Skip to main content
4. febrúar 2025

Ný og umfangsmeiri útgáfa Hlutafélagaréttar

Ný og umfangsmeiri útgáfa Hlutafélagaréttar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin hjá Fons Juris útgáfu ehf. bókin Hlutafélagaréttur eftir Stefán Má Stefánsson, prófessor emeritus við Lagadeild Háskóla Íslands. Útgáfu bókarinnar var fagnað á Háskólatorgi á dögunum.

Bókin fjallar um öll helstu álitamál hlutafélagaréttarins. Í henni er m.a. fjallað um stofnun, skráningu, hluti, breytingar á hlutafé félags og sjóði þess. Þá er fjallað um stjórnkerfi félaga, endurskoðun og ársreikninga, samruna, félagsslit og mörg fleiri atriði. Um er að ræða endurskoðaða útgáfu ritsins Hlutafélagaréttur sem kom út árið 2013. Í þessari útgáfu eru gerðar umfangsmiklar breytingar frá fyrra riti. 

Efnistökum bókarinnar er þannig háttað að hlutafélagarétturinn sjálfur, þ.e. kjarni hans, er í fyrirrúmi. Þar er átt við stofnun og slit hlutafélags, skráningu, hluti og stjórnareiningar. Önnur skyld atriði á boð við endurskoðun, ársreikninga og lagareglur um fjármálafyrirtæki og skipulega verðbréfamarkaði eru einnig tekin til skoðunar en í styttra máli. 

Stefán Már Stefánsson, höfundur bókarinnar, var árið 1975 skipaður prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands. Stefán á langan ritferil að baki á sviði lögfræði og hefur samið ýmis grundvallarrit á þeim vettvangi.

Hægt að kaupa bókina á vef Fons Juris útgáfu.

Frá útgáfuhófinu á Háskólatorgi. Stefán Már er fyrir miðri mynd.
Stefán Már tekur við hamingjuóskum frá Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ.
https://hi.is/sites/default/files/bgisla/hlutafelagarettur_kapa_1_minni.png