Skip to main content
22. september 2025

Sálfræðin var góður grunnur fyrir markaðsfræði

Sálfræðin styrkti skilning á markaðsfræði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sonja Sigríður Jónsdóttir útskrifaðist vorið 2023 með meistaragráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Í dag starfar Sonja sem markaðsfulltrúi hjá KPMG þar sem hún nýtir bæði þekkingu og reynslu úr náminu daglega í fjölbreyttum verkefnum.

Frá sálfræði yfir í viðskiptafræði

Sonja hóf nám í sálfræði en áttaði sig snemma á því að áhugi hennar lægi ekki í klínískri sálfræði. „Á öðru ári skráði ég mig í viðskiptafræði sem aukagrein. Ég lauk síðan B.Sc.-gráðu í sálfræði með viðskiptafræði sem aukagrein og þannig varð viðskiptafræðin um þriðjungur af grunnnáminu mínu,“ segir hún.

„Sálfræðin var mjög góður grunnur að skilningi á neytendahegðun og atferli fólks sem nýtist vel í markaðsfræði. Svo fékk ég mjög góða tölfræðikennslu sem kom sér gríðarlega vel í markaðsrannsóknum og meistararitgerðinni minni.“

Eftir útskrift úr grunnnáminu lá leiðin í meistaranám í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum.

Skapandi nálgun og áhugi á hegðun

Það sem dró Sonju að markaðsfræðinni var blanda af sköpunargleði og áhuga á mannlegu eðli. „Ég hef alltaf haft gaman af því að skapa efni, fylgjast með samfélagsmiðlum og velta fyrir mér hvernig fólk hugsar og hegðar sér. Ég vildi læra meira um samfélagsmiðla og vörumerki og allt sem liggur að baki þeim. Markaðsfræðin sameinar þetta allt.“

Í meistaraverkefninu sínu fjallaði Sonja um vinnustaði sem vörumerki. Hún þróaði tillögu að mælitæki sem vinnustaðir geta notað til að meta hvernig þeir birtast út á við sem vinnustaðir. „Ég vann verkefnið með dr. Friðriki Larsen og fékk jafnframt tækifæri til að vinna hjá honum í fyrirtækinu Brandr og verkefnið tengist mínu starfi í dag mjög vel.“

Fjölbreyttur bakgrunnur getur verið eftirsóknarverður

Sonja starfar sem fyrr segir sem markaðsfulltrúi hjá KPMG, þar sem hún er hluti af þriggja manna markaðsteymi. Hlutverkið er fjölbreytt og spannar samfélagsmiðla, efnissköpun, viðburðahald og vörumerkjastjórnun. „Ég sé alfarið um samfélagsmiðla KPMG og skipulegg viðburði af ýmsum stærðum, frá litlum morgunfundum upp í hundraða manna ráðstefnur. Ég vinn líka náið með mannauðsteyminu við að því að byggja upp vinnustaðinn sem vörumerki.“

Sonja segir að fjölbreyttur bakgrunnur í námi og félagsstörfum hafi án efa nýst vel í umsóknarferli. „Ég þekkti ekki neitt til KPMG áður en ég sótti um. Ég sá starf sem mér fannst áhugavert og ákvað að prófa. Stundum skiptir hugarfar, persónuleiki og drifkraftur meira máli en það sem stendur á blaðinu.“

Hún hvetur því nemendur til að sækja um störf sem vekja áhuga jafnvel þótt þau sem umsækjendur tikki ekki í öll box. Þú gætir verið rétta manneskjan í starfið. Þú veist það aldrei nema að reyna.

Námið er góður grunnur en vinna er stöðugur lærdómur

Aðspurð hvernig námið nýtist í starfi segir Sonja: „Námið hefur klárlega nýst mér í starfi, sérstaklega þegar kemur að fræðilegum grunni og skilningi á markaðsfræðum. Fyrstu árin á vinnumarkaði einkennast líka af miklum lærdómi og ég vona að það haldi þannig áfram. Ég hef líka verið heppin með vinnustað sem hefur leyft starfinu mínu að þróast með mér og mínum áhugasviðum.“

Mælir með því að fara í skiptinám

Sonja fór í skiptinám á síðasta ári í meistaranáminu, til BI-háskólans í Osló. „Þetta var frábær upplifun. Skólinn var mjög alþjóðlegur og Osló er frábær borg. Ég hefði alveg viljað vera þar lengur. Skiptinám gefur þér ekki bara nýja sýn heldur sýnir líka vinnuveitendum að þú ert ekki hrædd við áskoranir og nýjar aðstæður.“

Að lokum deilir Sonja mikilvægu ráði til þeirra sem eru að hefja nám: „Taktu virkan þátt í háskólasamfélaginu, bæði í náminu og félagsstarfi. Eitt það mikilvægasta sem þú tekur með þér úr háskólanámi er tengslanetið þitt.“