Skip to main content
7. janúar 2026

Hvaða svör voru mest lesin á Vísindavefnum árið 2025?

Hvaða svör voru mest lesin á Vísindavefnum árið 2025? - á vefsíðu Háskóla Íslands

Svör um líffræði kyns, jökla og loftslagsmál og eina íslenska fjöldamorðingjann sem vitað er um voru mest lesnu svörin á Vísindavefnum árið 2025.

Ef til vill kemur það fáum á óvart að flestir lesendur Vísindavefsins lásu svör um margbreytileika líffræðilegs kyn á árinu 2025. Í stuttu máli felst kjarni þeirra svara í því að líffræðilegt kyn fólks er flóknara en marga grunar. Af ýmsum samfélagsmiðlum að dæma er ljóst að fjölmargir deildu þessu efni og vísuðu til þess í umræðum á netinu og annars staðar.

Svar um jökla og hlýnun jarðar, þar sem komið er inn á áhrif þyngdarkrafts Grænlandsjökuls á sjávarstöðu, var í þriðja sæti vinsælustu svara. Það er fagnaðarefni að svar um loftslagsmál sé svo ofarlega á blaði og rétt að minna á að framahald þess svars birtist seint á síðasta ári.

Í fjórða og fimmta sæti yfir mest lesnu nýju svörin árið 2025 eru síðan tvö svör þar sem farið er í saumana á því hvað sé satt og hvað seinni tíma uppspuni í frásögnum af morðingjanum Axlar-Birni og öðrum hugsanlegum íslenskum fjöldamorðingjum. Í þessum svörum er hismið greint frá kjarnanum með nákvæmri skoðun á samtíðarheimildum.

Fimm mest lesnu nýju svör ársins 2025

Eru kynin bara tvö? eftir Arnar Pálsson

Er hægt að sanna eða staðfesta líffræðilegt kyn fólks með litningaprófi? eftir Arnar Pálsson

Hvernig breytist sjávarstaða við Ísland ef Grænlandsjökull bráðnar allur? eftir Guðfinnu Aðalgeirsdóttur og Helga Björnsson

Hversu marga drap fjöldamorðinginn Axlar-Björn í raun og veru? eftir Má Jónsson

Eru þekkt dæmi um aðra íslenska fjöldamorðingja en Axlar-Björn? eftir Má Jónsson

Sé lestur eldri svara skoðaður er ljóst að stríðið í Úkraínu er ofarlega í huga margra og sama má segja um gervigreind. Svar um umbrotin á Reykjanesskaga er eitt af mest lesnu svörunum annað árið í röð, enda óhætt að segja að þar sé atburður enn í gangi. Fá svör á Vísindavefnum haf verið jafn oft uppfærð og það svar. Að lokum er rétt að vekja athygli á miklum lestri á svari um kúluskít. Svarið er eitt af eldri svörum Vísindavefsins og sýnir að breiddin í lestri á svörunum er mikill.

Önnur fimm mikið lesin svör ársins 2025

Hvað er gervigreind? eftir Ara Kristinn Jónsson

Finnst kúluskítur á Íslandi? eftir Árna Einarsson

Hverjar voru helstu ástæðurnar fyrir hruni Sovétríkjanna? eftir Gunnar Hólmstein Ársælsson

Hverjar eru ástæður stríðsins í Úkraínu? eftir Jón Ólafsson og Val Gunnarsson

Hvað hefur gosið oft á Reykjanesskaga síðan 2021 og hversu stór hafa gosin verið? eftir Magnús Tuma Guðmundsson, Jón Gunnar Þorsteinsson og Birgi. V. Óskarsson

Enginn sérstakur efnisþáttur skar sig áberandi úr hvað vinsældir varðar á árinu 2025, ólíkt árinu 2024 þegar svör um stjórnmálafræði voru nær allsráðandi. Þó má nefna töluverðan áhuga á svörum sem öll tengjast næringarfræði á einn eða annan hátt, samanber þessi fimm svör hér:

Fimm mikið lesin svör um næringu og bætiefni

Hvað er kreatín?

Hvernig lýsir glútenóþol sér?

Hvað eru mörg grömm af prótínum í einu meðalhænueggi?

Hversu mikið D-vítamín ættu Íslendingar að taka?

Hvað er kollagen og í hvað er það mest notað?

Umferð um Vísindavefinn var með sambærilegu móti og undanfarin tvö ár. Árlegar heimsóknir voru rúmar tvær milljónir og flettingar rúmar þrjár milljónir.

Í lokin er rétt að taka fram að þessi samantekt er aðallega til gamans gerð. Oft munar litlu þegar tölur um lestur á svari í einhverju „sæti“ eru bornar saman við svar sem raðast einu eða jafnvel 50 „sætum“ neðar. Það mikilvægasta er að sjálfsögðu áhugi fólks á vísindum og fræðum!

Aðalbygging