Skip to main content

Vinnur að appi um þjóðsögur Jóns Árnasonar nærri Skagaströnd

""

Þjóðsögur Jóns Árnasonar, landsbókavarðar og þjóðsagnasafnara með meiru, eru fyrir löngu orðnar að þjóðargersemi og ein af grunnstoðum íslensks menningararfs. Margar af þeim sögum safnaði hann hjá sveitungum sínum í Húnavatnssýslu og Skagafirði en Jón var fæddur á Hofi á Skagaströnd árið 1819.

Ingimar Jenni Ingimarsson, sagnfræðinemi við Háskóla Íslands, hefur í sumar unnið að vefsíðu um þjóðsögur Jóns, ævistarf hans og heimaslóðirnar, Hof á Skagaströnd, Syðri-Ey, Auðkúlu og Steinnes. Þar verða einnig dregin saman tengsl Jóns við þýska þjóðsagnasafnara og áhrif heimaslóða Jóns á störf hans í frásögn sem mun nýta hvoru tveggja myndir og texta á þremur tungumálum. Samhliða vefsíðunni stefnir Ingimar Jenni á að hanna app sem tengist þjóðsögunum, svokallað Þjóðsagnaferðalag.

„Í appinu verður kort af Skagaströnd og nágrenni með hnitmiðuðum staðsetningum þjóðsagnanna þar sem hægt verður að lesa eða hlusta á sögurnar og upplifa þær þar sem þær áttu sér stað. Verkefninu er ætlað að vekja athygli bæði innlendra og erlendra ferðamanna og efla menningartengda ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Svo langar mig að vinna áfram að þessu appi þannig að það taki til þjóðsagna um allt land,“ segir Ingimar Jenni.

Verkefnið er unnið í samstarfi við sveitarfélagið Skagaströnd en fólk þar á bæ átti frumkvæðið að því. Leiðbeinandi Ingimars í verkefninu er Vilhelm Vilhelmsson, forstöðumaður rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra. Stefnt er að því að vefsíðan fari í loftið á næstu vikum eða mánuðum en appið gæti tekið lengri tíma.

Þjóðsögurnar sem hafa verið valdar í verkefnið eiga sér allar stað meðfram vegi 745 sem liggur um Skaga á Norðurlandi og gert verður ráð fyrir að ferðamenn geti átt sér upphafsstað/endastað á vestanverðum eða austanverðum skaganum, eftir hentisemi. „Þjóðsagnaferðalagið mun tengjast Skagaströnd og Skagabyggð. Sögurnar í ferðlaginu verða fimm talsins og verða kortlagðar með GPS-hnitum. Við höfum valið áhugaverðar þjóðsögur á aðgengilegum stöðum, annaðhvort með bifreið eða göngustígum. Áhersla hefur verið lögð á að velja úr þeim fjölmörgu þjóðsögum sem áttu sér stað með fram vegi 745 en þannig geta ferðamenn sem hyggjast fara í þjóðsagnaferðalagið ekið hringinn í kringum skagann. Þjóðsögurnar og upplýsingar um samhengi þeirra verða aðgengilegar í appinu í formi texta en mögulega einnig í hljóðleiðsögn. Að auki verður myndefni notað í appinu til að bæta upplifunina,“ lýsir Ingimar Jenni.

„Í appinu verður kort af Skagaströnd og nágrenni með hnitmiðuðum staðsetningum þjóðsagnanna þar sem hægt verður að lesa eða hlusta á sögurnar og upplifa þær þar sem þær áttu sér stað. Verkefninu er ætlað að vekja athygli bæði innlendra og erlendra ferðamanna og efla menningartengda ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Svo langar mig að vinna áfram að þessu appi þannig að það taki til þjóðsagna um allt land,“ segir Ingimar Jenni. MYND/Sólborg Guðbrandsdóttir

Ferðamenn munu þá geta gengið um viðkomandi staði með leiðsögn í appinu og í hverri þjóðsögu verður hægt að skoða nánar hvaða verur tilheyra henni. „Í sögunni „Barnapolli“ er illmennið nykur en öfuguggi er illmennið í þjóðsögunni „Manndauði á Kaldrana“. Í leiðsögninni er hægt að útskýra hvaða verur þetta eru og hvaða ofurkröftum þær búa yfir. Nálægt Grímsborg við bæinn Ketu gerist svo önnur þjóðsaga. Þar eru líka Ketubjörg þar sem þúsund tonna bjarg féll til sjávar árið 2019 og hægt er flétta það inn í upplifunina. Þá er einnig stórbrotið útsýni á staðnum sem og á Sævarlandi þar sem „Barnapollur“ á sér stað. Kálfshamarsvík á sér enn fremur sérkennilega sögu og Saurar í Nesjum rétt hjá svo ferðamenn geta skoðað báða staðina í einu stoppi,“ útskýrir Ingimar Jenni og bætir við að Ketubjörg og Kálfshamarsvík falli vel að ferðalaginu vegna sögu og náttúrufegurðar staðanna.

„Það gæti jafnframt verið sniðugt að hafa einhvern aðgengilegan stað þar sem ferðamenn gætu stoppað, tekið upp myndavélina sína og skannað inn kóða eða verið með einhvers konar „check in“. Þegar ferðamenn klára þjóðsagnaferðalagið, sem sagt hafa skannað inn alla kóðana, þá myndi það veita þeim ákveðin fríðindi, eins og til dæmis frítt í sund á Skagaströnd eða afslátt á veitingastaði eða sýningar, t.d. Bjarmanesi eða í Spákonuhofi eða þess háttar,“ segir Ingimar enn fremur. Hann telur aðspurður að verkefnið geti stuðlað að aukinni umferð ferðamanna á Skaga og um leið verði þeir líklegri til að nýta sér þjónustu sem boðið er upp á á Skagaströnd og í Skagabyggð. Það geti aftur stuðlað að vexti í efnahagslífi sveitarfélaganna.