor því til ráðsmanna að koma tillögum og ábendingum varðandi starfsáætlunina á framfæri við ritara ráðsins. Málið kemur til afgreiðslu á næsta fundi.

5.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.

a.    Rekstraryfirlit Háskóla Íslands janúar-júní 2024.
Inn á fundinn kom Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerði grein fyrir rekstraryfirliti Háskóla Íslands á tímabilinu janúar-júní 2024. Fram kom að rekstrarstaða Háskóla Íslands fyrstu sex mánuði ársins er í heildina í jafnvægi. Einhver frávik eru á rekstrarstöðu miðað við áætlun og skýrist það að mestu af því að ýmis gjöld eða tekjur eru að skila sér síðar á árinu en gert var ráð fyrir. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum.

Jenný Bára vék af fundi.

b.    Staða framkvæmda- og viðhaldsverkefna, sbr. fund ráðsins 27. júní sl.
Inn á fundinn komu Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri í sameiginlegri stjórnsýslu. Kristinn fór yfir stöðu framkvæmda og viðhaldsverkefna það sem af er árinu. Málið var rætt.

Sigurbjörg Guðmundsdóttir kom á fundinn.

c.    Gjaldtaka á bílastæðum, sbr. fund ráðsins 27. júní sl. Staða mála.
Kristinn greindi frá stöðu mála varðandi undirbúning áformaðrar gjaldtöku fyrir notkun bílastæða á lóð Háskóla Íslands í framhaldi ákvörðunar háskólaráðs 7. mars sl. Fram kom að útboð umsýslu með gjaldtökunni hefur dregist af óviðráðanlegum orsökum og mun innleiðingu gjaldtökunnar líklega seinka til komandi áramóta. Unnið verður áfram af kappi að undirbúningi málsins. Málið var rætt og verður það áfram á dagskrá háskólaráðs.

d.    Flutningur starfsemi Háskóla Íslands í Sögu.
Guðmundur R. og Kristinn skýrðu frá stöðu framkvæmda í Sögu og tímaáætlun flutnings starfsemi Háskóla Íslands í húsið. Fram kom að kostnaður við endurbætur hefur aukist verulega. Málið var rætt og svöruðu Guðmundur R. og Kristinn spurningum.

Kristinn vék af fundi.

Kaffihlé

e.    Kjaramál. Staða samninga, sbr. fund ráðsins 4. apríl sl.
Inn á fundinn kom Ragnhildur Ísaksdóttir, sviðsstjóri mannauðssviðs (á fjarfundi), og greindi ásamt Guðmundi R. frá stöðu mála varðandi gerð kjarasamninga við Félag háskólakennara og Félag prófessora. Málið var rætt.

f.    Nýtt fyrirkomulag vegna fæðisfjár og matarmiða, sbr. fund ráðsins 4. apríl sl.
Rektor vísaði í uppfærða tillögu um bætta aðstöðu til máltíða og aukinna gæða matar fyrir starfsfólk og nemendur Háskóla Íslands, en málið var áður á dagskrá háskólaráðs 4. apríl sl. Samkvæmt tillögunni er áformað að einfalda fyrirkomulag fæðispeninga og aðgengi starfsfólks að fjölbreyttu og hollu fæði. Lagt er til að rektor skipi starfshóp til að útfæra málið nánar og halda utan um verkefnið. Hópnum verði falið að skila niðurstöðum til háskólaráðs fyrir 31. október nk.
– Samþykkt einróma.

Ragnhildur vék af fundi.

g.    Fjármálaáætlun ríkisstjórnar 2025-2029, sbr. fund háskólaráðs 2. maí sl.
Rektor fór yfir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2025-2029 hvað varðar háskólastigið almennt og Háskóla Íslands sérstaklega.

h.    Nýtt reiknilíkan háskóla, sbr. fund ráðsins 27. júní sl. Staða mála.
Rektor greindi frá nýjum reglum um fjárframlög til háskóla sem háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hefur sett. Nýtt reiknilíkan verður kynnt háskólaráði sérstaklega á næstunni.

i.    Endurskoðun skrásetningargjalds.
Fyrir fundinum lá yfirlit um bókfærðan kostnað 2023 vegna skrásetningar og þjónustu, annarrar en kennslu, við stúdenta Háskóla Íslands. Rektor á í samtali við stjórnvöld um skrásetningargjaldið.

j.    Umsóknargjald fyrir umsækjendur frá löndum utan EES.
– Frestað.

k.    Áform stjórnvalda um heimild til innheimtu skólagjalda fyrir nemendur frá löndum utan EES.
Rektor kynnti áform stjórnvalda um innheimtu skólagjalda fyrir nemendur frá löndum utan EES. Málið var rætt.

Davíð Þorláksson vék af fundi.

6.    Málefni Fasteigna Háskóla Íslands ehf.
Inn á fundinn kom Daði Már Kristófersson, prófessor og formaður stjórnar Fasteigna Háskóla Íslands ehf., og gerði ásamt Guðmundi R., sem er stjórnarmaður, grein fyrir helstu málum á döfinni hjá félaginu. Málið var rætt og svöruðu Daði Már, Guðmundur R. og Silja Bára, sem einnig situr í stjórn félagsins, spurningum.
 
Guðmundur R. og Daði Már viku af fundi.

7.    Mál nemanda.
Inn á fundinn kom Eyvindur G. Gunnarsson, prófessor og formaður kærunefndar í málefnum nemenda, og gerði grein fyrir áliti nefndarinnar í máli nr. 2024/4 sem lá fyrir fundinum. Málið var rætt.
– Háskólaráð fellst á þau rök sem fram koma í áliti kærunefndar í málefnum nemenda í máli nr. 2024/4 og er niðurstaða ráðsins sú sem nefndin leggur til.

8.    Bókfærð mál.
a.    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Teknir verði inn 11 nemendur í BS-nám í hjúkrunarfræði fyrir fólk með annað háskólapróf (HFFH) háskólaárið 2024-2025 í stað 10, sbr. ákvörðun rektors f.h. ráðsins 2. júlí sl.

– Samþykkt.

b.    Endurskoðunarnefnd háskólaráðs. Skipan.
– Samþykkt. Nefndin er skipuð til næstu tveggja ára, þ.e. til 30. júní 2026, þeim Ólafi Pétri Pálssyni, formaður, Arnari Þór Mássyni, og Katrínu Atladóttur. Innri endurskoðandi Háskóla Íslands situr fundi nefndarinnar og er ritari hennar. Arnar Þór og Ólafur Pétur tóku ekki þátt í afgreiðslu málsins.

c.    Skipan fulltrúa nemenda í skipulagsnefnd háskólasvæðisins.
– Samþykkt. Fulltrúi nemenda í skipulagsnefnd háskólasvæðisins er Júlíus Viggó Ólafsson. Skipunartíminn er til 30. júní 2025.

9.    Mál til fróðleiks.
a.   Ársreikningur Fasteigna Háskóla Íslands ehf. 2023.
b.   Ársreikningur Tæknigarðs ehf. 2023.
c.   Þjónustusamningar vegna Miðstöðvar í öldrunarfræðum, dags. 28. júní 2024.
d.   Endurlagning hornsteins Sögu 21. ágúst 2024.
e.   Viðbrögð Háskóla Íslands við nýlegum breytingum á lögum um háskóla og boðuðum breytingum á viðmiðum um æðri menntun og prófgráður.
f.    Málnefnd Háskóla Íslands.
g.   Yfirlit um stjórnir, nefndir og ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að og fyrirséð er að skipa þurfi eða tilnefna í á haustmisseri 2024.
h.   Dagatal Háskóla Íslands 2024-2025. Drög.
i.    Úthlutun úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands.
j.    Nýr forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.
k.   Fréttabréf háskólavina, dags. 28. ágúst 2024.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.