Skip to main content
11. ágúst 2025

Sigldu í heimsókn á Bessastaði

Hópur nemenda og kennara HÍ sem sigldi á Bessastaði

Síðastliðinn föstudag, 8. ágúst, reru nemendur á Menntavísindasviði HÍ í heimsókn á Bessastaði ásamt kennurum við skólann. Siglingin var liður í námskeiðinu Staðartengd útimenntun þar sem rík áhersla er lögð á menntunargildi þess að vera úti og læra úti. Þar er unnið í nánu samstarfi við fagvettvang með reynslumiklu starfsfólki frá Siglingaklúbbnum Siglunesi hjá Reykjavíkurborg og Hrafnhildi Sigurðardóttur, kennara við Sjálandsskóla og stundakennara við Háskóla Íslands.Fjölbreyttur hópur kennara af Menntavísindasviði tók þátt í kennslunni á þessu námskeiði, þar á meðal  Jakob Frímann Þorsteinsson, Ása Helga Proppé Ragnarsdóttir, Edda Elísabet Magnúsdóttir og Mark Leather, gestaprófessor við Háskóla Íslands. Hrafnhildur Sigurðardóttir hlaut Íslensku menntaverðlaunin fyrir framúrskarandi kennslu og hugmyndaríka útikennslu, þróun fjölbreyttra valgreina og leiðsögn við kennara og kennaraefni um útivist og umhverfismennt. Í siglingunni sagði frá því hvernig hún og samstarfsfélagar hennar í Sjálandsskóla samþætta útivist, róður og strandmenningu í starf skólans á skapandi hátt á öllum skólastigum.  

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, tók vel á móti hópnum á Bessastöðum ásamt eiginmanni sínum, Birni Skúlasyni. Hún ávarpaði hópinn er þau komu í land auk þess sem þreyttum en glöðum ræðurum var boðið upp á kaffi og flatkökur með hangikjöti. Í ávarpi sínu ræddi forseti Íslands m.a. um mikilvægi þess að njóta náttúrunnar og nota hana til kennslu auk þess sem hún náttúran væri brú til betri tengsla. 

„Þær tvö hundruð tuttugu og þrjár tilkynningar sem börn á aldrinum 13-16 ára fá daglega í símann sinn hafa valdið allskonar skaða. Ég held að stóri skaðinn sé tengslarofið. Við höfum aldrei verið tengdari, en einnig aftengdari því sem skiptir okkur sköpum, sem eru tengslin við hvert annað og okkur sjálf, tengslin milli kynslóða og ekki síst tengslin við náttúruna. Ég tel að leiðin til að búa til öll þessi tengsl sé að fara út í náttúruna. Þá tengjumst við okkur sjálfum og um leið öðrum í kringum okkur.“

Jakob Frímann Þorsteinsson, lektor við Menntavísindasvið, heldur utan um námskeiðið Staðartengd útimenntun og sagði einnig örfá orð.„Von okkar er ekki eingöngu að skapa þessa æðislegu upplifun fyrir okkur sjálf heldur einnig að við hér í dag sem sigldum stígum svo fram og sköpum tækifæri fyrir aðra til að upplifa náttúruna. En samfélagið þarf að styðja við þetta og við þurfum að skapa tækifæri fyrir fólk sem starfar í skólum og í frístundastarfi að læra að kenna úti og vera úti með nemendum sínum. En þá spyrjum við okkur, hvað er útikennsla og hvað lærum við með henni? Hvers konar menntun er þetta þar sem við lærum um náttúruna í náttúrunni? Það er spurning sem við þurfum að glíma við og skilgreina.“ Að lokum þakkaði Jakob forseta Íslands fyrir góðar móttökur og fyrir að vekja um athygli á mikilvægi útimenntunar.

Í þessari sjóferð eins og öðrum var töluverð óvissa og mikill mótvindur á leið til Bessastaða. Ferðin fól því í sér mikinn lærdóm fyrir hópinn því aðlaga þurfti ferðaáætlun að veðri og straumum og því má segja að hún hafi einnig verið góður undirbúningur fyrir hvaða kennslu sem er, inni sem úti.

Hópur nemenda og kennara HÍ sem sigldi á Bessastaði MYNDIR/Marta Goðadóttir
Hópur kennara HÍ sem sigldi á Bessastaði MYNDIR/Marta Goðadóttir
MYNDIR/Marta Goðadóttir
Hluti af hópi nemenda HÍ sem sigldi á Bessastaði MYNDIR/Marta Goðadóttir
Hluti af hópi nemenda HÍ sem sigldi á Bessastaði MYNDIR/Marta Goðadóttir