Vettvangsskóli í fornleifafræði á Hofstöðum

Háskóli Íslands og Háskólinn á Hólum munu í sumar reka vettvangsskóla í fornleifafræði á Hofstöðum í Mývatnsveit í samstarfi við Minjastofnun Íslands. Skólinn, sem er ætlaður nemum í fornleifafræði, verður starfræktur 14. júlí-8. ágúst 2025.
Þetta er annað árið sem skólinn er rekinn, en sumarið 2024 sóttu nemar frá sjö háskólum í Evrópu og Norður-Ameríku hann. Vettvangsskólinn byggir þó á gömlum grunni, því á árunum 1996-2013 rak Fornleifastofnun Íslands ses vettvangsskóla í Mývatnssveit og síðar Vatnsfirði í samstarfi við ýmsa háskóla, þar á meðal Háskóla Íslands. Margir þeirra nemenda sem sóttu skólann héldu áfram í íslenskri fornleifafræði/fornleifafræði Norður Atlantshafsins, og eftir þátttakendur skólans liggja meðal annars tugir nemendaritgerða á öllum námsstigum.
Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu skólans og umsóknarfrestur er til og með 17. mars.