„Innflytjendur er hópur fólks sem er mjög lítið rannsakaður hérna heima þannig við ákváðum að reyna að kanna hvernig þeim hefði liðið í COVID-19-faraldrinum. Það er til fullt af upplýsingum um hvernig Íslendingum leið í faraldrinum og hvert álit þeirra var á sóttvarnareglum og bólusetningum,“ segir Katrín Lea Elenudóttir, nemi í stjórnmálafræði, um verkefni sem hún vann síðasta sumar með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna en það sneri að upplifun innflytjenda á Íslandi af heimsfaraldri. Verkefnið var unnið undir leiðsögn Huldu Þórisdóttur, dósents í stjórnmálafræði.
Í rannsókninni var einblínt á innflytjendur frá Austur-Evrópu, þ.e. Rússlandi og Póllandi: „Töluleg gögn sýna það að í Rússlandi og í Póllandi er mesta bólusetningahikið gegn COVID-19 í þeim löndum þar sem bólusetningin er mjög aðgengileg,“ segir Katrín og bætir við: „Ef það er svona mikið bólusetningahik í þeim löndum, hver er þá staðan hjá innflytjendum frá þeim löndum sem búa hérna?“
Rannsókn Katrínar er undirbúningur fyrir lokaverkefni hennar til BA-prófs í stjórnmálafræði en þar segist hún vilja rannsaka efnið enn frekar og notast við stærra úrtak. Í þessari rannsókn fékk hún tíu viðmælendur, fimm Pólverja og fimm Rússa, á aldrinum 30-45 ára í viðtöl þar sem spurningaflokkar voru í þremur þemum: Hvaðan upplýsinga hefði verið aflað um kórónuveirufaraldurinn, hvort viðmælendur hefðu látið bólusetja sig og ef ekki, hvers vegna og hvaða álit viðmælendur hefðu á sóttvarnaraðgerðum íslenskra yfirvalda. Viðmælendur Katrínar áttu það sameiginlegt að hafa flutt til Íslands á fullorðinsaldri og búið hér fyrir faraldurinn.
Vantraust á fjölmiðla heimalands og samsæriskenningar
Að sögn Katrínar er hægt að greina fjórar meginniðurstöður út frá viðtölunum. Á meðal þess sem kom í ljós var að meirihluti þátttakenda aflaði sér upplýsinga um faraldurinn bæði í innlendum og erlendum fjölmiðlum en þó ekki frá sínu heimalandi. „Þau fylgdust með innlendum fréttum og treystu þeim og sama má segja um erlendar fréttastofur eins og CNN og BBC en hópurinn vantreysti pólskum og rússneskum fjölmiðlum. Þau lásu þá en voru alltaf á varðbergi og þá sérstaklega á meðal Rússa. Þau voru eiginlega að forðast rússnesku fréttamiðlana.“
Í niðurstöðum mátti einnig sjá að níu af tíu viðmælendum rannsóknarinnar hölluðust að því að trúa einhvers konar samsæriskenningum er vörðuðu COVID-19 og athygli vekur að þrír viðmælendur sem tjáðu sig hvað mest um samsæriskenningar voru þeir sem höfðu ekki þegið bólusetningu gegn veirunni. Þeir sjö viðmælendur sem höfðu bólusett sig gegn veirunni sýndu samt merki um bólusetningahik. Lýstu þeir t.a.m. efasemdum um langtímaáhrif bóluefnanna. Einnig lýstu þeir efasemdum um hversu oft þeir voru kallaðir í bólusetningu og virtust samfélagsleg áhrif eiga stóran þátt í ákvörðun þeirra viðmælenda að láta bólusetja sig.
Aðspurð hvaða gildi rannsóknarefnið hefur fyrir vísindin almennt og samfélagið í heild segist Katrín telja að mikilvægt sé að rannsaka innflytjendur og upplifun þeirra. „Þetta er svo stór hópur, bara Pólverjar eru um 25.000 hér á landi og þótt Rússar séu mun minni hópur er samt mjög mikilvægt að vita hvaðan þessir hópar afla sér upplýsinga. Við sjáum að mjög margir eru óbólusettir og það hefur náttúrulega áhrif á lýðheilsu samfélagsins,“ segir Katrín. MYND/Kristinn Ingvarsson
Allir viðmælendurnir sögðust hafa verið mjög ánægðir með sóttvarnaraðgerðir yfirvalda í upphafi faraldursins en áttu erfitt með skilja afléttingu takmarkana á meðan smittölur gátu enn náð miklu hæðum.
„Mögulega náðu ástæðurnar fyrir afléttingunum ekki til þeirra,“ segir Katrín og vísar til þess hvernig yfirvöld álitu veiruna ekki endilega eins hættulega og áður við afléttingar þar sem mikill fjöldi fólks hafði þegið bólusetningu í landinu og afbrigði veirunnar á þeim tíma þóttu ekki jafn skaðleg og í upphafi faraldurs.
Rannsóknir af þessu tagi geti hjálpað til við að læra af mistökum
Aðspurð hvaða gildi rannsóknarefnið hefur fyrir vísindin almennt og samfélagið í heild segist Katrín telja að mikilvægt sé að rannsaka innflytjendur og upplifun þeirra. „Þetta er svo stór hópur, bara Pólverjar eru um 25.000 hér á landi og þótt Rússar séu mun minni hópur er samt mjög mikilvægt að vita hvaðan þessir hópar afla sér upplýsinga. Við sjáum að mjög margir eru óbólusettir og það hefur náttúrulega áhrif á lýðheilsu samfélagsins,“ segir Katrín.
Hún bætir við að mikilvægt sé að læra af viðbrögðum okkar og mögulegum mistökum fyrir mögulegar farsóttir í framtíðinni. „Hvernig og hvaða upplýsingum hefur verið dreift og hver var ástæða þess að fyrirmælum og sóttvarnaraðgerðum var ekki fylgt,“ segir Katrín og greinilegt er að athyglisvert og spennandi lokaverkefni til BA-gráðu í stjórnmálafræði bíður hennar.
Höfundur greinar: Egill Aaron Ægisson, nemi í fjölmiðla- og boðskiptafræði.