Skip to main content

Söfnum við nógu miklu til eftirlaunaáranna?

Söfnum við nógu miklu til eftirlaunaáranna? - á vefsíðu Háskóla Íslands

Íslendingar eru líkt og aðrar þjóðir að eldast en það má meðal annars þakka bættri heilsu, betri lífsgæðum og framförum í læknavísindum. Tölur Hagstofunnar sýna að fólki eldra en 65 ára hér á landi hefur fjölgað um 70% frá aldamótum og spár gera ráð fyrir að því eigi eftir að halda áfram að fjölga. 

Þessi mikla fjölgun felur í sér ýmsar áskoranir fyrir samfélagið og vekur jafnframt spurningar um hvort fólk safni nógu miklum fjármunum til að viðhalda lífsgæðum sínum á þessu síðasta æviskeiði sem er sífellt að lengjast. Við þær spurningar fæst Úlf Níelsson, prófessor við Viðskiptafræðideild, í rannsóknum sínum þessi misserin.
 
„Þessi grundvallarspurning hefur hingað til hlotið mun meiri athygli í fræðilegum hagfræðilíkönum en rannsóknum sem styðjast við gögn úr raunheimum. Ástæðan er fyrst og fremst skortur á nægilega góðum gögnum fyrir nógu stórt þýði. Á síðustu árum hafa einkum norrænu ríkin byrjað að safna og birta mjög nákvæm gögn um lífeyrissparnað og uppsafnaðan auð allra einstaklinga. Þetta hefur opnað á möguleikann á að svara þessari rannsóknarspurningu með mun nákvæmari og skýrari hætti en áður,“ segir Úlf.

Aðspurður segir hann rannsóknaáhuga sinn liggja almennt í fjármálum heimilanna og samspili þeirra við svokölluð atferlisfjármál, en sögn Úlfs hegða einstaklingar haga sér oft öðruvísi í raunheimum en fræðilega ströng líkön hagfræðinnar spá fyrir um. „Í verkefninu fæst ég við tvær rannsóknarspurningar. Í fyrsta lagi, sparar fólk almennt nægilega mikið til eftirlaunaáranna - og hvaða hópar eru líklegastir til að gera það ekki? Í öðru lagi, þegar á eftirlaunaárin er komið, hvað stýrir því hvort og hvernig fólk gengur á sparnaðinn sinn? Báðar þessar spurningar eru lykilatriði fyrir bæði fræðifólk og hagstjórnendur enda snúa þær beint að fjármálaheilsu lífeyrisþega og viðhaldsþoli hins norræna velferðarkerfis. Með því að nýta okkur nýlega aðgengileg gögn um lífeyriseignir fólks er markmiðið að svara þessum lykilspurningum með betri og ítarlegri hætti en áður hefur verið gert,“ bætir hann við.

„Sparnaður til elliáranna er ákaflega mikilvægur ef fólk ætlar sér að njóta sömu lífgæða á síðustu æviárunum og það hefur notið fram að því. Ef fólk sparar of lítið til elliáranna getur það einnig leitt til kerfisbundinnar fátæktargildru og ójafnaðar meðal ákveðina hópa, svo sem þeirra sem eru í láglaunastörfum, með takmarkaða menntun og annað slíkt. Of lágur lífeyrissparnaður getur jafnframt sett slíkan þrýsting á fjármál hins opinbera að það getur grafið undan velferðarríkinu,“ segir Úlf.

Úlf Níelsson

Verkefnið vinnur Úlf í samstarfi við danska rannsóknarstofnun á sviði lífeyrismála, Pension Research Center, sem Úlf er aðili að. „Stofnunin greiðir fyrir aðganginn að erlendum gögnum og allir þátttakendur í verkefninu eru rannsakendur innan hennar.“ 

Úlf segir aðspurður að endanlegar niðurstöður rannsóknarinnar liggi ekki fyrir en væntingar séu um að þær leiði í ljós að mun fleiri spara nægjanlega fyrir elliárunum en rannsóknir sem byggjast á bandarískum gögnum gefa til kynna. „Í rannsókninni munum við jafnframt leitast við að sýna fram á með útreikningum hvort misíþyngjandi skyldusparnaður, sem er breytilegur t.d. milli starfsstétta, breytir ekki einungis lífeyrissparnaði fólks, heldur mögulega einnig annarri auðsöfnun, svo sem fjárfestingum í húsnæði, verðbréfum, skuldasöfnun, neyslustigi og fleiru,“ segir Úlf enn fremur.

Niðurstöðurnar eru því ekki aðeins mikilvægar út frá fræðilegum sjónarhóli heldur einnig samfélagslegum enda mikilvægt fyrir stjórnvöld og stefnumótendur að hafa skýr gögn sem gefa þeim færi á að bregðast við hugsanlegum framtíðarvanda í lífeyrismálum og komast að því hvar skóinn kreppir. „Sparnaður til elliáranna er ákaflega mikilvægur ef fólk ætlar sér að njóta sömu lífgæða á síðustu æviárunum og það hefur notið fram að því. Ef fólk sparar of lítið til elliáranna getur það einnig leitt til kerfisbundinnar fátæktargildru og ójafnaðar meðal ákveðina hópa, svo sem þeirra sem eru í láglaunastörfum, með takmarkaða menntun og annað slíkt. Of lágur lífeyrissparnaður getur jafnframt sett slíkan þrýsting á fjármál hins opinbera að það getur grafið undan velferðarríkinu,“ segir Úlf að endingu.