Óskar fyrirtækið þitt eftir því að fá nemendur í starfsþjálfun? Hvað er starfsþjálfun í Viðskiptafræðideild? Viðskiptafræðideild er í samstarfi við yfir 60 félagasamtök, fyrirtæki, ráðuneyti og stofnanir. Starfsþjálfun fyrir nemendur í BS og MS/MA/MAcc námi í viðskiptafræði er metin til 6 ECTS eininga fyrir BS nema og 7,5 ECTS fyrir meistaranema. Markmið starfsþjálfunarinnar er að þjálfa nemendur í að vinna störf undir handleiðslu sérfræðinga hjá fyrirtækjum og stofnunum. Mikilvægt er að nemendurnir fái tengilið og góða þjálfun í vinnubrögðum innan fyrirtækisins. Verkefnin skulu tengjast einhverjum þeirra námsgreina sem kenndar eru í Viðskiptafræðideild og reyna á þá þekkingu og færni sem nemandi hefur aflað sér þar. Verkefni nemanda eru afar fjölbreytt og liggja á sviði fjármála, markaðsmála, mannauðsstjórnunar, nýsköpunar, reikningshalds og endurskoðunar, stjórnunar og verkefnastjórnunar. Hlutverk fyrirtækis/stofnunar Fyrirtækið/stofnunin lætur nemanda í té vinnuaðstöðu og tilnefnir umsjónarmann af sinni hálfu sem hefur umsjón með framvindu starfsþjálfunar Starfstími er 150 klst. (6 ECTS) fyrir nemendur í grunnnámi og 200 klst. (7,5 ECTS) fyrir nemendur í meistaranámi og skal starfsþjálfun lokið innan 12 vikna frá því að hún hófst. Að auki er gert ráð fyrir viðbótartíma sem felst í dagbókar- og skýrsluskrifum. Starfsþjálfun felur í sér þjálfun nemanda undir leiðsögn, launaða eða ólaunaða, hjá stofnun eða fyrirtæki, þar sem unnið er að verkefnum á sviði viðskiptafræði. Ef þú hefur áhuga á að bjóða upp á starfsþjálfun ertu vinsamlegast beðinn um að hafa samband með því að senda tölvupóst á netfangið vidskipti@hi.is. Umsjónaraðili starfsþjálfunar mun svara erindi þínu. Umsagnir stjórnenda um starfsþjálfun Hvíta húsið Við á Hvíta húsinu erum stolt af því að hafa tekið á móti starfsnemum frá Viðskiptadeild Háskóla Íslands árlega frá árinu 2020, þegar starfsþjálfun deildarinnar hófst. Samstarfið hefur alla tíð gengið vel og reynst bæði okkur og nemunum mjög lærdómsríkt. Nemarnir hafa almennt gefið starfsnáminu hjá okkur góða umsögn. Þeir hafa lýst þjálfuninni sem fjölbreyttri, fræðandi og skemmtilegri og telja hana veita góða innsýn í daglegt starf og áskoranir atvinnulífsins. Starfsfólk okkar hefur notið þess að taka á móti nemunum, miðla þekkingu og leiðbeina þeim í verkefnum. Á sama tíma hafa nemarnir fært okkur ferska sýn, nýjar hugmyndir og gagnleg sjónarhorn. Við metum samstarfið við Viðskiptadeild Háskóla Íslands mikils og hlökkum til að halda áfram að taka á móti nemum á komandi árum. Elín Helga Sveinbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Hvíta Hússins Össur Hf. Það var frábært að fá tækifæri til að vera í samstarfi við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og vinna með starfsnema þetta haustið. Við vorum að leita að nemanda sem hefur brennandi áhuga á mannauðsmálum og hefur samstarfið gengið mjög vel. Þeir nemendur sem verið hafa í starfsþjálfun hjá okkur hafa fengið verðmæta innsýn í þær starfsaðstæður sem sköpuðust á árinu 2020 vegna heimsfaraldurs og það verður gaman að fylgjast með þeim vaxa í starfi í framtíðinni. Við viljum þakka nemendum og Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands kærlega fyrir samstarfið og hlökkum til að fá fleiri nemendur í framtíðinni. Vala Jónsdóttir, HR business partner hjá Össur Hf. PwC ,,Við hjá PwC erum virkilega ánægð með samstarfið við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands um móttöku nema í starfsþjálfun. PwC hefur ávallt lagt ríka áherslu á sterk tengsl við fræðisamfélagið og er þetta samstarf því góð staðfesting á því. Ánægjulegt er að geta boðið nemum í grunnnámi tækifæri til þess kynnast starfi endurskoðenda betur og eiga kost á því að efla færni sína hjá okkur. Starfsnámið gefur háskólanemum gott tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn og fá tækifæri til að kynnast starfsemi endurskoðenda áður en tekin er ákvörðun um frekara nám eða sérsvið. PwC hlakkar til að taka á móti fleiri starfsnemum frá Viðskiptafræðideild“. Katrín Ingibergsdóttir mannauðsstjóri PwC facebooklinkedintwitter