Doktorsvörn í félagsfræði; Ásta Snorradóttir
Ásta Snorradóttir varði doktorsritgerð sína í félagsfræði.
Hrunið - Heilsa og líðan starfsfólks íslenskra banka í kjölfar bankahruns (Hrunið - The health and well-being of bank employees in Iceland following the collapse of their workplace during an economic recession).
Andmælendur voru dr. Arne Kalleberg, prófessor við Háskólann í Norður Karolínu, Chapell Hill og dr. Guðmundur Ævar Oddsson, lektor við Northen Michigan University.
Leiðbeinandi var dr. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Doktorsnefnd skipuðu dr. Birgit Aust, rannsakandi við Det Nationale Forskningscenter for Arbejdsmiljø í Danmörku, dr. med. Kristinn Tómasson, yfirlæknir hjá Vinnueftirliti ríkisins og dr. Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.
Dr. Helgi Gunnlaugsson, deildarforseti Félags- og mannvísindadeildar, stjórnaði athöfninni.
Efni ritgerðar: Heilsa og líðan bankastarfsfólk í kjölfar hrunsins var rannsökuð, bæði þess starfsfólks sem hélt vinnunni eftir hrun bankanna og því sem var sagt upp. Niðurstöðurnar sýna að starfsfólk sem hélt vinnunni greindi frá verri heilsu og líðan en það starfsfólk sem var sagt upp. Þessi munur á hópunum skýrðist aðallega af því að þeir sem höfðu fengið nýtt starf eftir uppsögn í bönkunum upplifðu heilsu sína og líðan betri en aðrir þátttakendur á meðan starfsóöryggi meðal þeirra sem héldu störfum jók á vanlíðan þeirra.
Í kjölfar hrunsins upplifði starfsfólk bankanna mikið álag í starfi sem tengdist auknum verkefnum, erfiðleikum við að mæta kröfum viðskiptavina og breytingum sem áttu sér stað innan vinnustaðanna. Þau sem störfuðu í deild þar sem samstarfsfólki hafði verið sagt upp, höfðu verið flutt til í starfi eða laun þess skert, greindu frá verri sálrænni líðan en aðrir. Vinnuálag jók á vanlíðan, en mikið sjálfræði í starfi sem og stuðningur bæði innan starfs sem utan dró úr vanlíðaninni. Einkum var það þó hvetjandi stjórnunarstíll næsta yfirmanns og þátttaka yfirmanns við að efla árangursríkan stuðning meðal starfsfólks sem gagnaðist best til að draga úr vanlíðan starfsfólks. Meðal þeirra sem hafði verið sagt upp, kom í ljós að karlmenn áttu almennt auðveldara með að fá nýtt starf. Það skýrðist helst af því að háskólamenntun flýtti fyrir ráðningu í nýtt starf, en flestir karlmannana höfðu háskólagráðu á meðan hópur kvenna hafði blandaðri menntunarbakgrunn. Niðurstöður sýna að það er mikilvægt að huga vel að heilsu og líðan starfsfólks þegar fyrirtæki eða stofnanir ganga í gegnum miklar breytingar. Til að draga úr neikvæðum áhrifum þess fyrir heilsu og líðan starfsfólks, er mikilvægt að auka öryggi í starfsumhverfinu og leggja áherslu á heilsueflingu.
Rannsóknin var unnin í samstarfi við Samtök starfsfólks fjármálafyrirtækja (SSF) og Vinnueftirlit ríkisins. Rannsóknin var styrkt af Rannís.
Ásta Snorradóttir er fædd árið 1967. Hún lauk MA prófi í félagsfræði árið 2008 frá Háskóla Íslands. Hún starfar hjá rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlits ríkisins og sem stundakennari í félagsfræði við Háskóla Íslands. Foreldrar hennar eru Eydís Arnviðardóttir bókasafnsfræðingur og Snorri Pétursson viðskiptafræðingur. Hún er í sambúð með Guðmundi Geirssyni þvagfæraskurðlækni og á tvær dætur, Eydísi Þuríði, sálfræðinema við Háskóla Íslands, og Unni Aðalheiði, leiðbeinanda á frístundaheimilinu Guluhlíð.