Skip to main content
28. ágúst 2025

Tekist með eindæmum vel að umbreyta hóteli í háskóla

Tekist með eindæmum vel að umbreyta hóteli í háskóla - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Flutningur Menntavísindasviðs í Sögu er langþráður áfangi sem hefur verið stefnt að frá því að Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands sameinuðust árið 2008,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, sem er þessa dagana að koma sér fyrir í Sögu, nýjum húsakynnum sviðsins, ásamt samstarfsfólki og nemendum. Á rúmum þremur árum hefur hóteli, sem eitt sinn hýsti kóngafólk og poppstjörnur, verið breytt í fyrsta flokks háskólabyggingu þar sem kennarar framtíðarinnar og aðrar stéttir innan menntakerfisins munu sækja menntun sína og um leið verða hluti af hinu risastóra háskólasamfélagi á Melunum. 

Óhætt er að taka undir með Kolbrúnu að um langþráða stund sé að ræða. Ein af forsendunum fyrir sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskólans var sú að efla samstarf á milli ólíkra fræðasviða skólans, þar á meðal á sviði faggreinakennslu í grunn- og framhaldsskólum. Frá upphafi var gert ráð fyrir að Menntavísindasvið, sem tók við af Kennaraháskólanum, flyttist á aðalsvæði háskólans til þess að auðvelda slíkt samstarf og nú er sú stund að renna upp. „Flókin verkefni samtímans kalla einnig á þverfaglega samvinnu og staðsetning Menntavísindasviðs í hjarta háskólasvæðisins gerir fræðafólki og nemendum sviðsins kleift að taka enn virkari þátt í því dýnamíska háskólasamfélagi sem hér er. Staðsetning sviðsins á háskólasvæðinu ýtir enn frekar undir þverfræðilegar rannsóknir sem skipta íslenskt samfélag miklu máli. Síðast en ekki síst þá mun aðgengi nemenda að þjónustudeildum skólans og félagsstarfi stúdenta einnig taka stakkaskiptum,“ segir Kolbrún um þýðingu flutninganna fyrir sviðið og íslenskt samfélag. 

Kolbrun

Kolbrún Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, tók á móti nýnemum sviðsins ásamt samstarfsfólki í Sögu á dögunum. MYND/Kristinn Ingvarsson

Öll hönnun byggist á ítarlegri þarfagreiningu

Upphaflega stóð til að byggja nýtt hús á háskólasvæðinu fyrir Menntavísindasvið en óvænt tækifæri kom upp í hendurnar á stjórnvöldum þegar þeim bauðst að kaupa Hótel Sögu í samvinnu við Félagsstofnun Stúdenta í upphafi árs 2022. Allt frá þeim tíma hefur stór hópur fólks unnið ötullega að því að undirbúa flutningana og Sögu fyrir nýtt hlutverk. „Öll hönnun byggist á ítarlegri þarfagreiningu sem unnin var í samvinnu við starfsfólk og nemendur sviðsins,“ segir Kolbrún en sjálfur flutningur Menntavísindasviðs úr Stakkahlíð og Skipholti hefur staðið yfir í allt sumar.  

framkvaemdir

Súlnasalurinn gamli á Sögu er meðal þeirra rýma sem tekið hafa miklum breytingum. Myndin er frá stöðu framkvæmda árið 2024. MYND/Kristinn Ingvarsson

„Það var gríðarlega spennandi að taka á móti fyrsta hópi nýnema hér á aðalsvæði háskólans á dögunum, en verkefnið hefur sannarlega verið flókið því byggingin hefur ekki verið tekin öll í notkun. Starfsfólk og nemendur eru óþreyjufull að geta hafið starfsemi af krafti en það er afskaplega vel tekið á móti okkur hér á háskólasvæðinu og við finnum strax nú þegar fyrir hlýjum straumum frá samstarfsfólki okkar úr miðlægri stjórnsýslu og öðrum fræðasviðum,“ segir Kolbrún enn fremur.

Verið að ljúka við síðustu kennslurými og aðra mikilvæga aðstöðu fyrir nemendur og starfsfólk og að sögn Kolbrúnar standa vonir til þess að starfsleyfi til kennslu fáist í næstu viku. „Starfsfólk sviðsins vinnur nú að undirbúningi og frágangi kennslurýma í náinni samvinnu við framkvæmda- og tæknisvið HÍ og byggingaraðila. Það er gaman að segja frá því að nýr rektor, Silja Bára R. Ómarsdóttir, stefnir að því að halda haustgleði starfsfólks í Sögu 11. september næstkomandi og við finnum öll að það er mikil eftirvænting innan skólans að berja nýju byggingu Háskólans augum,“ bætir Kolbrún við. Gert er ráð fyrir að stærsti hluti húsnæðisins verði tekið í notkun á næstu tveimur mánuðum að hinu landsfræga Grilli undanskildu en vinna að nýju hlutverki þess mun taka lengri tíma. Einnig munu framkvæmdir á kjallara standa út árið, en þar verða m.a. aðstaða smíði og hönnunar ásamt hreyfirannsóknastofu, en þar hleypa ljósgarðar nú birtu inn á svæði sem áður hýsti dimmar geymslur.

Starfsfólk og nemendur Menntavísindasviðs eru að koma sér fyrir í Sögu þessa dagana. MYND/Kristinn Ingvarsson

Fjölbreyttar sérútbúnar kennslustofur mikið framfaraskref

Háskóli Íslands deilir Sögu meðal annars með Félagsstofnun stúdenta sem er með fjölmargar nemendaíbúðir í norðurhluta byggingarinnar. Áætlað er að skólinn nýti um þrjá fjórðu hluta byggingarinnar en auk Menntavísindasviðs hefur Upplýsingatæknisvið skólans komið sér fyrir í Sögu ásamt því sem þar verður ýmiss konar þjónusta. Heildarkostnaður við kaup og endurhönnun hússins er um 12,7 milljarðar króna en eins og fram hefur komið í fréttum þurfti að ráðast í meiri endurbætur á húsnæðinu en upphaflega var áætlað auk þess sem stærri hluti þess er nú nýttur undir kennslu en gert var ráð fyrir í upphafi. 

Óhætt er að segja að með endurbótunum og flutningum Menntavísindasviðs í Sögu búi þjóðin nú að framúrskarandi aðstöðu til að mennta kennara framtíðarinnar. „Satt best að segja hefur tekist með eindæmum vel að umbreyta hóteli í háskóla. Í Sögu er fjölbreytt náms- og kennsluaðstaða fyrir Menntavísindasvið. Þar er að finna sértæk námsrými fyrir listgreinar, meðal annars leiklistarstofu, myndlistarstofur, textílrými, smíðastofu og tónlistarstofu. Þá verður hreyfirannsóknastofa fyrir íþrótta- og heilsufræði sem er mikið framfaraskref,“ segir Kolbrún og bætir við að verkleg kennsla íþróttum fari áfram fram í Laugardal. 

„Þá vil ég einnig nefna sérstaklega sérhönnuð rými fyrir kennslu náttúruvísinda og stærðfræði sem er mikil þörf fyrir og í fyrsta sinn tökum við í notkun sérútbúnar leikstofur fyrir kennslu í menntunarfræðum yngri barna. Eitt af lykilmarkmiðum flutningsins var einmitt að stórbæta náms-og kennsluaðstöðu fyrir nemendur og kennara og efla þannig gæði námsins. Það er því mikill áfangi að taka í notkun þessi glæsilegu kennslurými,“ segir Kolbrún.  

Ný frumgerðarsmiðja og tækni- og sköpunarver

Menntavísindasvið hefur lagt mikla áherslu á gott samstarf við vettvang, þ.e. þær stofnanir og aðila í samfélaginu sem koma að menntun og umönnun barna og ungmenna. Þessum hópum verður sannarlega boðið að skrifa nýja Sögu með starfsfólki og nemendum Menntavísindasviðs. „Í Sögu verður nýtt hjarta menntavísinda og íþrótta- og heilsufræða og þangað mun leið margra sem starfa og stunda nám á þeim sviðum liggja. Húsið verður því iðandi af lífi, um 2.500 nemendur stunda nám á Menntavísindasviði,“ undirstrikar Kolbrún og tekur sérstaklega fram að framhaldsnám sviðsins sé ávallt vel sótt, enda skipuleggi sviðið meðal annars sérhæft nám fyrir stjórnendur menntastofnana ásamt fjölmörgum námsleiðir fyrir kennara og fagfólk sem tengist brýnum viðfangsefnum skóla- og frístundastarfs. „Þá standa deildir sviðsins og NýMennt, starfsþróunareining okkar, fyrir ýmiss konar námskeiðum, fræðslu og viðburðum sem standa fagfólki í skóla- og frístundastarfi til boða.“  

Sem dæmi má nefna að á fyrstu hæð verður ný frumgerðarsmiðja og tækni- og sköpunarver í samvinnu sviðsins við Verkfræði -og náttúruvísindasvið HÍ og Mixtúru, tækniver skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, sem mun glæða húsið spennandi lífi. „Þarna verður aðstaða sem hefur verið beðið eftir innan skólans og mun bæði fagfólk á sviði menntunar og háskólanemar fá aðgengi að margvíslegum stafrænum tækjabúnaði til miðlunar og sköpunar,“ bætir Kolbrún við.

mottaka nynema

Frá mótttöku nýnema á Sögu á dögunum. MYND/Kristinn Ingvarsson

Mikill meirihluti nemenda segir námið nýtast vel

Mikil gróska hefur verið bæði í umræðum um skólamál, menntun kennara og menntarannsóknir í samfélaginu síðustu misseri enda kennarastarfið í sífelldri þróun að sögn Kolbrúnar. Menntavísindasvið kappkosti að bregðast við því. „Nýleg skýrsla háskólamálaráðuneytis sýndi að um 81% nýúskrifaðra kennara frá MVS sögðust telja að námið hefði nýst sér vel sem undirbúningur og sama könnun sýndi að um 83% þeirra voru starfandi við kennslu tveimur árum eftir útskrift frá Menntavísindasviði. Þetta samræmist ágætlega okkar eigin könnunum, en háskólinn kannar reglulega viðhorf nemenda til skipulag og inntaks náms sem lið í gæðastarfi sínu,“ bendir hún á.

Mikið hefur verið fjallað um það hvort það sé hægt að kenna alla þá eiginleika sem þarf til að vera góður kennari og Kolbrún undirstrikar margt sé hægt að gera til að undirbúa þau sem ætla sér að starfa við kennslu sem best. „Hér á Menntavísindasviði eru í boði ákaflega fjölbreyttar námsleiðir til kennsluréttinda enda menntum við kennara til starfa á öllum skólastigum, faggreinum og námssviðum menntakerfisins. Við skipuleggjum einnig nám íþrótta- og heilsufræðinga, uppeldis-og menntunarfræðinga, þroskaþjálfa og tómstunda- og félagsmálafræðinga,“ segir hún. 

Óraunhæft sé þó að ætla að hægt sé að læra allt sem starfið krefst í náminu einu og saman. „Í raun er kennarastarfið ævimenntun og það skiptir ekki síst miklu máli að nýútskrifaðir kennarar fái sérstakan stuðning fyrstu ár í starfi. Á undanförnum árum hafa verið gerðar miklar breytingar á kennaranámi, til að mynda stendur kennaranemum til boða launað starfsnám á 5 ári, við höfum innleitt raunfærnimat, þ.e. mat á fyrri reynslu og þekkingu, inn í leikskólakennaranámið og við munum bæta fleiri námsleiðum við á næstunni,“ segir Kolbrún enn fremur.

Þá undirstrikar Kolbrún að í allri umræðu um það sem betur megi fara í menntakerfinu megi ekki gleyma því að íslenskt skólakerfi hafi marga styrkleika og „ungt fólk sem brautskráist úr skólakerfinu okkar vegnar almennt mjög vel í lífinu, skilar sér út í atvinnulífið og gengur vel í framhaldsnámi erlendis.“

Saga

Framkvæmdum á Sögu er að ljúka að Grillinu landsfræga og kjallara hússins undanskildum. MYND/Kristinn Ingvarsson

Opnunarhátíð Sögu verður á Menntakviku 

Þegar talið berst að menntarannsóknum bendir Kolbrún á að þær hafi verið í mikilli sókn síðustu ár og halda þurfi áfram á þeirri vegferð í nýjum húsakynnum. „Fræðafólk sviðsins vinnur að margvíslegum rannsóknum sem hjálpa okkur að skilja þau öfl sem móta menntakerfið og nám og þroska einstaklinga,“ segir Kolbrún.

Það gefst afar gott tækifæri til að kynna sér þessar rannsóknir og um leið nýja Sögu á árlegri ráðstefnu Menntavísindasviðs, Menntakviku, sem haldin verður 2.-4. október. „Það eru spennandi tímar fram undan í menntavísindum og við hvetjum öll til að koma á opnunarhátíð Sögu sem haldin verður á lokadegi Menntakviku laugardaginn 4. október,“ segir Kolbrún að endingu.

Frá nýnemadögum HÍ