Bætt verklag við inntöku nema utan EES

Frá árinu 2022 hefur umsóknum um nám í Háskóla Íslands frá stúdentum með ríkisfang utan EES fjölgað gífurlega, eða úr 1.108 árið 2022 í 2.471 árið 2025. Þetta jafngildir 123 prósenta aukningu. Fyrir þetta skólaár voru 30% umsókna samþykktar, en það er svipað samþykktarhlutfall og verið hefur. Flestar umsóknir komu frá Filipseyjum, Bandaríkjunum, Nígeríu og Gana. Þó voru aðeins um 18 prósent umsókna frá Nígeríu samþykktar, 24 prósent frá Gana, 40 prósent frá Bandaríkjunum en 64 prósent frá Filipseyjum.
Aukin aðsókn á þessu skólaári olli því að tafir urðu á afgreiðslu umsókna bæði innan skólans og hjá Útlendingastofnun. Því miður leiddi það til þess að talsverður fjöldi tilvonandi nemenda missti af upphafi skólaárs í ágúst 2025, en 130 þeirra fengu boð um að hefja nám í janúar 2026 þess í stað.
Til þess að koma í veg fyrir að slíkar tafir myndu endurtaka sig skipaði Silja Bára R. Ómarsdóttir, rektor HÍ, starfshóp sem nýlega skilaði af sér skýrslu.
„Verkefni hópsins voru að leggja til breytingar á verklagi við inntöku nemenda, meta afdrif erlendra nemenda í alþjóðlegum námsleiðum og leggja mat á hvort deildir væru í stakk búnar til þess að taka á móti auknum fjölda erlendra nemenda,“ segir Ragna Benedikta Garðarsdóttir, aðstoðarrektor menntunar og starfsumhverfis í HÍ, en hún er einn af höfundum skýrslunnar.
Nemendur utan EES jafnlíklegir eða líklegri til að ljúka námi
Niðurstöður skýrslunnar sýna að nemendur við Háskóla Íslands með ríkisfang utan EES séu jafn líklegir eða líklegri til þess að brautskrást úr námi heldur en bæði íslenskir og aðrir erlendir samnemendur þeirra. „Þótt þessi hópur nemenda standi sig almennt vel hafa margar alþjóðlegar námsleiðir lagt til aðgangs- og fjöldatakmarkanir til þess að tryggja áfram að aðstæður séu með sem bestu móti til þess að veita nemendahópum fullnægjandi kennslu og þjálfun sem uppfyllir gæðaviðmið,“ segir Ragna Benedikta.
Útlendingastofnun óskar framvegis eftir að umsóknir um dvalarleyfi hafi borist fyrir 1. maí í stað 1. júní eins og áður, sem kallar á breytt verklag innan Háskóla Íslands. Að sögn Rögnu Benediktu lagði starfshópurinn því til í skýrslunni fjölmargar breytingar á verklagi sem vonandi verði til þess að flýta inntökuferli og þar með tryggja að allir sem hafi þegið boð um skólavist komist til landsins í tæka tíð fyrir upphaf næsta skólaárs.
