Skip to main content
19. júní 2025

Yfir 40 nemendur útskrifast með diplómu úr fagháskólanámi í leikskólafræði

Yfir 40 nemendur útskrifast með diplómu úr fagháskólanámi í leikskólafræði

Eftir tveggja ára samstarf Menntavísindasviðs HÍ og Kennaradeildar HA um nýja námsleið útskrifuðust 42 nemendur síðastliðinn laugardag með diplómu Fagháskólanáms í leikskólafræði; 40 konur og tveir karlar. Allur hópurinn var boðinn til útskriftarathafnar við Háskólann á Akureyri með sjúkraliðum og lögreglunemum sem einnig höfðu lokið diplómanámi. Útskriftarathöfnin var hin glæsilegasta og um helmingur fagháskólanemenda hafði tök á að mæta. 
Kristín Jónsdóttir, dósent við Menntavísindasvið HÍ er formaður stjórnar fagháskólanámsins ávarpaði samkomuna þar sem hún lýsi stolti yfir námsárangri nemenda fagháskólanámsins. „Á námsleiðinni, Fagháskólanám í leikskólafræði, eru tíu námskeið, samtals 60 einingar, og námskeiðin eru til jafns úr leikskólakennaranámi við Kennaradeild HA og Deild kennslu- og menntunarfræði við HÍ. Brot af því besta, kann einhver að hugsa, já – við völdum saman frábær námskeið úr báðum skólum, með skýrri tengingu við leikskólastarf, þroska og tungumál, listir, sköpun og allskonar viðfangsefni leikskólabarna. Þessi námsleið verður að fullu metin inn í leikskólakennaranám við báða háskólana, fyrir þau sem það kjósa“. 
Námsleiðin er afrakstur þróunarverkefnis sem ber heitið, fagháskólanám í leikskólafræði á landsvísu og fékk styrk úr sjóðnum Samstarf háskóla frá menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu í ársbyrjun 2023. Sveitarfélög um land allt hafa líka stutt nemendur dyggilega í fagháskólanáminu því þeir hafa stundað námið einn morgun í viku og sótt eina tveggja daga staðlotu á hverju misseri, á fullum launum. Framhald verður á samstarfi háskólanna um námsleiðina Fagháskólanám í leikskólafræði. Nemendahópur sem hóf nám haustið 2024 heldur áfram á næsta skólaári en næst verður tekið inn nýtt fólk á námsleiðina haustið 2026. 
Kristín sagði einnig í ávarpi sínu við útskriftarathöfnina: „Kæru fagháskólanemar, leikskólastjórar um land allt hafa sagt að nám ykkar hafi þegar orðið til að efla starfið á leikskólunum. Að ljúka diplómu fagháskólanáms í leikskólafræði er mikils virði, fyrir leikskóla, fyrir þróun kennaramenntunar og fyrir ykkur sjálf, bæði persónulega og faglega – svo nú er sannarlega tími til að fagna“. 

Yfir 40 nemendur útskrifast með diplómu úr fagháskólanámi í leikskólafræði  MYND/Daníel Starrason
Kristín Jónsdóttir, dósent við Menntavísindasvið HÍ er formaður stjórnar fagháskólanámsins ávarpaði samkomuna  MYND/Daníel Starrason
+1

Yfir 40 nemendur útskrifast með diplómu úr fagháskólanámi í leikskólafræði MYND/Daníel Starrason