„Óskandi væri að niðurstöður rannsóknarinnar myndu ýta undir frekari þróun stuðningsúrræða við þá nemendur sem búa við erfiðar aðstæður og þurfa að forgangsraða fjármunum. Það eru nemendur sem sleppa því að borða heilu dagana og finna fyrir miklum kvíða vegna fjárhagsaðstæðna.“ Þetta segir Gréta Jakobsdóttir, lektor á Menntavísindasviði, um rannsókn innan HÍ sem hefur það að markmiði að meta tíðni fæðuóöryggis meðal háskólanema í Evrópu í heimsfaraldri vegna COVID-19.
Þótt heimsfaraldurinn sé nú í rénum segir Gréta að rannsóknin hafi gríðarlega mikið samfélagslegt gildi, ekki bara sökum þess að tíðni fæðuóöryggis hafi ekki verið metin hérlendis áður í þessum hópi heldur einnig að þessi hópur geti og hafi hreinlega gleymst í umræðunni um fátækt og félagslegan stuðning. „Það að upplifa fæðuóöryggi í lengri eða skemmri tíma getur haft afar neikvæðar afleiðingar í för með sér. Þessi rannsókn veitir innsýn í veruleika ákveðins hóps háskólanema sem er oft undir miklu álagi en góð næring er eitt af undirstöðuatriðum góðrar heilsu.“
Tíðni fæðuóöryggis hér var þrettán prósent hjá háskólanemum
Fyrstu niðurstöður íslenska hluta rannsóknarinnar eru sláandi og benda til þess að algengi fæðuóöryggis hafi verið töluvert hér í heimsfaraldri, eða rúm þrettán prósent. „Þau sem upplifðu fæðuóöryggi höfðu mun minna stuðningsnet aðstandenda og vina í kringum sig. Neysla á grænmeti, ávöxtum og kjöti var minni hjá þessum hópi en hjá þeim sem bjó við fæðuöryggi auk þess sem skipulagðar máltíðir voru fátíðari,“ segir Gréta, „Neysla á fiski, baunum, mjólkurvörum og heilkorni var hins vegar svipuð.“
Gréta segir að flestir svarenda hafi verið konur (74%), Íslendingar (75%) og búsettir á höfuðborgarsvæðinu (83%).
„Ég fékk óvænt boð um að taka þátt í þessari spennandi rannsókn. Viðfangsefnið er mjög þarft þar sem staðan meðal þessa hóps er óljós. Rannsókn eins og þessi skiptir miklu máli fyrir samfélagið, við lærum og kennum í gegnum rannsóknir og þær veita okkur þekkingu til að taka upplýstar ákvarðanir. Rannsóknir stuðla að bættu samfélagi þar sem þær bæta þekkingu og gæði menntunar, þær stuðla að framþróun og upplýsa um stöðu mismunandi málefna sem skipta samfélagið máli,“ segir Gréta.
Þótt hugtakið fæðuöryggi komi mjög oft fyrir í fréttum, ekki síst í tengslum við heimsviðburði sem geta haft mikil áhrif á þennan mikilvæga þátt, þá eru eðlilega ekki öll með það á tæru hvað þetta hugtak merkir? Fæðuóöryggi er skilgreint sem ótryggur aðgangur að næringarríkum og öruggum mat sem nálgast má á viðunandi hátt. Þau sem upplifa óöryggi vegna fæðu finna á eigin skinni að matur klárast, að ekki séu til nægir peningar til frekari innkaupa á mat ásamt tilheyrandi áhyggjum eða að þau láta sér nægja fæðu sem er verri að gæðum.
Skortur á heildstæðu mati á tíðni fæðuóöryggis hjá háskólanemum
Verkefni Grétu og rannsóknateymis er hluti af stærra fjölþjóðlegu verkefni þar sem meta á tíðni fæðuóöryggis í heimsfaraldri í ellefu Evrópulöndum. Kveikjan að rannsókninni er skortur á heildstæðu mati á tíðni fæðuóöryggis meðal háskólanema í álfunni. Þar sem heimsfaraldurinn hafði mikil áhrif á líf og fjárhag þessa hóps var ákveðið að meta stöðuna fyrir og á meðan faraldrinum stóð.
Rannsóknaáhugi Grétu liggur í fæðuvali og venjum og að leita svara við spurningum á borð við hvers vegna við borðum það sem við borðum og hvaða áhrifaþættir vegi þar þyngst. „Ég fékk óvænt boð um að taka þátt í þessari spennandi rannsókn. Viðfangsefnið er mjög þarft þar sem staðan meðal þessa hóps er óljós. Rannsókn eins og þessi skiptir miklu máli fyrir samfélagið, við lærum og kennum í gegnum rannsóknir og þær veita okkur þekkingu til að taka upplýstar ákvarðanir. Rannsóknir stuðla að bættu samfélagi þar sem þær bæta þekkingu og gæði menntunar, þær stuðla að framþróun og upplýsa um stöðu mismunandi málefna sem skipta samfélagið máli,“ segir Gréta.
Vart þarf að fjölyrða um tengsl þessa verkefnis við hin mikilvægu heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem íslensk stjórnvöld keppast við að innleiða.
„Já,“ segir Gréta, „það eru bein tengsl við markmið 1 til 4: engin fátækt, ekkert hungur, heilsu og vellíðan og menntun fyrir alla. Einnig eru tengsl við markmið númer 5, 8 og 10: jafnrétti kynjanna, góð atvinna og hagvöxtur sem og aukinn jöfnuð.“