Linda Björg Árnadóttir heldur fyrirlestur á tískuvikunni í Kaupmannahöfn

Linda Björg Árnadóttir heldur fyrirlestur á tískuvikunni í Kaupmannahöfn, föstudaginn 31. janúar. Linda Björg er doktorsnemi í félagsfræði við Háskóla Íslands þar sem rannsóknir hennar beinast að tísku og klæðaburði í nútíma samfélagi.
Fyrirlesturinn fjallar um doktorsrannsókn Lindu Bjargar Árnadóttur við félagsfræðideild, þar sem klæðnaður starfsmanna í íslenska bankageiranum — bæði fyrir og eftir bankahrunið 2008 — er rannsakaður. Skoðað er hvaða hlutverk klæðnaður hafði í ferlum breytinga á menningu og ríkjandi gildum í kringum hrunið. Rannsóknin byggir á viðtölum við íslenskar konur sem starfa/störfuðu í íslenska bankageiranum, hóp sem hefur sögulega verið jaðarsettur innan greinarinnar.
Niðurstöðurnar sýna að breytingar á klæðnaði gáfu merki um víðtækari breytingar á félagslegum viðmiðum, menningu og gildum á tímum fjármálakreppunnar. Umrótið skapaði svigrúm fyrir konur innan bankageirans til að fara á móti ríkjandi hefðum í klæðaburði í kjölfar þessara breytinga. Þessi þróun jók sýnileika þeirra og athafnagetu, sem aftur stuðlaði að auknum framgangi þeirra innan fjármálastofnana, aukinni samsvörun við viðskiptavini og sterkari framsetningu á sjálfstrausti og trúverðugleika.
Rannsóknin sýnir að breytingar á klæðnaði fara oft samhliða breytingum á gildum samfélagsins. Í anda verka Judith Butler er því haldið fram að tímabil breytinga og óvissu séu lykilatriði fyrir jaðarsetta hópa til að auka sýnileika sinn og áhrif og að klæðnaður geti bæði verið tákn fyrir og tæki til breytinga.
Nánari upplýsingar um fyrirlesturinn má sjá hér: https://copenhagenfashionweek.com/event/dress-and-success-in-the-iceland...
