Gleði á sólríkum Háskóladegi
Áætlað er að um sex þúsund manns hafi heimsótt Háskóla Íslands laugardaginn 28. febrúar þegar hinum árlega Háskóladegi var fagnað með pompi og pragt. Í boði voru ótal viðburðir og uppákomur auk kynningar á nærri 400 námsleiðum í grunn- og framhaldsnámi við skólann.
Veðurguðirnir mættu svo sannarlega á Háskóladaginn því sólin skein glatt á háskólasvæðið allan daginn og smitaðist það yfir á andlit bæði gesta og sýnenda.
Námskynningar fimm fræðasviða Háskóla Íslands fóru fram á Háskólatorgi, í Aðalbyggingu og Öskju og var stöðugur straumur af forvitnum gestum á öllum aldri í byggingarnar á meðan á kynningunum stóð. Nýstúdentar og verðandi stúdentar úr framhaldsskólum landsins fjölmenntu á svæðið enda brunnu á þeim fjölmargar spurningar um námið í Háskóla Íslands. Eins nýttu ótal margir sér tækifærið til þess að kynnast störfum vísindamanna við Háskóla Íslands í gegnum lifandi og fræðandi kynningar í byggingunum.
Á Háskólatorgi var enn fremur kynning á margháttuðu starfi og þjónustu skólans, m.a. á vegum Skrifstofu alþjóðasamskipta, Náms- og starfsráðgjafar, jafnréttisnefndar skólans, Félagsstofnunar stúdenta að ógleymdum hinum vinsæla Vísindavef.
Auk kynninga í áðurnefndum byggingum var fjölbreytt dagskrá í Háskólabíói þar sem fulltrúar Háskóladansins stigu á stokk, Sprengjugengið hélt tvær sýningar fyrir troðfullum sal og Vísindasmiðja Háskóla Íslands var með opið hús og kynnti undraheima vísindanna fyrir miklum fjölda fólks. Þá var einnig líf og fjör í Stúdentakjallaranum en þar lét hæfileikafólk úr hópi stúdenta háskólans ljós sitt skína með fjölbreyttum tónlistaratriðum og gjörningum. Botninn var svo sleginn í Háskóladaginn með tónleikum hinnar vinsælu hljómsveitar Amabadama í kjallaranum um kvöldið og var fullt út úr dyrum á tónleikunum.
Auk Háskóla Íslands voru hinir opinberu háskólarnir, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri, með námskynningu á Háskólatorgi auk Listaháskóla Íslands og háskólabrúar Keilis. Tæknifræðinám Keilis var hins vegar kynnt í Öskju.
Háskóli Íslands þakkar þeim fjölmörgu, sem lögðu leið sína á háskólasvæðið á laugardaginn, fyrir komuna og ekki síður þeim starfsmönnum og stúdentum skólans sem lögðu sitt af mörkum til þess að gera Háskóladaginn einstaklega eftirminnilegan.
Myndir frá Háskóladeginum má sjá í ljósmyndagalleríi á vef háskólans og á Facebook-síðu skólans.