Ingileif Jónsdóttir hlýtur verðlaun Ásu Wright
Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði við Læknadeild Háskóla Íslands og deildarstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu, hlaut í dag heiðursverðlaun úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright. Það var Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem afhenti Ingileif verðlaunin við hátíðlega athöfn í Þjóðminjasafninu. Verðlaun úr sjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright eru veitt íslenskum vísindamanni sem náð hefur framúrskarandi árangri á sínu sérsviði í vísindum eða fræðum og miðlað þekkingu sinni til framfara í íslensku þjóðfélagi en þau voru veitt í 49. sinn í dag.
Verðlaunahafinn í ár, Ingileif Jónsdóttir, hefur stýrt bóluefnarannsóknum við Ónæmisfræðideild Landspítala frá árinu 1997 og rannsóknum smit- og bólgusjúkdóma hjá Íslenskri erfðagreiningu frá árinu 2005 ásamt því að starfa sem prófessor við Háskóla Íslands frá árinu 2006. Hún var dósent í ónæmisfræði við Læknadeild Háskóla Íslands frá 2000 til 2005 og dósent í ónæmisfræði við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands frá 1994 – 1999.
Rannsóknir Ingileifar snúa að grundvallarþáttum í ónæmisvörum við bólusetningu og að samspili hýsils og sýkils. Hún hefur með rannsóknum sínum sýnt fram á virk áhrif bólusetningar á fjölbreytta sjúkdóma, einkum á þá sem hafa tengsl við bólgumyndandi þætti. Ingileif hefur m.a. sýnt fram á áhrif bólusetningar mæðra á meðgöngu og jákvæð áhrif bólusetningar vegna pneumókokka sem valda lungnabólgu og meningókokka sem valda heilahimnubólgu.
Rannsóknir Ingileifar hafa leitt til margra mikilvægra niðurstaða sem hafa leitt til heilsufarslegra útbóta en við verðlaunaafhendinguna í dag kom fram að með rannsóknum Ingileifar hafi lífsgæði manna batnað og lífslíkur aukist.
Ingileif hefur m.a. rannsakað öryggi bóluefna, myndun og virkni mótefna og áhrif á bólfestu pneumókokka í nefkoki. Einnig hefur hún rannsakað sýklalyfjanotkun og tíðni eyrnabólgu og ónæmiskerfi nýbura og bólusetningu nýbura gegn pneumókokkasýkingum.
Í rannsóknum sínum hefur Ingileif einnig sýnt fram á að erfðafræðileg áhætta á að fá berkla getur verið aukin hjá þeim sem framleiða ónóg mótefni gegn berklabakteríunni. Hún hefur einnig tekið þátt í að greina tengsl erfðavísa við líkindi þess að fá astma. Jafnframt hefur hún átt þátt í að finna tengsl milli líkinda á að fá MS-sjúkdóminn og ónæmistengdra bólgugena en þau geta einnig átt þátt í orsökum offitu.
Ingileif er gríðarlega öflugur vísindamaður og þátttakandi og stjórnandi í rannsóknasamstarfi með vísindafólki frá virtum háskólum og rannsóknastofum bæði innan lands og utan. Hún hefur ritað ótal greinar í alþjóðleg og virt ritrýnd vísindatímarit auk þess að hafa setið í ritnefndum virtra tímarita á sviðum ónæmisfræða. Hún hefur leiðbeint fjölda nema í rannsóknarnámi, í BS-, MS- og doktorsnámi. Ingileif sat í Vísinda- og tækniráði frá árinu 2003 til 2009 og hefur gengt formennsku Vísindasiðanefndar Íslands og Norrænu vísindasiðanefndarinnar auk þess sem hún sat fyrir Íslands hönd í stjórnarnefnd um 4., 5., og 6. rannsóknaráætlun Evrópusambandsins.
Ingileif er fædd þann 27. nóvember 1952 í Reykjavík og er gift Birgi Birni Sigurjónssyni hagfræðingi og eiga þau tvo uppkomna syni. Eftir útskrift frá MR lauk hún BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1975. Hún hóf doktorsnám við Ónæmisfræðideild St. Mary’s sjúkrahússins í Lundúnum sama ár og hélt rannsóknum sínum áfram við Wenner Gren stofnun Háskólans í Stokkhólmi fram til ársins 1984. Hún lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Stokkhólmi árið 1991. Ingileif Jónsdóttir var sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag árið 2014 en hún hlaut riddarakross fyrir kennslu og rannsóknir á sviði ónæmisfræða.
Um Verðlaunasjóð Ásu Guðmundsdóttur Wright
Ása Guðmundsdóttir Wright, stofnandi sjóðsins, fæddist að Laugardælum í Árnessýslu hinn 12. apríl 1892. Hún var dóttir Guðmundar læknis Guðmundssonar og Arndísar Jónsdóttur. Ása lifði viðburðarríkri ævi en hún hélt utan og lagði stund á hjúkrunar- og ljósmóðurnám í Lundúnum. Dvaldi hún hjá Lord Buckmaster sem var stallari konungs og fékk hún því að ganga fyrir konung. Á siglingu heim úr námi kynntist hún enskum lögmanni, dr. Henry Newcomb Wright, sem varð síðar eiginmaður hennar. Ása og Henry Newcomb settust að á Trinídad í Vestur-Indíum, sem þá var bresk nýlenda. Þar ráku þau hjón plantekru í fögru landsvæði í Arimadal. Ása og Henry Newcomb voru barnlaus og ráðstafaði Ása jarðeign sinni til félags fuglaskoðara og stofnaði fuglafriðland. Búgarðurinn, Spring Hill, heitir nú Asa Wright Nature Centre.
Andvirði bújarðarinnar í dollurum varði Ása meðal annars til stofnunar sjóðs í tengslum við Vísindafélag Íslendinga sem undanfarin 48 ár hefur veitt viðurkenningu Íslendingi sem unnið hefur veigamikið vísindalegt afrek á Íslandi eða fyrir Ísland. Verðlaunin eru heiðursskjal og silfurpeningur með lágmynd Ásu og merki Vísindafélags Íslendinga, nafn þiggjanda og ártal er grafið í jaðarinn og fylgir í ár þriggja milljón króna peningagjöf frá hollvinum. Hollvinir sjóðsins eru fyrirtækin Alcoa Fjarðaál og HB Grandi. Þeir gera sjóðnum kleift að veita árlega ein veglegustu verðlaun sem veitt eru til vísindamanna hér á landi og þakkar sjóðsstjórnin þeim fyrirtækjum kærlega fyrir stuðninginn.