Skip to main content
9. desember 2024

Nýtt fræðsluefni um áhættuþætti æðakölkunar og hjartasjúkdóma

Nýtt fræðsluefni um áhættuþætti æðakölkunar og hjartasjúkdóma - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hvernig getum við komið í veg fyrir æðakölkun og aðra hjartasjúkdóma? Hvernig getum við nýtt upplýsingar úr sameindum í líkamanum og gervigreind til þess að þróa nýjar leiðir í forvörnum, greiningu og meðferð við æðakölkun? Þessum spurningum er svarað í nýju fræðsluefni fyrir almenning sem Georgios Kararigas, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, hefur unnið innan rannsóknarverkefnsisins AtheroNET.

Æðakölkun á sér stað þegar ýmiss konar efnasambönd, eins og fita og kólesteról, safnast upp í slagæðum og þrengja þær og hafa þannig áhrif á blóðflæði um æðarnar. Þetta getur leitt til hjartaáfalla og heilablóðfalls. Æðakölkun og fylgikvillar hennar eru helsta dánarorsök fólks í Evrópu og til þess að draga úr slíkum tilvikum og bæta lífslíkur og batahorfur sjúklinga er þörf á að þróa nýjar leiðir til forvarna og meðferðar þar sem tekið er tillit til þeirra ólíku þátta sem hafa áhrif á meingerð æðakölkunar auk hinna hefðbundnu áhættuþátta.

Hópur vísindamanna innan evrópska samstarfsverkefnisins AtheroNET (CA21153) vinnur að því að þróa slíkar leiðir. Þeir hafa þá trú að nýta megi ýmiss konar upplýsingar tengdar lífmengjafræði mannsins, sem tengist virkni sameinda í frumum líkamans og erfðaefni, ásamt gervigreind og vélrænu námi til að þróa nýja leiðir til að fyrirbyggja, greina og fást við æðakölkun. Verkefnið nýtur stuðnings frá COST-áætlun Evrópusambandsins á sviði vísinda og tækni. 

Georgios Kararigas, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, leiðir þann hluta verkefnisins sem snýr að miðlun vísindanna á bak við verkefnið. Hann hefur ásamt samstarfsfólki útbúið fræðsluefni tengt verkefninu og áhættuþáttum hjartasjúkdóma í formi tveggja skýringarmynda. 

hjartaheilsa

Skýringarmyndin þar sem fjallað er um einkenni og áhættuþætti hjartasjúkdóma.

Á annarri þeirra er farið yfir einkenni hjartasjúkdóma og leiðir til forvarna en á hinni er útskýrt hvernig rannsóknir og gögn tengd sameindum líkamans, svokölluð marglaga lífmengjafræði (e. multiomics), og gervigreind geta hjálpað vísindafólki að skilja betur hvers vegna fólk fær hjartasjúkdóma og hvernig hægt er að spá fyrir um hverjir fá slíka sjúkdóma, hvernig þróa má ný lyf við sjúkdómunum og hvaða meðferð hentar ólíkum sjúklingum. Skýringarmyndirnar hafa m.a. verið útbúnar á íslensku og það má sjá þær hér að ofan og neðan. 

lifmengjafraedi

Skýringarmyndin þar sem komið er inn á lífmengjafræði og hlutverk þeirra.

Vísindahópurinn hefur einnig útbúið samhljóðandi myndbönd á ensku:  

Myndband um einkenni hjartasjúkdóma og leiðir til forvarna

Myndband um hvernig marglaga lífmengjafræði og gervigreind geta breytt því hvernig við fáumst við hjartasjúkdóma 

Nánari upplýsingar um AtheroNET-verkefnið
 

Georgios Kararigas