Skip to main content
23. júní 2025

Samstarf HÍ og skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar endurnýjað

Samstarf HÍ og skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar endurnýjað - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fulltrúar Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar endurnýjuðu á dögunum samning um samstarf á sviði starfsþróunar, rannsókna og nýsköpunar í menntamálum. Samningurinn var fyrst gerður árið 2019 og var nú endurnýjaður í annað sinn.

Samtvinnun skólastarfs og fræðasamfélags

Samningnum er ætlað að styðja við innleiðingu menntastefnu Reykjavíkur, „Látum draumana rætast“, fyrir tímabilið 2025–2027. Meðal markmiða er að samþætta vettvang skóla- og frístundastarfs, skólaþjónustu og fræðasamfélags og stuðla þannig að framþróun náms og kennsluhátta. Einnig á samningurinn að efla nýsköpun í menntun og starfsþróun starfsfólks í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi.

Samningurinn felur einnig í sér vissa samþættingu starfsemi, aðstöðu og þjónustu Nýmenntar Menntavísindasviðs og Mixtúru sem er sköpunar- og tækniver skóla- og frístundasviðs. Í Háskóla Íslands annast Menntavísindasvið framkvæmd samningisins og skóla- og frístundasvið fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

Styður við þróunarstarf og nýsköpun í menntun

Samningurinn gerir ráð fyrir að unnin verði aðgerðaráætlun til þriggja ára þar sem áhersla er á:

  • Fjölbreytta starfsþróun og kynningu á tækifærum til náms.
  • Samstarf um rannsóknir og nýsköpun með áherslu á farsæld, læsi og stafræna umbreytingu.
  • Uppbyggingu sköpunarsmiðju í Sögu með áherslu á STEAM-menntun og samfélagslega nýsköpun.
  • Að horfa til framtíðar og styðja margvíslegt þróunarstarf og nýsköpun í menntakerfinu.

Lykilaðilar í samstarfinu frá skóla- og frístundasviði eru: Nýsköpunarmiðja menntamála, Mixtúra og starfsþróunarhópur sviðsins. Frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands eru: Nýsköpunarstofa menntunar og NýMennt sem stendur fyrir nýsköpun og menntasamfélag.

Undir samninginn rituðu Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri, Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, Steinn Jóhannsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, og Kolbrún Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs. 
 

Fulltrúar Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar við undirritun samninganna.

Fulltrúar Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar við undirritun samninganna. MYND/Kristinn Ingvarsson