Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands hlaut nýverið þriggja milljóna evra styrk, jafnvirði nærri 420 milljóna króna, úr Horizon Europe áætlun Evrópusambandsins fyrir rannsóknaverkefnið Reclaiming Liberal Democracy in Europe (RECLAIM). Styrkurinn er til þriggja ára og er markmið verkefnisins að rannsaka áhrif upplýsingaóreiðu á lýðræði í Evrópu. Alþjóðamálastofnun heldur utan um verkefnið en Maximilian Conrad, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, leiðir það.
„Ég tel að upplýsingaóreiða og uppgangur þess sem kallað er „stjórnmál eftirsannleikans“ (e. post-truth politics) sé ein af helstu áskorunum sem blasa við frjálslyndu lýðræði nú um stundir. Við þurfum að finna skilvirkar leiðir til þess að takast á við þær. Við höfum á síðustu árum séð ýmsa þætti sem stuðla að framrás þess konar stjórnmála. Sem dæmi má nefna uppgang popúlisma, þar sem sannleikurinn víkur í allri miðlun, vöxt stafrænna miðla og samfélagsmiðla og hnignun blaðamennsku. Við verðum jafnframt vitni að upplýsingaóreiðuherferðum þar sem utanaðkomandi aðilar hafa áhrif á stjórnmál og stefnumörkun í ýmsum löndum,“ segir Maximilian og vísar m.a. í afskipti Rússa af Brexit-kosningunum í Bretlandi og forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016.
Hvernig menntum við fólk lýðræðislegrar þátttöku á öld upplýsingaóreiðu?
RECLAIM-verkefninu er ætlað að koma fram með nýjar skilgreiningar og aðferðir til að greina hin víðtæku og ólíku áhrif sem upplýsingaóreiða hefur á lýðræði í dag. Markmiðið með verkefninu er að greina stöðu upplýsingaóreiðu í Evrópu og nýta niðurstöðurnar til ráðlegginga um stefnumótun, fræðslu og aðgerðir til þess að sporna gegn neikvæðum afleiðingum upplýsingaóreiðu fyrir lýðræðislega umræðu og grunnstoðir frjálslynds lýðræðis í nútímasamfélagi.
„Við rýnum m.a. í það hvaða hlutverki vantraust í garð meginstraumsfjölmiðla gegnir í þessu tilliti og hvernig er hægt að sigrast á því og skoðum tæknilega þætti og ytri áhrifaþætti eins og áðurnefndar leiðir ríkja til að dreifa villandi upplýsingum í öðrum ríkjum í gegnum samfélagsmiðla. Við horfum líka á hvernig tekist er á við upplýsingaóreiðu í menntun til borgaravitundar og þátttöku í samfélaginu. Þetta er að mínu mati einna mikilvægasti þátturinn: Hvernig undirbúum við borgara fyrir að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi þar sem upplýsingaumhverfið er háð stöðugum breytingum og því hagrætt með ýmsum hætti. Hvar þurfum við að gera betur?“ spyr Maximilian.
Mikil viðurkenning á starfi Alþjóðamálastofnunar
Að sögn Maximilians er rannsóknarhópurinn sem kemur að verkefninu afar fjölbreyttur, bæði með tilliti til fræðigreina og uppruna, „en vegna þess hvernig verkefnið er byggt upp munu einstakir hlutar þess mynda eina heild að lokum.“
Auk Háskóla Íslands taka þrettán aðrir háskólar og stofnanir þátt í verkefninu: Goldsmiths College í Bretlandi, Háskólinn í Ljubljana, UAM háskólinn í Madríd, Jagiellonian-háskólinn í Kraká, Háskólinn í Viktoría í Kanada, Scuola Normale Superiore í Flórens, New Bulgarian háskólinn í Sofíu, Alþjóðamálastofnunin í Zagreb, ARENA-stofnunin við Oslóarháskóla, Trans European Policy Studies Association (TEPSA) í Brussel, Alþjóðamálastofnunin í Prag, Alþjóðamálastofnunin í Róm og Liechtenstein Institute í Bendern.
„Þetta er í raun dæmi um mikilvægi samstarfs fræðimanna við rannsóknarstofnanir háskólans og sýnir glöggt hverju slíkt samstarf getur skilað. Það er hagur í því fyrir fræðafólk við háskólann að geta sótt í þá reynslu og þekkingu sem við höfum byggt upp árum saman við Alþjóðamálastofnun í þróun alþjóðlegra rannsóknarverkefna, umsóknarskrifum í alþjóðlega rannsóknarsjóði og eflingu tengslanets í alþjóðamálum,“ segir Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar.
Hún segir Horizon Europe styrkinn mikla viðurkenningu á starfi Alþjóðamálastofnunar en stofnunin hefur starfað frá árinu 1990 og sérhæft sig í rannsóknum um alþjóðamál og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Þrjú rannsóknasetur heyra undir stofnunina, Rannsóknasetur um smáríki, Rannsóknasetur um norðurslóðir og Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands. „Styrkurinn byggist að hluta til á verkefni Höfða friðarseturs sem styrkt er úr Jean Monnet Networks sjóði Evrópusambandsins og snýr að rannsóknum á upplýsingaóreiðu og áhrifum hennar á Evrópusamrunann en það verkefni stendur nú yfir og lýkur í júní 2023,“ bætir Pia við.
„Við viljum leggja fram skýra sýn á það hvað frjálslynd lýðræðissamfélög þurfa að gera til þess að nesta borgara sína sem best fyrir þátttöku í samfélaginu. Við viljum varpa ljósi á forsendur og birtingarmyndir „stjórnmála eftirsannleikans“ en samfélagsleg áhrif rannsóknaverkefnisins grundvallast ekki síst á þeim ráðleggingum um stefnumörkun sem líta munu dagsins ljós,“ segir Maximilian.
Leggja til leiðir til lausn vandans
Þegar spurt er um samfélagsleg áhrif verkefnisins undirstrikar Maximilian að þau felist ekki síst í því að ganga lengra en að lýsa og öðlast betri skilning á upplýsingaóreiðu og „stjórnmálum eftirsannleikans“. Með ítarlegri rýni og skýrum ráðleggingum fái stjórnvöld í Evrópu í hendur gögn til stefnumótunar í þágu upplýstrar umræðu. „Við viljum leggja fram skýra sýn á það hvað frjálslynd lýðræðissamfélög þurfa að gera til þess að nesta borgara sína sem best fyrir þátttöku í samfélaginu. Við viljum varpa ljósi á forsendur og birtingarmyndir „stjórnmála eftirsannleikans“ en samfélagsleg áhrif rannsóknaverkefnisins grundvallast ekki síst á þeim ráðleggingum um stefnumörkun sem líta munu dagsins ljós,“ segir Maximilian.
Nánar um Alþjóðamálastofnun og verkefni hennar
Alþjóðamálastofnun hefur í gegnum árin hlotið fjölda annarra styrkja og má þar m.a. nefna styrki úr Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins og Nordplus Higher Education fyrir InPeace verkefni Höfða friðarseturs árið 2019 en verkefnið felst í þróun námsefnis og námskeiða í friðar- og átakafræðum. Þá hlaut Rannsóknasetur um smáríki öndvegissetursstyrk árið 2013 frá menntaáætlun Evrópusambandsins og hefur síðan þá starfað sem Jean Monnet Centre of Excellence. Einnig hlaut setrið styrki úr Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins árið 2014, 2016, 2018 og 2020 fyrir verkefni sem lúta að stöðu smáríkja í Evrópu. Setrið hlaut einnig Jean Monnet Networks styrk árið 2017 fyrir rannsóknaverkefnið Navigating the Storm: The Challenges of Small States in Europe. Rannsóknasetur um smáríki hefur ennfremur starfrækt sumarskóla í smáríkjafræðum frá árinu 2003 og hefur hlotið gæðaviðurkenningu Erasmus+ fyrir hann.