Flest þekkjum við hvaða áhrif það getur haft að fara svöng í innkaupaleiðangur í matvöruverslun. Hver kannast ekki við að hafa kippt með sér súkkulaðistykki, kexpakka eða gosflösku um leið og kvöldmatnum eða innkaupum vikunnar er dembt á færibandið? Freistingarnar finnast víða í matvöruverslununum og geta haft áhrif á val okkar. Þetta hefur verið viðfangsefni Birnu Þórisdóttur, doktors í næringarfræði, og samstarfsfólks í nýju rannsóknarverkefni.
„Markmiðið með verkefninu var að þróa aðferð til að meta fæðuumhverfið í matvöruverslunum með tilliti til lýðheilsu og nota svo aðferðina til að fá upplýsingar um stöðuna á Íslandi. Með fæðuumhverfi í matvöruverslunum er átt við meðal annars hilluplássið sem ólíkar vörur fá að leggja undir sig og staðsetningu, svo sem við inngang eða kassasvæði, auk fleiri þátta. Það hvort fæðuumhverfið hvetur viðskiptavini frekar til að kaupa heilsusamlegar eða óheilsusamlegar matvörur hefur áhrif á mataræði, næringarástand og heilsu,“ segir Birna sem er nýdoktor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands og rannsóknarsérfræðingur við Heilbrigðisvísindastofnun skólans.
Hugmyndin að verkefninu kviknaði að sögn Birnu í námskeiðinu Áhrifavaldar næringar sem hún kennir ásamt Bryndísi Evu Birgisdóttur, prófessor í næringarfræði, og fleirum við Háskóla Íslands. „Þar eru skoðaðir þeir ótal þættir sem stýra fæðuvali einstaklinga,“ segir hún. Tveir meistaranemar í næringarfræði, Perla Ósk Eyþórsdóttir og Guðmundur Gaukur Vigfússon, unnu verkefnið sumarið 2021 með stuðningi frá Nýsköpunarsjóði námsmanna og undir leiðsögn Birnu og Bryndísar Evu. Verkefnið var samstarf Háskóla Íslands og Krabbameinsfélags Íslands.
Rannsóknaraðferð sem getur nýst til að þrýsta á um lýðheilsuaðgerðir
Eftir að hafa kynnt sér ýmsar ólíkar aðferðir sem eru notaðar til að meta fæðuumhverfi matvöruverslana valdi hópurinn að þýða og staðfæra aðferð sem alþjóðlegt samstarfsnet sem gengur undir nafninu Informas hafði þróað. „Kostirnir eru nokkrir, meðal annars er aðferðalýsingin öllum opin og aðgengileg, nákvæm, tiltölulega einföld og notuð víða um heim. Því er hægt að bera stöðuna saman í ólíkum löndum,“ bendir Birna á en segja má að í þessu felist ákveðin nýsköpun fyrir íslenskt samfélag. „Það ætti að vera auðsótt fyrir þá sem hafa áhuga á að meta fæðuumhverfi í matvöruverslunum að nýta aðferðina. Hún getur nýst til að fylgjast með stöðunni og þrýsta á lýðheilsuaðgerðir og með endurteknum mælingum er hægt að fylgjast með breytingum á fæðuumhverfinu, sem hefur áhrif á okkur öll hvort sem okkur líkar betur eða verr.“
Aðferðin gengur að sögn Birnu út á mælingar á hilluplássi valdra fæðuflokka og skráningu á staðsetningu þeirra. „Ferskir og frosnir ávextir og grænmeti eru fulltrúar heilsusamlegrar fæðu og kex, sælgæti, gos- og orkudrykkir og snakk eru fulltrúar óheilsusamlegrar fæðu. Gögn frá Nýja-Sjálandi benda til þess að mæling á þessum völdu fæðuflokkum gefi sambærilegar niðurstöður og mæling á nær öllum matvörum í verslun, sem væri auðvitað miklu flóknara og tímafrekara.“
„Út frá hlutfalli óheilsusamlegrar og heilsusamlegrar fæðu og staðsetningu óheilsusamlegrar fæðu er næstum hægt að trúa því, sem margir fá á tilfinninguna, að súkkulaðið eða hvað sem það er hreinlega stökkvi sjálft ofan í innkaupakerruna þegar maður verslar svangur og þreyttur eftir langan dag og leyfir umhverfinu að ráðskast með sig. Við viljum auðvitað helst að heilsusamlegur matur stökkvi frekar ofan í kerrur og körfur,“ segir Birna sem er hér ásamt Guðmundi Gauki Vigfússyni. Þau koma að verkefninu ásamt þeim Perlu Ósk Eyþórsdóttur og Bryndísi Evu Birgisdóttur. MYND/Kristinn Ingvarsson
Ávexti og grænmeti hvergi að finna nærri kassasvæði
Hópurinn leitaði til stærstu matvöruverslananna á höfuðborgarsvæðinu og fékk leyfi til að framkvæma mælingar í samtals 12 verslunum fjögurra keðja. Þær leiddu ýmislegt forvitnilegt í ljós. „Óheilsusamlega fæðan fékk tvöfalt meira pláss en heilsusamlega fæðan ef við skoðum meðaltal allra verslananna. Verslanir innan sömu keðju voru svipaðar innbyrðis en það var mikill munur á milli keðja: fyrir hverja 10 fermetra af óheilsusamlegri fæðu voru á bilinu 2,3 til 8,9 fermetrar af heilsusamlegri fæðu,“ segir Birna um niðurstöðurnar.
Hún bendir enn fremur á að rannsóknir sýni að líklegt sé að fólk kaupi vörur staðsettar á kassasvæði án þess að hafa endilega ætlað sér það. „Hvergi var ávexti og grænmeti að finna á kassasvæði en í öllum verslunum var þar að finna óheilsusamlega fæðu og stundum mikið af henni, eða allt að 10 fermetra af hilluplássi. Við inngang og á gangaendum, sem einnig eru svæði sem geta haft töluverð áhrif á kauphegðun viðskiptavina, var að finna bæði heilsusamlega og óheilsusamlega fæðu,“ segir Birna um niðurstöðurnar sem voru kynntar á ráðstefnu um nýsköpun í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands fyrr í haust.
Næstum eins og súkkulaðið stökkvi ofan í innkaupakerruna
Það er því víða hægt að bæta fæðuumhverfi í verslunum og stuðla þannig að bættri lýðheilsu þjóðarinnar. „Munur milli verslunarkeðja sýnir að það er hægt að taka meðvitaða stefnu um þessi mál og fylgja henni fast eftir. Út frá hlutfalli óheilsusamlegrar og heilsusamlegrar fæðu og staðsetningu óheilsusamlegrar fæðu er næstum hægt að trúa því, sem margir fá á tilfinninguna, að súkkulaðið eða hvað sem það er hreinlega stökkvi sjálft ofan í innkaupakerruna þegar maður verslar svangur og þreyttur eftir langan dag og leyfir umhverfinu að ráðskast með sig. Við viljum auðvitað helst að heilsusamlegur matur stökkvi frekar ofan í kerrur og körfur,“ segir Birna.
Allar verslanirnar fengu að sögn Birnu endurgjöf og voru hvattar til að gera breytingar sem styðja við heilsusamleg innkaup. „Stjórnendurnir og starfsfólk verslana voru mjög jákvæðir fyrir verkefninu, töldu það samfélagslega ábyrgt að taka þátt og voru opnir fyrir frekara samtali eða samstarfi til að bæta næringu þjóðarinnar,“ segir hún enn fremur.
Á kafi í rannsóknum á mataræði
Ljóst er að samfélagslegur ávinningur verkefna sem þessara er afar mikill því eins og Birna bendir á snertir það næstum alla. „Flestir versla jú í matvöruverslunum og verkefni sem þetta getur opnað á samtal hjá þjóðinni um mikilvægi heilbrigðs mataræðis og góðrar næringar,“ segir Birna sem mun ásamt samstarfsfólki einnig birta vísindagrein um niðurstöðurnar. „Framtíðarsýn verkefnisins er fæðuumhverfi í matvöruverslunum sem styður við heilsusamleg innkaup. Það hefur augljósan ávinning fyrir lýðheilsu, samfélag og atvinnulíf.“
Birna lauk doktorsverkefni sínu í næringarfræði við Háskóla Íslands fyrir þremur árum en doktorsritgerð hennar fjallaði um mataræði og D-vítamínbúskap íslenskra barna. Hún hefur haldið áfram að helga sig mataræði Íslendinga eins glöggt kemur fram í ofangreindu verkefni. „Í augnablikinu er ég svo á kafi í rannsóknum á mataræði barna, er meðal annars að skoða tilbúinn barnamat sem fæst í matvöruverslunum, er í stóru norrænu samstarfi í tengslum við næringarráðleggingar og mun svo einbeita mér að rannsóknum á mataræði landsmanna,“ segir þessi unga vísindakona um framtíðarviðfangsefnin.