Skip to main content
15. nóvember 2024

Verðlaun veitt fyrir þrjár bestu viðskiptaáætlanirnar

Verðlaun veitt fyrir þrjár bestu viðskiptaáætlanirnar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hugmynd að sjálfvirkum padel-völlum í Reykjavík hlaut fyrstu verðlaun í úrslitum keppni um bestu viðskiptaáætlunina í námskeiðinu Viðskiptaáætlanir sem Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands býður upp á. Keppnin er haldin árlega í samstarfi við Íslandsbanka og í ár bárust sautján hugmyndir í samkeppnina.

Markmið námskeiðsins er að nemendur geti skapað og unnið með eigin viðskiptahugmyndir og lagt fram viðskiptaáætlanir í samhengi við stefnumótun fyrirtækja. Háskóli Íslands er í góðum tengslum við atvinnulífið og undanfarin ár hefur Viðskiptafræðideild verið í samstarfi við Íslandsbanka í námskeiðinu. Á þessu varð engin breyting í ár og Íslandsbanki veitti vegleg verðlaun við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands síðastliðinn þriðjudag. Fimm verkefni voru tilnefnd til verðlauna og valdi dómnefnd skipuð sérfræðingum frá HÍ og Íslandsbanka þau verkefni sem urðu í 1.-3. sæti. Valið í ár var afar erfitt enda áttu allar fimm hugmyndirnar erindi í þrjú efstu sætin.

Í fyrsta sæti var Padel-stöðin sem vill opna sjálfvirka Padel-velli í Reykjavík. Aðstandendur hugmyndarinnar hlutu 250.000 kr í verðlaun.

Í öðru sæti var PETSIT sem vill búa til snjallforrit sem tengir saman gæludýraeigendur sem vantar pössun fyrir gæludýrin sín og þau sem eru tilbúin að passa gæludýr. Hópurinn á bak við hugmyndina hlaut 150.000 kr.

Í þriðja sæti varð sálfræðisnjallforritið EIR. Um er að ræða sjálfshjálparforrit sem byggist á leikjafræði. Hugmyndasmiðir þess verkefnis hlutu 80.000 kr.

Fjöldi annarra athyglisverða verkefna leit dagsins ljós í námskeiðinu og ljóst er að ekki er skortur á hugmyndum hjá þátttakendum. Nú vonum við bara að flestir hópar hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.

Aðstandendur hugmyndanna fimm sem kepptu til úrslita í samkeppninni um bestu viðskiptaáætlunina.