Skip to main content
28. maí 2025

Mjaltavél sem ber sólarvörn á júgur hlaut aðalverðlaun í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna

Mjaltavél sem ber sólarvörn á júgur hlaut aðalverðlaun Nýsköpunarkeppni grunnskólanna - á vefsíðu Háskóla Íslands

Á lokahófi Nýsköpunarkeppni grunnskólanna 2025, sem haldið var laugardaginn 24. maí í Háskóla Íslands, var hugmyndaflugið í hávegum haft og fjölmennt var á svæðinu. Keppnin, sem nú fór fram í 34. sinn (1991), hefur í gegnum árin verið vettvangur þar sem nemendur á miðstigi grunnskóla fá tækifæri til að þróa eigin hugmyndir, takast á við raunveruleg vandamál og finna frumlegar lausnir sem geta bætt samfélagið – eða einfaldlega daglegt líf.

Frá upphafi hefur markmið keppninnar verið að efla sköpunargleði, forvitni og lausnamiðaða hugsun barna og ungmenna. Með þátttöku öðlast þau dýrmæta innsýn í nýsköpunarferlið og uppgötva að þeirra eigin rödd og hugmyndir skipta máli. Sú reynsla getur lagt grunn að framtíðarviðhorfum þeirra til vísinda, tækninýjunga og samfélagsþátttöku.

Dagana 22. og 23. maí komu 37 nemendur með 26 framúrskarandi hugmyndir, sem valdar höfðu verið úr þeim 600 hugmyndum sem bárust í keppnina, saman á háskólasvæðinu og unnu að því að þróa þær enn frekar. Í fjölbreyttum vinnusmiðjum unnu þau að frumgerðum með aðstoð nemenda og kennara frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík. Þar var notast við pappír, límbyssur, rafrásir, geislaskera, 3D prentara og ímyndunaraflið og úr urðu til hagnýtar, skemmtilegar og stundum stórfurðulegar uppfinningar.

Þátttakandur fengu jafnframt leiðsögn frá lögfræðingi Hugverkastofunnar um höfundarrétt og vörumerki, sóttu örræðunámskeið hjá JCI og kynntu sér háskólasvæðið. Dagskráin innihélt einnig grillveislu, heimsókn frá ísbíl, skemmtilega þrautabraut frá Skátalandi og ekki síst tækifæri til að kynnast jafnöldrum víðs vegar af landinu.

Lokahófið fór fram í Háskóla Íslands þar sem rektor HÍ, Jón Atli Benediktsson, opnaði athöfnina og nemendur kynntu hugmyndir sínar fyrir fjölmennum hópi gesta auk þess sem Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra afhenti viðurkenningar í verðlaunaflokkum keppninnar. Alls sóttu um 150 manns lokahófið og í kjölfarið var opnuð sýning á Háskólatorgi þar sem gestir gátu skoðað frumgerðir og kynningar nemenda. Sýningin stendur til 2. júní.

Úrslit Nýsköpunarkeppni grunnskólanna 2025

Forvarnarbikar NKG
Þorri Pálmason – 6. bekk Djúpavogsskóla
Hugmynd: Krókhanski – tæki sem verndar hendur gegn krókum á línubátum.
Verðlaun: 20.000 kr. gjafabréf í ELKO og viðurkenningarskjal, undirritað af Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands.
Kennari: Anna Czeczko

Forritunarbikar NKG og SKEMA
Sara Rut Sigurjónsdóttir – 6. bekk Landakotsskóla
Hugmynd: Menntamál – notandinn leysir ráðgátur og lærir málfræði í leiðinni.
Kennarar: Sinéad McCarron og Friðrik Steinn Friðriksson

Hönnunarbikar NKG og Hugverkastofu
Hekla Eiríksdóttir – 6. bekk Ölduselsskóla
Hugmynd: Pítustall – standur sem auðveldar að setja í pítu og borða hana.
Kennari: Ása Gunnlaugsdóttir

Samfélagsbikar NKG
Steinþór Hauksson – 6. bekk Grunnskóla Hornafjarðar
Hugmynd: Lærum íslensku – aðstoðar fólk við að nota gömul og frumleg íslensk orð.
Kennari: Guðjón Magnússon

Tæknibikar Pauls Jóhannssonar
Harpa Jakobsdóttir og Helgi Valur Jónsson – 7. bekk Kerhólsskóla
Hugmynd: Incredabúr – öruggt búr fyrir hunda í tilfelli bílveltna og ofhitnunar.
Kennari: Anna Katrín Þórarinsdóttir

Umhverfisbikar NKG og ELKO
Indra Styrmisdóttir og Kría Valgerður Vignisdóttir – 5. bekk Vesturbæjarskóla
Hugmynd: Endurnýtum hluti – forrit sem gefur hugmyndir að nýtingu hlutanna á ný.
Kennari: Linda Sverrisdóttir

Aðalverðlaun Nýsköpunarkeppni grunnskólanna 2025
Snjólfur Atli Hákonarson – 6. bekk Árskóla
Hugmynd: Sólarmjalta – mjaltavél sem ber jafnframt sólarvörn á júgur.
Kennarar: Katrín Ingólfsdóttir og Sigríður Heiða Bjarkadóttir

Vilji – Hvatningarverðlaun kennara (NKG og Samtök iðnaðarins)
Ása Gunnlaugsdóttir og Bryngeir Valdimarsson – kennarar við Ölduselsskóla
Með verðlaununum fylgdi 150.000 kr. peningaupphæð veitt af Samtökum iðnaðarins til að styðja við nýsköpunarfræðslu í grunnskólum.
Skólastjóri: Erla Erlendsdóttir

MYND: Sigurjón Ragnar
MYND: Sigurjón Ragnar
MYND: Sigurjón Ragnar
MYND: Sigurjón Ragnar
MYND: Sigurjón Ragnar
MYND: Sigurjón Ragnar
MYND: Sigurjón Ragnar
MYND: Sigurjón Ragnar
MYND: Sigurjón Ragnar