Skip to main content
28. febrúar 2020

Mýrargarður vígður

Frá stúdentagörðum

Nýr stúdentagarður Félagsstofnunar stúdenta (FS), sem stendur á Vísindagarðasvæði Háskóla Íslands og hlotið hefur nafnið Mýrargarður, var vígður í gær að viðstöddum nýjum íbúum og fjölda gesta. Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri FS, bauð gesti velkomna ásamt borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni, sem lagði lokahönd á húsið. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, minntist Eiríks Hilmarssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Vísindagarða Háskóla Íslands, í ræðu sinni en minning Eiríks var heiðruð sérstaklega í með formlegri opnun samkomusalarins Eiríksbúðar, að viðstaddri ekkju Eiríks, Aðalheiði Héðinsdóttur, og afkomendum. 

Mýrargarður er stærsti stúdentagarður sem byggður hefur verið og jafnframt fjölmennasta íbúarhús á landinu á einu húsnúmeri. Húsið stendur við Sæmundargötu 21, á Vísindagarðareit Háskóla Íslands. Mýrargarður er um 14.000 fm að stærð á fimm hæðum, með um 244 leigueiningar fyrir barnlaus pör og einstaklinga, alls tæplega 300 manns. Boðið er upp á nýtt íbúðarform sem hefur gefist vel, þar sem einstaklingar eða vinahópar búa saman í 8 og 9 herbergja íbúðum. Herbergin eru með sér baðherbergjum en fullbúnum eldhúsum og setustofum er deilt.

FS hefur með markvissri uppbyggingu stúdentagarða náð að vinna á löngum biðlistum eftir plássi og getur nú úthlutað fleirum húsnæði en áður. Frá árinu 2013 hefur FS fjölgað leigueiningum sem nemur um 645. Er þá fjöldi leigueininga í eigu FS um 1.450, sem hýsa stúdenta og fjölskyldur þeirra, þ.e. um 2.000 manns. FS hefur því með byggingu Mýrargarðs náð markmiði um byggingu tæplega helmings þeirra leigueininga sem stefnt er á að byggja á næstu árum. 

„Mýrargarður er afsakaplega fallegt og vel skipulagt hús. Það er okkar keppikefli að geta boðið stúdentum Háskóla Íslands upp á gott og öruggt húsaskjól á sanngjörnu verði og þessi bygging er sannarlega lóð á þær vogarskálar. Mikil uppbygging á húsnæði hefur komið hreyfingu á úthlutun á húsnæði sem hefur stytt bið eftir plássi. Til að mynda geta nýstúdentar nú sótt um húsnæði á stúdentagörðum á sama tíma og þeir sækja um nám í mars. Mig langar til að þakka Vísindagörðum, Háskóla Íslands og Reykjavíkuborg fyrir gott samstarf í gegnum tíðina sem og öllum þeim sem aðstoðuðu okkur við að hanna og fjármagna byggingu hússins. Að auki óska ég nýjum íbúum til hamingju með nýja heimilið sitt,“ segir Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta.

„Mér telst til að á fyrstu 100 árum frá stofnun háskólans eða til 2011 voru stúdentaíbúðir um 700. Á síðustu árum hefur okkur tekist að um það bil tvöfalda þann fjölda stúdentaíbúða og það er miklu meira fram undan,“ segir Dagur B Eggertsson borgarstjóri. Það sem FS hefur tekist er að skapa samfélag stúdenta þar sem allir eru með og Mýargarður er frábært dæmi um það. Um leið er það það sem við höfum unnið að á undanförnum árum,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

„Ég óska FS, stúdentum og Háskóla Íslands innilega til hamingju með daginn. Mýrargarður er glæsilegur og mikil lyftistöng fyrir okkur öll. Mér finnst einkar vel til fundið að Eiríksbúð sé nefnd eftir Eiríki Hilmarssyni heitnum. Eiríkur, fyrrverandi framkvæmdastjóri Vísindagarða Háskóla Íslands var einstakur og alger lykilmaður í því að gera Vísindagarða að því sem þeir eru í dag. Hann var vakinn og sofinn yfir verkefninu og afar mikilvægur tengiliður á mili HÍ, FS og borgarinnar,“ Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Markmið FS er að geta veitt 15% nemenda við Háskóla Íslands húsaskjól, sem er svipað viðmið og á Stúdentagörðum við háskóla víða á Norðurlöndunum. Í dag stendur sú tala í 11%. Nemendur við Háskóla Íslands eru ríflega 13.100 talsins. 

Mýrargarður er um 14.000 fm að stærð á fimm hæðum, með um 244 leigueiningar fyrir barnlaus pör og einstaklinga, alls tæplega 300 manns. Boðið er upp á nýtt íbúðarform sem hefur gefist vel, þar sem einstaklingar eða vinahópar búa saman í 8 og 9 herbergja íbúðum. Herbergin eru með sér baðherbergjum en fullbúnum eldhúsum og setustofum er deilt.

Um Félagsstofnun stúdenta

Félagsstofnun stúdenta (FS) er sjálfseignarstofnun með sjálfstæða fjárhagsábyrgð. FS var stofnuð árið 1968 og tók formlega til starfa 1. júní sama ár. Aðild að stofnuninni eiga allir skrásettir stúdentar við Háskóla Íslands, Háskólinn og Menntamálaráðuneytið. FS er fyrst og fremst þjónustufyrirtæki fyrir stúdenta við Háskóla Íslands og er aðalmarkmið að bjóða stúdentum við HÍ góða þjónustu á góðum kjörum og auka lífsgæði þeirra. Félagsstofnun stúdenta rekur Stúdentagarða, Stúdentakjallarann, Bóksölu stúdenta, Hámu veitingasölu og Leikskóla stúdenta (Sólgarð, Mánagarð og Leikgarð).  Gildi FS eru: Góð þjónusta – Virk samvinna – Jákvæð upplifun – Markviss árangur. 

Um Vísindagarða

Háskóli Íslands stofnaði eignarhaldsfélagið Vísindagarða Háskóla Íslands árið 2004. Félagið starfar í þágu almenningsheilla og er í eigu Háskóla Íslands (94,6%) og Reykjavíkurborgar (5,4%). Tilgangur VHÍ er að efla vísindarannsóknir og nýsköpun með því að skapa kjöraðstæður. Vísindagarðar gegna víða sívaxandi hlutverki við að efla og auka framþróun þekkingarhagkerfisins, draga að sér ungt, menntað vinnuafl sem er mikilvægasta auðlindin í nútíma hagkerfum. Vísindagarðar eru frábrugðnir bæði venjulegu og sérhönnuðu fyrirtækjaumhverfi að því leyti að þeir byggja á samfélagi háskóla, þekkingarfyrirtækja og rannsóknarstofnana sem leggja hvert öðru lið með sambúðinni. 

Í þróuðum vestrænum þjóðfélögum er nú litið til slíkra þekkingarþyrpinga sem öflugrar aðferðar til að hraða og efla nýsköpun. Um þessar mundir eru um 53.000 fermetrar í byggingu eða byggðar á Vísindagarðasvæðinu, atvinnuhúsnæði og stúdentaíbúðir. Á Vísindagörðum eru byggingarheimildir fyrir rúmlega 100 þúsund fermetrum ofanjarðar auk randbyggðarinnar við Landspítala sem er 15.000 fermetrar. Þar fyrir utan eru síðan b rými og bílakjallarar nánast annað eins eða rúmir 80.000 fermetrar. Samtals eru þess vegna byggingarheimildir fyrir um 200 þúsund fermetrum. 

Jón Atli Benediksson, rektor Háskóla Íslands, Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri FS, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri við minningarskjöld um Eirík Hilmarsson, lektor við Háskóla Íslands og framkvæmdastjóra Vísindagarða, sem var mikill hvatamaður að byggingu Mýrargarðs.
""