Húsakynni Háskóla Íslands í Sögu vígð að viðstöddu fjölmenni

Fjölmenni kom saman á sögulegri stund í dag þegar Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra og Silja Bára R. Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands, vígðu formlega húsakynni Háskóla Íslands í Sögu. Með enduropnun þessarar sögufrægu byggingar eignast Menntavísindasvið skólans ný heimkynni og um leið fær Upplýsingatæknisvið skólans nýtt aðsetur.
Flutningur Menntavísindasviðs úr Stakkahlíð og Skipholti og á aðalsvæði Háskóla Íslands er langþráður áfangi sem hefur verið stefnt að frá því að Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands sameinuðust árið 2008. Unnið hefur verið að endurbótum á Sögu frá því snemma árs 2022 í kjölfar þess að samningar tókust um kaup ríkisins og Félagsstofnunar stúdenta á byggingunni sem hýsti Hótel Sögu um áratugaskeið.
Húsnæðið hefur verið undirbúið fyrir nýtt hlutverk á grundvelli ítarlegrar þarfagreiningar sem gerð var í samvinnu við starfsfólk og stúdenta. Ytra og innra byrði hússins hefur verið endurbyggt, alls um 14 þúsund fermetrar, þannig að húsið nýtist háskólasamfélaginu sem allra best til framtíðar.
„Þetta er stór áfangi og gleðilegur fyrir Háskóla Íslands og okkur öll. Flutningur Menntavísindasviðs hingað á háskólasvæðið mun efla samþættingu menntavísinda við önnur fræðasvið háskólans og styrkja svæðið í heild sinni sem eiginlegan kampus og sem vöggu mennta og rannsókna á Íslandi. Það er afar ánægjulegt að sjá Sögu fá nýtt, skemmtilegt og göfugt hlutverk og um leið styrkja stoðir árangurs og samfélags í Háskóla Íslands,“ sagði Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra við vígsluna í dag.
Kennsla hófst í Sögu í haust um leið og starfsfólk Menntavísindasviðs og Upplýsingatæknisviðs flutti inn í nýjar starfsstöðvar sínar. Því hefur mikið líf færst í húsið síðustu vikur og mánuði og er nú stærstur hluti þess kominn í notkun. Enn er unnið að endurbótum á Grillinu landsfræga á efstu hæð hússins og þá verða kennslurými, hjólageymsla og búningsaðstaða á 0. hæð byggingarinnar tekin í notkun í upphafi næsta árs.
Á athöfninni í dag þakkaði Silja Bára R. Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands, öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóg til að draumurinn um Sögu gat orðið að veruleika. „Það leikur enginn vafi á því að flutningur Menntavísindasviðs og Upplýsingatæknisviðs á aðalsvæði Háskóla Íslands á Melunum mun ekki aðeins verða mikil lyftistöng fyrir starfsemi þessara eininga heldur býður staðsetning þeirra í Sögu jafnframt upp á ótal tækifæri til aukins samstarfs og samlegðar sem mun styrkja og efla Háskóla Íslands allan,“ sagði rektor við þetta ánægjulega tilefni.
„Við sem störfum í þessari fallegu byggingu finnum afskaplega góðan anda og fögnum því að vera loksins flutt á aðalsvæði háskólans. Flutningur sviðsins í hjarta háskólasvæðisins var nauðsynlegur til að gera fræðafólki og nemendum sviðsins kleift að taka enn virkari þátt í því dýnamíska háskólasamfélagi sem hér er,“ sagði Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, sem stýrði vígslunni í dag. MYND/Kristinn Ingvarsson

Fjölbreytt kennslurými í Sögu
Óhætt er að segja að með endurbótunum á Sögu og flutningum Menntavísindasviðs í húsið búi þjóðin nú að framúrskarandi aðstöðu til að mennta kennara framtíðarinnar og aðrar fagstéttir á sviði skóla- og frístundamála. Alls eru 40 kennslurými í Sögu sem nýtast bæði Menntavísindasviði og öðrum sviðum Háskóla Íslands. Í byggingunni er m.a. að finna sértæk námsrými fyrir kennslu list- og verkgreina á borð við tónmennt, leiklist og hönnun og textíl og sérhönnuð rými fyrir kennslu í menntunarfræði yngri barna, náttúruvísinda og stærðfræði, svo dæmi séu tekin. Þá verður hreyfirannsóknastofa fyrir íþrótta- og heilsufræði einnig í húsinu.
„Það hefur tekist gífurlega vel að breyta þessu sögufræga hóteli í háskóla,“ sagði Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, sem stýrði vígslunni í dag. „Við sem störfum í þessari fallegu byggingu finnum afskaplega góðan anda og fögnum því að vera loksins flutt á aðalsvæði háskólans. Flutningur sviðsins í hjarta háskólasvæðisins var nauðsynlegur til að gera fræðafólki og nemendum sviðsins kleift að taka enn virkari þátt í því dýnamíska háskólasamfélagi sem hér er. Það má segja að síðasta skrefið í sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands hafi verið stigið og því hefur náðst mikilvægur áfangi í sögu Háskóla Íslands.“
Háskóli Íslands deilir Sögu meðal annars með Félagsstofnun stúdenta sem er með yfir 100 nemendaíbúðir í norðurhluta byggingarinnar. Þá er ýmis önnur starfsemi í húsinu, svo sem matsalan Háma á vegum Félagsstofnunar stúdenta, snyrtistofa og rakarastofa, Hið íslenska bókmenntafélag og Háskólaútgáfan auk þess sem Mixtúra – sköpunar- og tækniver skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar hefur aðsetur í húsinu.
