2/2024
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2024, fimmtudaginn 1. febrúar var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Aðalheiður Jóhannsdóttir (varamaður fyrir Silju Báru Ómarsdóttur), Arnar Þór Másson, Brynhildur Ásgeirsdóttir, Hólmfríður Garðarsdóttir, Katrín Atladóttir, Katrín Björk Kristjánsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Vilborg Einarsdóttir, og Þorvaldur Ingvarsson. Davíð Þorláksson boðaði forföll og varamaður hans einnig. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að fundargerð síðasta fundar hefði verið samþykkt með rafrænni undirritun og hún birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Rektor greindi frá því að hann myndi ekki taka þátt í afgreiðslu dagskrárliðar 8f. og fól Ólafi Pétri Pálssyni, varaforseta háskólaráðs, að taka við fundarstjórn undir þessum lið. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. Loks spurði rektor hvort einhver annar lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu.
a. Fjárhagsáætlun Háskóla Íslands 2024, aðhald í rekstri, sbr. síðasta fund.
Rektor og Guðmundur fóru yfir tillögur fjármálanefndar háskólaráðs að aðgerðum vegna fjárhagsstöðu Háskóla Íslands árið 2024, sbr. síðasta fund. Málið var rætt ítarlega.
– Fjármálanefnd falið að vinna áfram að undirbúningi aðgerða vegna fjárhagsstöðu Háskóla Íslands árið 2024. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.
b. Kjaramál. Staða samninga.
Ragnhildur Ísaksdóttir, sviðsstjóri mannauðssviðs, kom inn á fundinn og gerði grein fyrir stöðu mála varðandi kjarasamninga fram undan. Málið var rætt og svaraði Ragnhildur spurningum.
Ragnhildur vék af fundi.
3. Niðurstöður háskólaþings 17. janúar sl. Staða mála varðandi bílastæða- og samgöngumál á lóð Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs. Rektor greindi frá niðurstöðum háskólaþings 17. janúar sl. Þingið var að þessu sinni helgað þróunaráætlun fyrir svæði Háskóla Íslands og kynntar voru mögulegar útfærslur á gjaldtöku af bílastæðum á lóð Háskólans. Á þinginu var samþykkt að framkvæmda- og tæknisviði yrði falið að undirbúa tillögu um málið, m.a. í ljósi framkominna ábendinga og sjónarmiða og í samráði við hagaðila. Kristinn greindi frá því að í kjölfar háskólaþings hefði starfshópur Háskóla Íslands um bílastæðamál lagt á ráðin um næstu skref, m.a. í samráði við Landspítalann og Landsbókasafn Íslands – háskólabókasafn. Að því loknu blasi við að hvaða leið sem farin verður þurfi að bjóða út þjónustu við innheimtu gjaldsins og eftirlit með bílastæðum. Því væri lagt til að haldið verði áfram undirbúningi útboðs þessarar þjónustu, m.a. í samstarfi við Ríkiskaup, og unnið að skipulagi og tímalínu. Málið var rætt og verður það áfram á dagskrá háskólaráðs.
– Samþykkt.
Kristinn og Guðmundur viku af fundi.
4. Skýrsla um mat á fýsileika aukins samstarfs eða sameiningar Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum.
Inn á fundinn komu fulltrúar Háskóla Íslands í stýrihópi um mat á fýsileika aukins samstarfs eða sameiningar Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum, þau Ingibjörg Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, Snæbjörn Pálsson, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar, og Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands. Rektor og gestir fundarins gerðu grein fyrir helstu niðurstöðum skýrslu starfshópsins, en í honum sitja einnig fjórir fulltrúar Háskólans á Hólum, þau Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor, Edda Matthíasdóttir, framkvæmdastjóri, Skúli Skúlason, prófessor, og Anna Guðrún Edvardsdóttir, rannsóknastjóri. Formaður stýrihópsins er Ásta Dís Óladóttir, prófessor. Málið var rætt. Að umræðu lokinni bar rektor upp svohljóðandi tillögu að bókun:
„Háskólaráð Háskóla Íslands fjallaði í dag um skýrslu um „Mat á fýsileika aukins samstarfs eða sameiningar Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum“ sem byggir m.a. á viljayfirlýsingu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og rektora beggja háskóla um sama efni frá 15. ágúst 2023. Í niðurstöðu skýrslunnar er lagt til við háskólaráð beggja háskóla að hafnar verði formlegar viðræður um stofnun nýrrar háskólasamstæðu með það að markmiði að efla háskólastarf á Íslandi og styrkja sókn á alþjóðlegum vettvangi. Í tengslum við skipulagsbreytinguna verði gert samkomulag við stjórnvöld sem taki m.a. til húsnæðismála og fjárhagslegrar skuldbindingar af hálfu stjórnvalda sem geri kleift að halda úti öflugri háskólastarfsemi á starfsstöðvum samstæðunnar.
Háskólaráð Háskóla Íslands felur rektor að hefja formlegar viðræður um mögulega stofnun háskólasamstæðu á þeim grunni sem lagður hefur verið. Í því samhengi er m.a. mikilvægt að tryggja aðkomu starfsfólks og nemenda að málinu. Samhliða verði hafin athugun á því hvort aðild að slíkri háskólasamstæðu geti verið eftirsóknarverður kostur fyrir fleiri innlenda háskóla og rannsóknastofnanir.“
– Samþykkt einróma.
Ingibjörg, Halldór, Snæbjörn og Sæunn viku af fundi.
5. Stefna Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026, HÍ 26, ásamt tillögu að breytingu á 5. og 8. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Rektor gerði grein fyrir framlagðri tillögu að breytingu á 5. og 8. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 er varðar sameiginlega stjórnsýslu.
– Samþykkt.
Inn á fundinn komu Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, og Katrín Regína Frímannsdóttir, stefnu- og gæðastjóri, og greindu frá niðurstöðum akkerisfundar sem haldinn var 30. janúar sl.
Steinunn og Katrín viku af fundi.
6. Um útreikning á tímafjölda að baki námskeiða við Háskóla Íslands og mögulega samræmingu, sbr. fund ráðsins 2. júní 2022. Kynning á vinnu starfshóps rektors og umræða um næstu skref.
Ólafur Pétur Pálsson, prófessor og formaður starfshóps rektors um útreikning á tímafjölda að baki námskeiða og mögulega samræmingu, gerði grein fyrir stöðu vinnu starfshópsins. Málið var rætt og svaraði Ólafur Pétur spurningum. Ákveðið var að framlengja skipunartíma starfshópsins til loka vormisseris 2024 og að aðstoðarrektor kennslumála taki þar einnig sæti. Starfshópurinn skili fyrir lok apríl nk. tillögu til háskólaráðs um útfærslu samræmingar á útreikningi tímafjölda að baki námskeiða við Háskóla Íslands. Stefnt verði að niðurstöðu á fundi ráðsins í júní nk.
– Samþykkt.
Kaffihlé.
7. Almenn umræða um málefni Háskóla Íslands og hlutverk háskólaráðs, sbr. ábendingu nefndar um störf ráðsins starfsárið 2022-2023.
Rektor greindi frá því að í greinargerð nefndar háskólaráðs um störf ráðsins á starfsárinu 2022-2023 hafi m.a. verið lagt til að í upphafi hvers misseris yrði gefið ráðrúm á fundum háskólaráðs til að efna til almennrar umræðu um málefni Háskóla Íslands í víðu samhengi og væri þetta nú gert í annað sinn. Líflegar umræður spunnust um fjölmörg málefni er varða stöðu og starfsemi háskóla í nútíð og framtíð, s.s. áhrif og mögulega nýtingu gervigreindar í skólastarfi, stöðu fámennra greina, lagaumhverfi háskóla og skipan háskólaráðs, möguleg áhrif nýs reiknilíkans á gæði náms og kennslu, hlutverk Háskóla Íslands í samfélaginu o.fl.
8. Bókfærð mál.
a. Frá Félagsvísindasviði: Tillaga um að sett verði á laggirnar Stofnun Háskóla Íslands á sviði lífeyrismála.
– Samþykkt.
b. Skipulagsnefnd háskólasvæðisins, framlenging til 30. júní 2024.
– Samþykkt.
c. Frá vísinda- og nýsköpunarsviði: Tillaga að verklagsreglum um málefni nýdoktora, sbr. fund ráðsins 1. júní sl.
– Samþykkt.
d. Frá Félagsvísindasviði. Rekstraráætlun MBA náms 2024.
– Samþykkt.
e. Frá Félagsvísindasviði: Tillaga um breytingu á 92. gr. reglna nr. 569/2009. Nám í fjölmiðla- og boðskiptafræði verði fellt niður.
– Samþykkt.
f. Framsal á valdi rektors vegna umsóknar um framgang (varðar skipun fulltrúa rektors í dómnefnd og ákvörðun um mögulegan framgang).
– Háskólaráð samþykkir að framselja ákvörðunarvald rektors í málinu til varaforseta ráðsins. Ritara háskólaráðs er falið f.h. ráðsins að tilkynna varaforseta þess um framsalið með bréfi. Jafnframt er samþykkt að þetta verklag hafi almennt gildi um hliðstæð mál er upp kunna að koma þar til annað verður ákveðið.
g. Kvörtunarmál nemanda.
– Samþykkt.
9. Mál til fróðleiks.
a. Úthlutun styrkja úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands 2024.
b. Úthlutun styrkja úr Rannsóknasjóði.
c. Úthlutun úr Samstarfi háskóla.
d. Árbækur Háskóla Íslands 2017, 2018, 2019 (drög).
e. Ársskýrsla Hugverkanefndar 2023.
f. Opið bréf rektors til starfsfólks um málefni Sáttmálasjóðs, birt á póstlistanum HI-starf 24. janúar 2023.
g. Fréttabréf Háskólavina, dags. 30. janúar 2024.
h. Tímarit Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.55.