Fjölsóttasta ráðstefna sviðsins frá upphafi
Sautjánda ráðstefna Heilbrigðisvísindasviðs um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands fór fram á Háskólatorgi dagana 5. og 6. janúar 2015 og tókst afar vel. Yfir 800 manns skráðu sig á ráðstefnuna og var hún sú fjölsóttasta frá upphafi. Sérstaklega ánægjulegt þótti hversu margir nemendur við sviðið mættu á ráðstefnuna.
Dagskráin var fjölbreytt en í ár voru flutt rúmlega 160 erindi og um 130 veggspjöld voru sýnd. Viðfangsefnin voru fjölmörg og spönnuðu vítt svið líf- og heilbrigðisvísinda. Á meðal efnisflokka á dagskrá má nefna faraldsfræði, heilsueflingu, ónæmisfræði, dýrarannsóknir, erfða- og frumulíffræði, tannheilsu, augnsjúkdóma, meðgöngu og fæðingu, hjartalækningar, stoðkerfi og lyfjafræði. Ágrip allra rannsókna sem kynntar voru á ráðstefnunni voru gefin út í fylgiriti Læknablaðsins.
Líkt og á fyrri ráðstefnum voru gestafyrirlestrar og opinn fræðslufundur fyrir almenning. Ráðstefnan hófst með fyrirlestri Hans Tómasar Björnssonar, læknis við McKusick-Nathans erfðalækningastofnunina og Johns Hopkins háskólasjúkrahúsið, um Kabuki-heilkennið og mögulega meðhöndlanlega ástæðu við þroskaskerðingu. Síðari ráðstefnudagurinn hófst með fyrirlestri Sigurðar Guðmundssonar, smitsjúkdómalæknis og prófessors við Læknadeild, um ebólu en Sigurður þekkir víða til í löndum Afríku eftir að hafa unnið m.a. að uppbyggingu heilbrigðiskerfisins í Malaví.
Almenningi var boðið til fræðslufundar en þar tóku til máls Arna Hauksdóttir, dósent við Miðstöð í lýðheilsuvísindum, og Herdís Sveinsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild. Að þessu sinni fjallaði Arna um náttúruhamfarir og heilsu á Íslandi og tækifæri til þekkingarsköpunar á alþjóðavettvangi í því samhengi. Herdís Sveinsdóttir, fjallaði um líf, heilsu og blæðingar kvenna út frá margs konar sjónarhornum í fyrirlestrinum „Góðar og blessaðar tíðir.“
Við ráðstefnuslit voru fjórar ungar og efnilegar vísindakonur verðlaunaðar fyrir rannsóknir sínar. Til gamans má geta þess að mörg þeirra rannsóknarefna sem voru á dagskrá ráðstefnunnar rötuðu í fjölmiðla og almennt var umfjöllun um ráðstefnuna mikil og góð. Fyrir áhugasama má hér sjá samantekt sem hefur að geyma brot af umfjöllun fjölmiðla um ráðstefnuna.