Ný námsleið um jafnréttismenntun og jafnréttisfræði í skólastarfi í boði

Nýverið var námsleiðin, Jafnréttismenntun og jafnréttisfræði í skólastarfi sett á laggirnar á Menntavísindasviði. Þá hefur á undanförnum árum verið lögð aukin áhersla á kennslu um jafnrétti í námi á Menntavísindasviði. Katrín Ólafsdóttir, lektor við Menntavísindasvið, er námsbrautarformaður samfélagsgreina og stýrir þar nýju námsleiðinni ásamt Írisi Ellenberger, prófessor.„Meginmarkmið þessarar námsleiðar er að mennta kennara til starfa í grunnskólum sem hafa sérþekkingu á jafnréttismenntun og jafnrétti, einum af sex grunnþáttum menntunar samkvæmt aðalnámskrá á Íslandi. Námið skiptist annars vegar í námskeið sem snúast um kennslufræði og vettvangsnám og hins vegar í námskeið sem lúta að sérhæfingu á sviði jafnréttis og jafnréttismenntunar,“ segir Katrín.
Hún bendir jafnframt á að námsleiðin uppfyllir kröfur menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytis um aukna jafnréttiskennslu í kennaranámi og sé í samræmi við stefnu Háskólans í jafnréttismálum og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. „Lögð er áhersla á að nemendur rækti með sér jafnréttisnæmi og hæfileika til að bæði sinna jafnréttiskennslu og flétta jafnréttismenntun saman við almenna kennslu í grunnskólum. Kennarar með slíka menntun búa yfir hæfni til þess að auka gæði skólastarfs á grunni rannsókna um jafnréttismenntun og jafnrétti (og misrétti) í skólastarfi, hvort sem er í sínum skólastofum eða sem leiðtogar á sínum vinnustað, sem leitt geta jafnréttisstarf á breiðum grundvelli,“ segir Katrín.
„Fyrir um tveimur árum var ákveðið að leggja aukna áhersla á kennslu um jafnrétti í námi á Menntavísindasviði.“
Svar við ákalli nemenda og starfandi kennara
„Ákall hefur verið frá nemendum grunn- og framhaldsskóla um aukið jafnréttislæsi starfsfólks skóla og líka frá starfandi kennurum og öðrum hagaðilum um árabil. Á undanförnum árum hafa fjölmargir hagaðilar lýst yfir mikilvægi þess að kennaranemar rækti með sér jafnréttisnæmi og hæfileika til þess að sinna bæði jafnréttiskennslu og flétta jafnréttismenntun saman við almenna kennslu í grunnskólum. Þó margt hafi áunnist í þeim málum hefur þó hingað til ekki verið sérstök námsleið í boði á Íslandi sem veitir nemendum meistaragráðu með sérhæfingu í jafnréttismenntun og leyfisbréf til kennslu. Námsleiðin er því sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og mikilvægt framfaraskref. Fyrir kennaranámið í heild sinni er mikilvægt að geta sagt að við þjálfum nú nemendur okkar í jafnréttisfræðum og eflum hæfni kennara til þess að starfa í anda jafnréttis eins og lög kveða á um,“ segir Katrín.
Fyrir um tveimur árum var ákveðið að leggja aukna áhersla á kennslu um jafnrétti í námi á Menntavísindasviði og varð jafnréttisnámskeið að skylduáfanga í flestum námsleiðum sviðsins. Innan deilda hafa ýmist eldri námskeið verið endurmótuð eða ný námskeið um jafnréttismenntun og jafnréttisfræði sett á laggirnar. Hugmyndin var sú að þar sem deildirnar þjóna ólíkum skólastigum færi vel á því að fjölbreyttir nemendahópar fengju sérhæfða jafnréttismenntun í tengslum við þá snertifleti við skólakerfið sem um ræðir hverju sinni.
Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, tekur undir með Katrínu og segir námsleiðina sérstaklega mikilvæga í nútímasamfélagi. „Námsleiðin Jafnréttismenntun og jafnréttisfræði í skólastarfi er mikilvægur valkostur í kennaranámi en jafnframt tel ég gríðarlega mikilvægt að virkja grunnþáttinn jafnrétti í öllu kennaranámi með því að gera jafnréttisfræði að skylduáfanga í kennaranáminu. Kennarar eru með framtíð þessa lands í höndum sér og vinna með fjölbreytta nemendahópa sem er oft flókið og því mikilvægt að skilja bæði eigin félagslega stöðu og nemenda sinna. Samfélag okkar verður æ fjölbreyttara og margar áskoranir sem kennarar og skólar þurfa að mæta í þessu samhengi. Í jafnréttisnáminu er meðal annars rýnt í hvernig skapa megi nemendum umhverfi þar sem öllum líði vel og upplifi sig örugg og tilheyra. Því er gríðarlega mikilvægt að fagfólk á vettvangi hafi undirstöðuþekkingu á jafnréttismálum.“
Mikilvægt framlag til jafnréttismála og menntamála
„..þetta eykur að mínu mati færni útskrifaðra kennara til að takast á við áskoranir í menntakerfi nútímans“
Arnar Gíslason, jafnréttisfulltrúi við Háskóla Íslands, tekur í sama streng. „Þetta er stórt og þýðingarmikið skref sem Menntavísindasvið HÍ hefur stigið og það skiptir virkilega miklu máli að tryggja þekkingu á jafnréttismálum í faginu. Kennarar á öllum skólastigum landsins gegna mjög mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi og þetta eykur að mínu mati færni útskrifaðra kennara til að takast á við áskoranir í menntakerfi nútímans. Ég tel þetta því vera mikilvægt framlag háskólans til jafnréttismála en ekki síður til menntamála.“
„Jafnréttisfræðin eru linsa sem við leggjum ofan á allt annað sem við erum að fást við í skólanum“
Katrín segir samfélagslegan ávinning jafnréttismenntunar í kennaranámi ótvíræðan. „Um leið og starfandi kennarar á vettvangi öðlast þessa jafnréttisþjálfun geta þeir frekar verið vakandi fyrir og leyst úr fjölda mála sem snúa að jafnrétti og tengjast daglegum störfum þeirra. Það má leiða líkur að því að slík nálgun efli hæfni kennara til þess að skapa rými þar sem nemendum líður vel og þar sem nemendum líður vel vilja þeir vera og eiga betra með að læra. Jafnréttisfræðin eru linsa sem við leggjum ofan á allt annað sem við erum að fást við í skólanum og hjálpar okkur að rýna aðstæður okkar í vinnunni og aðstæður nemenda. Fyrir samfélagið skilar þetta því kennurum sem láta sig málin varða, sem leggja áherslu á að allir nemendur njóti sín í skólanum og upplifi sig tilheyra skólasamfélaginu,“ segir Katrín að lokum.
