Bjarni Gautason ráðinn forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Breiðdalsvík

Bjarni Gautason hefur verið ráðinn forstöðumaður rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Breiðdalsvík. Í auglýsingu um starfið var gerð krafa um doktorspróf á sviði jarðvísinda eða skyldra greina og reynslu af rannsóknum á sviði sem hafa skírskotun til jarðfræði landsins. Þrjár umsóknir bárust og að loknu dóm- og valnefndarferil var Bjarna boðið starfið.
Bjarni lauk doktorsprófi í jarðefnafræði frá University of Alberta 2000 og nefndist doktorsritgerð hans „Geochemical apsects of crustal acretion in Iceland“. Áður hafði hann lokið meistaraprófi í jarðefnafræði frá sama háskóla árið 1992 og B.Sc. prófi í jarðfræði frá Háskóla Íslands 1985.
Bjarni hefur sl. 20 ár starfað hjá Íslenskum orkurannsóknum, m.a. sem útibússtjóri og við rannsóknir og verkefnastjórn; hann hefur reynslu af þátttöku í samstarfsverkefnum, sem og að stýra rannsóknaverkefnum, stórum sem smáum. Hann hefur ritað fræðigreinar og birt í alþjóðlega ritrýndum tímaritum, auk bókarkafla, fjölda annarra greina og skýrslna og kynninga á ráðstefnum. Bjarni starfaði um árabil sem stundakennari við Háskólann á Akureyri og hefur einnig reynslu af leiðbeiningu grunn- og framhaldsnema, störfum prófdómara og setu í doktorsnefnd. Hann var varafulltrúi í vísindanefnd Háskólans á Akureyri frá 2012 til 2021.
Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík er byggt á grunni starfsemi Breiðdalsseturs ses. og er einkum ætlað að sinna rannsóknum á sviði jarðfræði og málvísinda. Háskóli Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands hafa gert samstarfssamning um að efla rannsóknir í jarðfræði á Austurlandi og fjármagna starf verkefnisstjóra við rannsóknasetrið sem m.a. annast umsjón með borkjarnasafni Náttúrufræðistofnunar á Breiðdalsvík.
Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands býður Bjarna hjartanlega velkominn til starfa.
Bjarni Gautason hefur verið ráðinn forstöðumaður rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Breiðdalsvík.