Skip to main content
28. október 2025

Yfir 130 erindi í félagsvísindum á ráðstefnu Þjóðarspegilsins

Yfir 130 erindi í félagsvísindum á ráðstefnu Þjóðarspegilsins - á vefsíðu Háskóla Íslands

Störf og sjálfsmynd á tímum samfélagsbreytinga, fordómar og smán, afbrot og barnavernd, fjölmiðlanotkun, stjórnmál og kosningar, gallar í nýbyggðum fjölbýlishúsum, jafnrétti og bakslag og ferðamannalandið Ísland er meðal þess sem verður til umfjöllunar á hinni árlegu ráðstefnu Þjóðarspegilins sem fram fer dagana 30. og 31. október í Háskóla Íslands. Ráðstefnan er öllum opin og aðgangur ókeypis.

Þetta er í 26. sinn sem ráðstefnan fer fram. Þar kemur saman bæði fræðafólk og nemendur við Háskóla Íslands og aðra háskóla á Íslandi auk samstarfsaðila víða í íslensku samfélagi og kynnir nýjustu rannsóknir í félagsvísindum en þær snerta samfélagsmál í afar víðum skilningi.

Ráðstefnan hefst á opnunarmálstofu í hádeginu fimmtudaginn 30. október í Hátíðasal Aðalbyggingar Háskólans en yfirskrift hennar er „Og hvað gerir þú?“ Störf og sjálfsmynd á tímum samfélagsbreytinga. Þar verður fjallað um hvað gerist þegar spurningin „Hvað vinnur þú við?“ hefur ekki lengur einfalt svar og hvernig fagleg sjálfsmynd fólks mótast í þessum nýja veruleika.

Karan Sonpar, prófessor við Háskólann í Dyflinni, flytur opnunarerindi og í kjölfar þess verður boðið upp á pallborð þar sem Steinunn Bergmann, formaður Félagsráðgjafafélags Íslands, Sif Einarsdóttir, prófessor í náms- og starfsráðgjöf við HÍ, og Bala Kamallakharan, stofnandi og framkvæmdastjóri Iceland Venture Studio, taka þátt. Magnús Þór Torfason, forseti Félagsvísindasviðs, stýrir umræðum.

Meðal þess sem fjallað er um á ráðstefnu Þjóðarspegilsins eru gallar í nýbyggðum fjölbýlishúsum.

Nokkrar málstofur verða jafnframt eftir hádegi á fimmtudag en meginþungi ráðstefnunnar verður föstudaginn 31. október. Alls verða flutt yfir 130 erindi á ráðstefnunni sem snerta jafn ólík viðfangsefni og krísur og áföll, menningu og skapandi greinar, hlutabréfamarkaði og heilbrigðistryggingar, netverslun og gervigreind, Rómafólk á Íslandi, vellíðan í starfi, verkalýðsbaráttu og vinnumarkað, tekjudreifingu og efnahagslegan hreyfanleika á Íslandi og hinseginleika í Star Trek.

Eru íslensk heimili búin undir hamfarir? er meðal þess sem spurt verður á ráðstefnu Þjóðarspegilsins.

Dagskrá málstofa á föstudeginum stendur frá kl. 9-16.15 og er hægt að kynna sér efni þeirra og ráðstefnunnar í heild á vef hennar.

Ágripabók ráðstefnunnar má einnig finna á vefnum.

""