Skip to main content
30. október 2025

Mansal er „þungt orð“ í Gíneu-Bissá

Mansal er „þungt orð“ í Gíneu-Bissá - á vefsíðu Háskóla Íslands

Á hverju ári brautskráir Háskóli Íslands á bilinu 70-80 doktora sem lagt hafa að baki krefjandi rannsóknanám sem snertir ótrúlega fjölbreytt viðfangsefni. Um 40% brautskráðra doktorsnema eru erlendir ríkisborgarar og margir þeirra stunda sínar rannsóknir hér á landi. Aðrir vinna að rannsóknum á sínum heimaslóðum í samstarfi við leiðbeinendur sína innan Háskóla Íslands og auka þannig áhrif Háskólans langt út fyrir landsteinana. Í þeim hópi er Hamadou Boiro sem varði doktorsritgerð sína í mannfræði nú í upphafi vikunnar en hann er fyrsti Bissá-gíneaninn til að ljúka doktorsprófi frá Háskóla Íslands. Í dokorsrannsókn sinni rýndi Boiro í hefð í heimalandI sínu sem alþjóðastofnanir og frjáls félagasamtök hafa skilgreint sem mansal barna en heimamenn líta á sem mikilvæga leið til að styrkja stöðu sömu barna innan samfélagsins.

Áður en hann hóf doktorsnám hafði Boiro lokið grunn- og meistaranámi í félagsmannfræði frá Cheikh Anta Diop háskólanum í Dakar í Senegal. Sumarið 2009 komst hann í kynni við Jónínu Einarsdóttur, prófessor í mannfræði, og Geir Gunnlaugsson, barnalækni og nú prófessor emeritus í hnattrænni heilsu, sem bæði starfa við HÍ, þegar UNICEF bauð honum að ganga til samstarfs við þau um úttekt á mansali Bissá-gínenskra barna. Geir og Jónína hafa starfað um áratugaskeið í Gínea-Bissá og voru m.a. nýlega heiðruð af Jean Piaget háskólanum fyrir framlag sitt til rannsókna þar í landi.

Í þessari úttekt fyrir UNICEF voru aðstæður drengja af Fulbe-þjóðernishópnum í Gíneu-Bissá sérstaklega til skoðunar en þeir eru sendir í kóranskóla í nágrannalandinu Senegal, venja sem hefur verið tíðkast lengi. Hún er umdeild vegna þess að drengirnir betla til stuðnings námi sínu í Senegal og því hafa alþjóðastofnanir og samtök skilgreint þennan þessa rótgrónu hefð sem mansal barna.

Yfir áratugalangar rannsóknir

Með nokkurri einföldun má segja að hugmyndin að doktorsverkefni Boiros hafi kviknað strax í fyrstu vettvangsferð hans með Jónínu og Geir sumarið 2009. „Fyrsta manneskjan sem við ræddum við spurði: „Finnst ykkur ekki mansal svolítið „þungt orð“ þegar verið er að tala um kórannám?“ rifjar Boiro upp og segir að það hafi vakið þau til umhugsunar um hvort hugtakið mansal barna í Gíneu-Bissá væri kannski flóknara en það virtist í upphafi.

Í framhaldi af þessu fyrsta samstarfsverkefni ákváðu því Boiro, Jónína og Geir að að rýna frekar í þessa hefð og doktorsritgerð Boiros ásamt fjölda annarra vísindagreina og skýrslna er afrakstur þessa samstarfs.

Hamadou og kristín og jonina

Hamadou Boiro fyrir doktorsvörn sína í Hátíðsal Háskóla Íslands ásamt leiðbeinanda sínum, Jónínu Einarsdóttur (til hægri) og Kristínu Loftsdóttur, prófessor í mannafræði(til vinstri), sem einnig var í doktorsnefnd hans. MYND/Gunnar Sverrisson

Boiro rifjar einnig upp að í þessu fyrsta samstarfsverkefni árið 2009 hafi þau farið á veitingastað í lok vinnudags. Þar hafi verið umfjöllun um bankahrunið á Íslandi í sjónvarpinu þar sem myndskeið birtist af húsi Jónínu og Geirs, sem eru hjón. Boiro segist þá hafa hugsað með sér að hann ætti líklega aldrei eftir að heimsækja þetta land í norðri en það hafi breyst fljótt því strax í desember 2009 hafi hann komið hingað til að vinna með þeim Jónínu og Geir að lokaskýrslu fyrir Unicef þar sem aðstæður barna mismundandi þjóðernishópa voru skoðaðar út frá sjónarhóli mansals. Samstarf þeirra hefur verið afar traust alla tíð og árið 2016 hóf Boiro formlega doktorsnám en þá fékk hann styrk frá Háskóla Íslands til þess að rannsaka kórannám drengja frá Gíneu-Bissá í Senegal undir leiðsögn Jónínu.

Rýndi í aðgerðir gegn mansali barna og viðhorf heimamanna til þeirra

Grundvallarspurningar doktorsrannsóknarinnar hverfast um tvennt. Annars vegar um aðgerðir þess sem kalla má ramma um alþjóðlega barnavernd (e. international child protection regime - ICPR), sem er hugtak sem nær til allra alþjóðlegra samninga og stjórntækja sem snerta réttindi og vernd barna og beitingu stjórntækjanna á svæðinu. Hins vegar að fá fram viðhorf og viðbrögð heimamanna við þessum aðgerðum gegn mansali.

„Okkur langaði að skilja hvers vegna tiltekin samfélög í Gíneu-Bissá veldu þessa leið til að mennta börn sín og hvers vegna annar hópur fólks, í þessu tilviki alþjóðastofnanir og samtök, teldu það mansal því í hugum heimamanna er mansal „þungt orð“,“ segir Boiro og heldur áfram: „Við sem höfum staðið að þessum rannsóknum höfum jafnframt viljað vita hvers vegna andspyrna væri gegn aðgerðum þar sem yfirlýst markmið er að styðja við vernd barna og réttindi.“

Við gagnaöflun fyrir doktorsverkefnið beitti Boiro ýmsum aðferðum mannfræðinnar á vettvangi, eins og þátttökuathugunum, viðtölum og rýnihópum til þess að fá sjónarhorn trúarlegra leiðtoga og kennara í Senegal sem hafa verið sakaðir um mansal, kóranskóladrengjanna sem flokkaðir eru sem fórnarlömb mansals, foreldra þeirra og annars heimafólks.

Hamadou Boiro

Hamadou Boiro er er fyrsti Bissá-gíneaninn til að ljúka doktorsprófi frá Háskóla Íslands. MYND/Kristinn Ingvarsson

Vítahringur sem ólíkir aðilar nýta sér

Doktorsrannsóknin grundvallast á fimm vísindagreinum sem birtar hafa verið í alþjóðlegum tímaritum. Sú fyrsta snýr að ástæðum þess að Fulbe-foreldrar sendi syni sína í kóranskóla í Senegal og hvaða áhrif aðgerðir gegn mansali hafi á samfélögin. „Með því senda drengina í kóranskóla vilja foreldrarnir skapa betri framtíð fyrir þá. Þau vilja að börnin verði eitthvað,“ segir Boiro.

Önnur greinin fjallar um þá aðgerð stjórnvalda að senda drengina frá Senegal aftur í heimahagana (e. repatriation) en það er aðgerð sem foreldrar hræðast mest. „Þetta er það sem ég kalla vítahring því með því að senda drengina aftur heim halda þau sem berjast gegn mansali að þau séu að bjarga börnum. Stjórnvöldum er einnig gert skylt af erlendum ríkisstjórnum og alþjóðastofnunum að gera þetta í anda rammans um alþjóðlega barnavernd. Foreldrarnir eru hins vegar ekki ánægðir með þetta,“ segir Boiro.

Hann bendir einnig á að þessar aðgerðir þjóni oft fjölmörgum og jafnvel stundum gagnkvæmum hagsmunum. Frjáls félagasamtök tryggi áframhaldandi fjármögnun sína með því að sýna styrk sinn og mátt í að vernda börnin samtímis því sem fjölskyldur drengjanna og kóranskólakennarar hafi byrjað að nýta sér þessa leið sem ókeypis far heim fyrir drengina áður en árstíðabundnir annatímar byrja, t.d. við uppskeru á kajú, maís og jarðhnetum. Að henni lokinni snúi þeir síðan aftur til Senegal og halda áfram kórannámi sínu ef vel tekst til. Þó hefur Boiro dæmi um að drengir sem snúið hafa á ný til Senegal hafi lent á götunni og draumur þeirra um trúarlega menntun er þá farinn fyrir bí.

Þriðja greinin fjallar um betl drengjanna í Senegal og viðhorf kóranskólakennaranna, hinna trúarlegu leiðtoga Fulbe-fólksins í Gíneu-Bissá, við ásökunum um að þeir stundi mansal. „Í greininni reynum við að varpa ljósi á það hvers vegna drengirnir eru að betla og hvers vegna betl teljist mansal,“ segir Boiro og vísar til þess að skilgreining á mansali á alþjóðavettvangi sé afar víð og margt í Afríku rúmist þar undir. „Við þurfum að skilja hvaða þýðingu betl hefur fyrir þau sem betla. Þau nýta peningana sem þau fá til að fjármagna menntunina, til að afla sér þekkingar og þekking færir með sér vald þegar fram líða stundir.“

Fjórða greinin snertir einnig betl með sérstakri áherslu á það hvaða áhrif COVID-19-faraldurinn hafði á afkomu drengjanna sem betluðu á tímum neyðarástands og útgöngubanns. Í viðtölum lýsa drengirnir hungri og erfiðleikum við að geta einbeitt sér í náminu en þeir fengu t.d. ekki matarleifar í veitingahúsum eins og þeir voru vanir þegar faraldurinn gekk yfir.

Í síðustu greininni er sjónum beint að kóranskólakennurunum og hlutverki þeirra í samfélögum Fulbe og hvers vegna þeir hafi ekki verið ákærðir fyrir mansal þrátt fyrir alþjóðlegar kröfur um slíkt í anda rammans um alþjóðlega barnavernd. Í ljós kemur að stór hluti þeirra sem rætt var við eru afkomendur fyrrverandi þræla sem hafa nýtt kóranmenntun sína til að styrkja stöðu sína í Fulbe-samfélaginu. Kóranskólakennararnir hafa völd meðal Fulbe-fólksins vegna þess að þeir gegna hlutverki andlegra leiðtoga, hafa oft áhrif í samfélaginu og á stjórn landsins og styðja við jaðarhópa.

„Fyrrverandi kennari minn sagði: Þegar þú gefur ketti mjólk þá gengur ekki að grípa um hausinn á honum og þvinga hann til að drekka mjólkina, þá mun hann aldrei gera það. Það sama gildir um samfélög. Þú þarft að átta þig á lífsháttum samfélaganna, annars mætirðu mótspyrnu,“ segir Hamadou Boiro. Hér er hann í að kynna rannsókn sína á doktorsvörn í Hátíðasal. MYND/Gunnar Sverrisson

Niðurstöður ganga gegn ríkjandi alþjóðlegum hugmyndum

Niðurstöður doktorsrannsóknar Boiros ganga gegn ríkjandi hugmyndum frjálsra félagasamtaka og alþjóðastofnana um að fátækt og vanþekking séu meginástæður þess að Fulbe-fólkið í Gíneu-Bissá sendi syni sína í kórannám til Senegal. Menntunin er þvert á móti leið þess hluta Fulbe-fólksins sem eru afkomendur þræla til félagslegs hreyfanleika, valda og frelsis. Rannsóknin sýnir að aðgerðir alþjóðasamtaka og -stofnana bæti ekki stöðu drengjanna heldur þvert á móti.

„Þetta snýst um hvernig vestrænar þjóðir reyna að hafa áhrif á aðrar þjóðir með nálgun í anda nýlendustefnu,“ segir Boiro. Hann undirstrikar jafnframt að hann telji ekki gott fyrir börn að betla á götum úti en þau hafi hins vegar lítil tækifæri til náms heima fyrir. Með betli gefist þeim færi á að mennta sig og afla sér tekna fyrir fæðu. Samtímis lítur almenningur jákvætt á betl barna sem stunda kóranám og jafnvel er eftirsóknarvert fyrir gefandann að styðja slíkt nám. „Þau kynnast ekki aðeins kóraninum heldur læra einnig wolof eða frönsku og það getur einnig hjálpað þeim að verða eitthvað í samfélaginu og jafnvel fá styrki til framhaldsnáms annars staðar.“

Aðspurður segir hann erfitt að breyta alþjóðlegum viðhorfum gagnvart þessum hópi barna og kennara þeirra þar sem um sé að ræða alþjóðlegt kerfi um barnavernd. Rannsóknin dragi fram misræmi á milli alþjóðlegra aðgerða gegn mansali, sem byggðar eru á vestrænum, lagalegum og siðferðilegum viðmiðum lituðum af nýlenduhugsun, sem leiða til glæpavæðingar hefða og samfélaga, og staðbundinna sjónarmiða um hvað teljist vera virðingarvert uppeldi barna. Boiro kallar því eftir því í rannsókninni að alþjóðleg barnavernd verði afnýlenduvædd og að bæði fræðimenn og fagfólk viðurkenni fjölbreytileika bernskunnar og óskir foreldra um fjölþætta menntun fyrir börn sín á sama tíma og velferð þeirra sé tryggð.

Hamadou Boiro

„Ég mun alltaf hafa þessa tengingu við landið og ég stoltur að hafa lokið doktorsnámi mínu hér við Háskóla Íslands,“ segir Boiro. MYND/Kristinn Ingvarsson

Þörf á virðingu og trausti

Boiro bendir enn fremur á að vegna þess að aðgerðirnar sem gripið er til byggist ekki á samtali eða samráði hafi þær ekki tilætluð áhrif heldur leiði jafnvel frekar til andspyrnu í samfélögunum. Það eigi við víða í Vestur-Afríku. Boiro veit sannarlega hvað hann er að tala um því hann hefur víðtæka reynslu af störfum á því svæði og víðar þar sem hann hefur unnið að því að auka samstarf milli alþjóðastofnana og félagasamtaka og heimamanna í tengslum við m.a. átök, smitsjúkdóma, kynbundið ofbeldi og jafnrétti kynjanna. Hann starfaði til að mynda fyrir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) sem mannfræðingur í Ebólufaröldrum í Vestur-Afríku 2015 og Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó (DRC) 2018–2020 og við viðbrögð við COVID-19 heimsfaraldrinum í Gíneu-Bissá og í Lýðveldinu Kongó. Í öllum tilvikum, segir Boiro, hafi árangur aðgerða verið háður gagnkvæmri virðingu og trausti.

„Fyrrverandi kennari minn sagði: Þegar þú gefur ketti mjólk þá gengur ekki að grípa um hausinn á honum og þvinga hann til að drekka mjólkina, þá mun hann aldrei gera það. Það sama gildir um samfélög. Þú þarft að átta þig á lífsháttum samfélaganna, annars mætirðu mótspyrnu,“ undirstrikar hann.

Boiro tekur dæmi af störfum sínum í Ebólufaröldrum, faröldrum sem reyndust sannarlega hættulegir og mannskæðir. „Fólkið hélt á þeim tíma að hvítir menn hefðu komið með Ebólu til þess að drepa það. Til þess að ná til fólksins fengu alþjóðastofnanir mannfræðinga eins og mig til þess að fara út á örkina að ræða við og hlusta á fólkið. Og svo komum við aftur og lögðum fram okkar ráðleggingar um hvernig best væri að miðla upplýsingum um faraldurinn og fá samfélagið sjálft til að taka þátt í baráttunni við sjúkdóminn. Þannig dró smám saman úr andspyrnunni í samfélaginu,“ segir Boiro.

Það var það sama uppi á teningnum COVID-19-faraldrinum. „Þar varð samtalið til þess að fólk þáði bóluefnin. Ég tel að COVID-faraldurinn hafi kennt okkur sem manneskjum að við þurfum traust. Það er líka það sem ég hef lært á ferðum mínum um þessi mismunandi lönd.“

Vill áfram vinna að því að skapa betri aðstæður fyrir börnin

Boiro varði sem fyrr segir doktorsvörn sína í upphafi vikunnar. Aðspurður hvað taki nú við segist hann munu halda áfram að starfa við rannsóknastofnunina INEP í Bissá, þar sem hann starfar nú. „Ég vonast einnig til að geta haldið áfram rannsóknum með Jónínu og Geir í bæði Gíneu-Bissá og Vestur-Afríku því það vakna alltaf nýjar spurningar þegar maður lýkur ákveðinni rannsókn. Ég vil einnig halda áfram að vinna að því að skapa aðstæður þar sem allir aðilar málsins geti unnið saman að því að skapa betri aðstæður fyrir börnin,” segir hann og vísar til kóranskóladrengjanna í heimalandinu.

Hann segist aðspurður áfram munu heimsækja Ísland þótt doktorsnáminu sé loki. „Ísland verður alltaf hluti af mér. Ég þekki til víðar í Evrópu en Íslendingar eru á vissan hátt öðruvísi, fjölskylduþjóð og gott fólk. Ég segi þetta frá dýpstu hjartarótum. Ég mun alltaf hafa þessa tengingu við landið og ég stoltur að hafa lokið doktorsnámi mínu hér við Háskóla Íslands,“ segir hann að endingu.

Hamadou Boiro