Íslenskir vísindamenn komnir í úrslit sem uppfinningamenn ársins í Evrópu 2023
- Þorsteinn Loftsson og Einar Stefánsson, prófessorar emeritus við HÍ, þróuðu nýja tækni í augnlyfjagerð sem meðal annars gerir kleift að nota augndropa til meðhöndlunar á sjúkdómum í sjónhimnu, til dæmis sjónhimnubjúg í sykursýki.
- Með tækninni má flytja lyf í formi augndropa í afturhluta augans í stað þess að nota sprautunálar.
Alþjóðsamtök sykursjúkra telja að tæplega 40 milljón manns í heiminum þjáist af sjónhimnubjúg í sykursýki og er það ein af helstu orsökum blindu. Sjónhimnubjúgur og fleiri sjónhimnusjúkdómar hafa hingað til verið meðhöndlaðir með því að sprauta lyfjum inn í augað. Þorsteinn Loftsson og Einar Stefánsson þróuðu nýja tækni sem gerir kleift að flytja lyf til afturhluta augans í formi augndropa. Sjúklingum mun því bjóðast meðferð með augndropum sem valkostur við það að sprauta lyfjum inn í augað. Það gerir meðferðina þægilegri og aðgengilegri bæði fyrir sjúklinga í ríkum löndum en ekki síst í þróunarlöndum þar sem aðgengi að heilbrigðisþjónustu er lakara. Fyrir þessa spennandi uppfinningu eru Þorsteinn og Einar komnir í úrslit sem uppfinningamenn Evrópu í flokknum rannsóknir. Þeir voru valdir úr hópi 600 uppfinningamanna sem voru tilnefndir í ár.
Bætt aðgengi að meðferð
Einar og Þorsteinn vonast til að þessi nýja tækni umbylti lyfjameðferð við sjónhimnusjúkdómnum sem eru meðal helstu orsaka blindu. Aðgengi að lyfjameðferð takmarkast við aðstöðu og mannafla til sprauta lyfjum inn í auga eða setja lyfjahylki inn í auga. Meðferð með augndropum bætir aðgengið bæði í ríkum löndum og þróunarlöndum þar sem fjöldi sykursjúkra er mikill og heilbrigðisþjónusta takmörkuð. Tæknin nýtist einnig til að bæta lyfjameðferð í framhluta auga.
Þorsteinn er bjartsýnn á möguleika uppfinningarinnar: „Hægt er að meðhöndla sjúklinga tafarlaust og í heimabyggð og með þessari tækni býðst sjúklingum valkostur við sprautunálar. Meðferðin verður aðgengilegri fyrir fjölda sjúklinga um allan heim.“
Að takast á við hið ómögulega
Þorsteinn starfaði í áratugi sem prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands og aðra háskóla fram til ársins 2020. Auk þess var hann einn stofnenda fyrirtækisins Oculis árið 2016. Meðstofnandi hans og samstarfsmaður, Einar Stefánsson, er prófessor emeritus við Háskóla Íslands og hefur verið yfirlæknir á augndeild Landspítala frá árinu 1989. Einar undirstrikar afrek þeirra félaga með eftirfarandi orðum: „Nokkrir starfsfélaga okkar, sem eru helstu áhrifamenn á þessu sviði, töldu lengst af að augnlyfjagjöf til bakhluta augans væri fræðilega ómöguleg. Uppfinning okkar Þorsteins afsannaði þessa kennisetningu.“ Nýlegar klínískar rannsóknir hafa sýnt fram á notagildi þessarar nýju tækni.
Félagarnir eru meðal þriggja sem komnir eru í úrslit í flokknum „Rannsóknir“ sem uppfinningamenn ársins 2023 í Evrópu en viðurkenningin er veitt framúrskarandi frumkvöðlum fyrir uppfinningar sem hafa hlotið einkaleyfi í Evrópu. Tilkynnt verður um verðlaunahafa og fleiri verðlauna Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO) árið 2023 á verðlaunaafhendingu 4. júlí 2023 í Valencia (á Spáni). Verðlaunaafhendingin verður send út á netinu og er opin almenningi.
Samhliða afhendingu verðlauna í hverjum flokki verða veitt vinsældaverðlaun þar sem almenningi gefst kostur á að kjósa þá hugmynd sem þeim líst best á. Hægt er að kjósa Einar og Þorstein hér.
Hægt er að finna frekari upplýsingar um áhrif uppfinningarinnar, tækninnar og sögu uppfinningarmannanna hér.
Einar og Þorsteinn vonast til að þessi nýja tækni umbylti lyfjameðferð við sjónhimnusjúkdómnum sem eru meðal helstu orsaka blindu. Aðgengi að lyfjameðferð takmarkast við aðstöðu og mannafla til sprauta lyfjum inn í auga eða setja lyfjahylki inn í auga. Meðferð með augndropum bætir aðgengið bæði í ríkum löndum og þróunarlöndum þar sem fjöldi sykursjúkra er mikill og heilbrigðisþjónusta takmörkuð. Tæknin nýtist einnig til að bæta lyfjameðferð í framhluta auga.
Um Evrópsku uppfinningaverðlaunin
Evrópsku uppfinningaverðlaunin eru ein virtustu verðlaunin á sviði nýsköpunar í Evrópu. Evrópska einkaleyfastofan setti þau á fót árið 2006 með það að markmiði að heiðra einstaklinga og teymi sem hafa fundið lausnir við sumum af stærstu áskorunum okkar tíma. Óháð dómnefnd, sem samanstendur af aðilum sem áður hafa komist í úrslit verðlaunanna, velur þau sem komast í úrslit og verðlaunahafa. Dómnefndin leggur mat á uppfinningarnar og áhrif þeirra með tilliti til tæknilegrar framþróunar, þróunar samfélags og sjálfbærni og hagsældar. Allir uppfinningamenn, sem tilnefndir eru, þurfa að hafa hlotið einkaleyfi í Evrópu fyrir uppfinningar sínar. Lestu meira um flokkana, verðlaunin, forsendur fyrir vali og streymi frá verðlaunaafhendingunni sem verður haldin þann 4. júlí 2023.
Um Evrópsku einkaleyfastofuna
Evrópska einkaleyfastofan (EPO) er ein stærsta stofnun Evrópu í almannaþjónustu en þar starfa 6.300 manns. Höfuðstöðvarnar eru í München en einnig er stofnunin með skrifstofur í Berlín, Brussel, Haag og Vín. EPO var stofnuð með það að markmiði að styrkja samstarf á sviði einkaleyfa í Evrópu. Í gegnum miðstýrt einkaleyfaferli Evrópsku einkaleyfastofunnar geta uppfinningamenn öðlast hágæða einkaleyfavernd í allt að 44 löndum á markaði með 700 milljónir manna. Evrópska einkaleyfastofan er leiðandi á heimsvísu á sviði upplýsinga um einkaleyfi og leit að einkaleyfum.