COVID-19 faraldurinn hefur vakið margar áleitnar spurningar um ákvarðanir stjórnvalda, siðferðileg álitamál í heilbrigðisgeiranum, réttindi og skyldur almennings, mat á áhættu og mismunandi hagsmunum, upplýsingagjöf til almennings og traust til vísinda.
Núverandi ástand kallar á nýjar rannsóknir að sögn Eyju Margrétar Brynjarsdóttur, prófessors í heimspeki og hagnýtri siðfræði, en hún er, ásamt Finni Ulf Dellsén, dósent í heimspeki, og Vilhjálmi Árnasyni, prófessor í sömu grein, umsjónarmaður rannsóknarverkefnisins „Heimspekilegar áskoranir á farsóttartímum“ sem unnið verður nú í sumar á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Þau starfa öll við námsbraut í heimspeki við Hugvísindasvið Háskóla Íslands en Vilhjálmur er jafnframt formaður stjórnar Siðfræðistofunnar, þar sem verkefnið verður hýst.
„Rannsóknin snýst um að skoða COVID-19 faraldurinn og viðbrögðin við honum út frá þeim undirsviðum heimspekinnar sem helst snerta á þeim álitamálum sem upp koma, hagnýtri siðfræði, femínískri heimspeki, stjórnmálaheimspeki og þekkingarfræði/vísindaheimspeki. Nauðsynlegt er að kortleggja og halda til haga mikilvægum upplýsingum sem hafa komið fram en gætu gleymst þegar fram líða stundir, meðal annars vegna þess hvaða gildi það getur haft í rannsóknum á þessu fordæmalausa tímabili seinna meir,“ segir Eyja.
Fjórir nemendur við heimspeki, þau Ásthildur Gyða Garðarsdóttir, Hörður Brynjar Halldórsson, Victor Karl Magnússon og Vigdís Hafliðadóttir, munu sjá um að skrásetja helstu atburði og álitamál sem komið hafa upp, auk þess að vinna með leiðbeinendum að því að greina þessa atburði og álitamál út frá heimspeki- og siðfræðilegu sjónarhorni. Hver nemandi leggur áherslu á eitt ofannefndra sviða en hópurinn í heild sinni vinnur jafnframt saman og samþættir þannig rannsóknir sínar. Hlutverk leiðbeinendanna felst svo í því að koma nemendunum inn í verkið við upphaf þess, kynna helstu atriði sem huga þarf að, vinna með þeim verkáætlun og lesa yfir og gera athugasemdir við niðurstöðurnar.
Meðal atburða og álitamála sem nemendur munu kortleggja og greina eru boð Íslenskrar erfðagreiningar um að prófa fyrir COVID-19, sem var tímabundið dregið til baka vegna ágreinings um eftirlitshlutverk Vísindasiðanefndar með verkinu og hvort líta ætti á það sem rannsókn. Fleiri dæmi eru ýmsar ákvarðanir um lokanir fyrirtækja og stofnana og þeir hagsmunir og áhættumat sem hafa þarf til hliðsjónar þar, aukin hætta á heimilisofbeldi og ýmiss konar álag innan heimila. Að auki verður þróun umræðu um faraldurinn skoðuð út frá aðgangi almennings að upplýsingum, mati á þeim og áhrifa umræðunnar á hegðun almennings og afstöðu.
„Rannsóknin snýst um að skoða COVID-19 faraldurinn og viðbrögðin við honum út frá þeim undirsviðum heimspekinnar sem helst snerta á þeim álitamálum sem upp koma, hagnýtri siðfræði, femínískri heimspeki, stjórnmálaheimspeki og þekkingarfræði/vísindaheimspeki. Nauðsynlegt er að kortleggja og halda til haga mikilvægum upplýsingum sem hafa komið fram en gætu gleymst þegar fram líða stundir, meðal annars vegna þess hvaða gildi það getur haft í rannsóknum á þessu fordæmalausa tímabili seinna meir,“ segir Eyja.
„Þó að íslenska þjóðin og mannkyn allt hafi áður glímt við farsóttir þá er mjög langt um liðið síðan faraldur á sama mælikvarða og COVID-19 gekk yfir og allar samfélagsaðstæður gjörbreyttar. Rannsóknir frá þessu sjónarhorni, þar sem þessi tilteknu viðfangsefni koma saman, eiga sér því fá fordæmi. Ætla má að fjölmargar rannsóknir á heimspekilegum hliðum COVID-19 faraldursins verði gerðar á næstu mánuðum víða um heim. Þessi rannsókn hefur sérstöðu að því leyti að hún mun einblína á framvindu faraldursins á Íslandi sem er um margt sérstök, meðal annars vegna smæðar landsins og einangrunar þegar flugsamgöngur falla niður, auk óvenju virkrar smitrakningar. Þá hefur Ísland einnig sérstöðu vegna aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar að viðbrögðum hér á landi,“ segir Eyja Margrét.
Að hennar mati má telja það líklegt að hlutfallsleg stærð og mikilvægi ferðaþjónustu fyrir efnahagslífið haldi áfram að vekja upp ýmsar stjórnspekilegar spurningar á næstu mánuðum, t.d. um tilhögun við opnun landsins fyrir ferðamönnum þrátt fyrir hættuna á nýjum smitum erlendis frá. Einnig að sérstaða Íslands verði skoðuð með samanburði við nágrannaríki, einkum Danmörku og Svíþjóð, þar sem stjórnvaldsákvarðanir voru ólíkar þeim sem hér voru teknar.
„Ef vel tekst til munu þær heimspekilegu rannsóknir á COVID-19 sem gerðar verða á næstu árum byggjast á þessari skrásetningu og greiningu auk þess sem rannsóknir utan heimspeki, svo sem í stjórnmálafræði og félagssálfræði, geta byggt á sama grunni að nokkru leyti. Kennsla um COVID-19 getur einnig byggt á þessum grunni enda verða útbúnir textar fyrir Vísindavef HÍ sem henta sérstaklega vel í kennslu, t.d. á framhaldsskólastigi. Loks mun opinber umræða geta byggt á þessum grunni enda verða gögn og niðurstöður birtar opinberlega og fjölmiðlum sérstaklega bent á þau,“ segir hún.