Skip to main content

Markvissari sýn á upplifun fólks af leigumarkaði á Íslandi

Reykjavík

Fólki á leigumarkaði hefur fjölgað talsvert á síðastliðnum árum. Aðstæður í samfélaginu hafa breyst í kjölfar efnahagshrunsins en þar má sérstaklega nefna aukinn fjölda ferðamanna á Íslandi, þar sem fjölda húsnæðis hefur verið breytt í heimagistingu fyrir ferðamenn. Í mörgum tilfellum er þetta húsnæði sem áður var leigt á hinum almenna leigumarkaði. Frá því um aldamót hefur jafnframt orðið aukning í fjölda fólks af erlendum uppruna á Íslandi en stór hluti þess er einnig á leigumarkaði.

Rannsóknin „Íslenskur leigumarkaður: Reynsla og upplifun leigjenda“ er unnin í sumar á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna en markmiðið með henni er að skoða upplifun fólks af leigumarkaði og ástæður þess að það er á leigumarkaði í stað þess að eiga húsnæði. Ólíkar aðstæður og viðhorf geta legið þar að baki og verða þær kortlagðar í rannsókninni.

Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, leiðir rannsóknina ásamt þeim Önnu Lísu Rúnarsdóttur, verkefnisstjóra við Háskóla Íslands, og Má Wolfgang Mixa, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Þeim innan handar er Miriam Petra Ómarsdóttir Awad, sem úskrifaðist úr hnattrænum fræðum frá Háskóla Íslands í vor.

„Kveikjan að rannsókninni var sú að ég og Már skrifuðum saman bókakafla í ritrýnda bók um þróun húsnæðisverðs á Íslandi eftir hrunið,“ segir Kristín en hún hefur meðal annars skoðað mismunun og fordóma innan þess sviðs og Már kemur úr fjármálafræðinni. „Már var þá búinn að vinna að verkefnum sem sneru að þróun húsnæðislána og ég að rannsóknum um samfélagsbreytingar eftir hrun. Þetta var mjög skemmtilegt samstarf og í framhaldi af því ákváðum við að það væri áhugavert að kalla betur fram reynslu ákveðinna hópa á Íslandi sem hafa verið á leigumarkaði. Síðar kom Anna Lísa inn í þetta en hún hefur reynslu af rannsóknum sem snúa að tengslum milli samfélagsbreytinga og húsagerðar og hvernig fólk skapar sér heimili.“

Lögð er meðal annars áhersla á fólk sem missti húsnæði sitt eftir hrun og fólk af erlendum uppruna. Spurt er meðal annars hversu lengi viðkomandi hafi verið á leigumarkaði og ánægja með húsnæði könnuð. Að auki verður skoðað hvort og þá hvaða áhrif aukinn ferðamannastraumur undanfarinna ára og yfirstandandi heimsfaraldur kórónuveiru hefur haft á húsnæðismál viðmælenda.

Kristín Loftsdóttir og Miriam Petra Ómarsdóttir Awad koma að verkefninu ásamt þeim Önnu Lísu Rúnarsdóttur, verkefnisstjóra við Háskóla Íslands, og Má Wolfgang Mixa, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.

Kristín Loftsdóttir og Miriam Petra Ómarsdóttir Awad

„Húsnæðismál eru stórt samfélagslegt mál á Íslandi og kannanir hérlendis hafa sýnt að flestir á leigumarkaði vilja kaupa eigið húsnæði. Í rannsókninni leggjum við áherslu á að skoða hvort tveggja í víðara samhengi með áherslu á tölfræðileg gögn en líka reynslu og upplifun fólks á leigumarkaði,“ segir Kristín og bætir við að þau vonist til þess að rannsóknin dragi fram raddir þeirra sem séu á leigumarkaði, upplifun þeirra og væntingar til framtíðarhúsnæðis. Einnig að hún varpi ljósi á mögulega fordóma og jaðarstöðu ákveðinna hópa á leigumarkaði.

„Með styrknum frá Nýsköpunarsjóði og þeim hluta verkefnisins sem Miriam vinnur að vonumst við til þess að það megi enn frekar styrkja þann hluta verkefnisins sem snýr að fólki af erlendum uppruna á leigumarkaði. Það er mikilvægt að draga reynslu innflytjenda fram. Þessi vinna er framlag í markvissari sýn á það hvernig hægt sé að veita fleiri fjölskyldum á Íslandi möguleika á að eignast eigið húsnæði, bæði með og án aðstoðar opinberra aðila. Þrátt fyrir að til sé mikið af góðum og vel unnum skýrslum um leigumarkað á Íslandi þá vantar rannsóknir á þessu efni og þá sérstaklega þar sem heyra má reynslu fólks af leigumarkaði. Rannsóknin er einnig áhugavert framlag til þeirra margþættu áhrifa sem íslenska efnahagshrunið árið 2008 hafði á íslenskt samfélag en einnig áhrif uppbyggingarinnar sem varð í kjölfarið, t.d. vegna aukins ferðamannastraums.“