Lífslíkur Íslendinga hafa aukist jafnt og þétt undanfarna áratugi samfara framförum í samfélaginu. Tölur Hagstofunnar sýna að bæði meðalkarlinn og meðalkonan á Íslandi geta vænst þess að ná yfir 80 ára aldri, sem er með því mesta sem gerist í Evrópu. Þá hefur barn sem fæðist í dag meiri líkur en minni á að verða 100 ára. Þessi hækkandi meðalaldur þjóðarinnar hefur beint sjónum vísindamanna að ýmsum þáttum sem snerta fjölgun aldraðra í samfélaginu, þar á meðal áhrifum fjölgunarinnar á félags- og heilbrigðiskerfi og leiðum til þess að tryggja að sem flestir geti elst með reisn.
„Að eldast með reisn þýðir að eiga gott og gefandi líf alla ævi, helst í sjálfstæðri búsetu,“ segir Ólöf Guðný Geirsdóttir, dósent í næringarfræði, sem vinnur ásamt samstarfsfólki sínu að því að greina hvað þættir í lífsstíl okkar geta tryggt farsæla öldrun eins og það er kallað. „Hérna skiptir máli að eiga gott líf helst alla ævi en ekki endilega sem lengsta ævi. Því er það svo mikilvægt að halda góðri heilsu, bæði líkamlegri, andlegri og félagslegri, sem er talin vera undirstaða þess til að geta notið lífsins.“
Ólöf hefur helgað sinn vísindaferil rannsóknum á heilsu aldraðra og hvernig er hægt að koma í veg fyrir færnitap þessa hóps með lífstílsþáttum eins og mat, næringu og hreyfingu. Hún bendir á að lítið hafi verið rannsakað hvort forsendur farsællar öldrunar skýrist að hluta til af vexti og þroska ásamt heilsu og lífsstíl snemma á lífsleiðinni. Úr því vilji rannsóknarhópurinn sem kemur að verkefninu bæta. „Með því að skoða langtímaspágildi fyrir þær heilsufarslegu breytur, s.s. líkamlega og andlega færni, sem hægt er að hafa áhrif á með lífsstílsbreytingum er mögulega hægt að hafa áhrif á þætti sem gætu skipt máli varðandi farsæla öldrun,“ bætir Ólöf við.
Gagnagrunnur byggður á áratugarannsóknum á heilsu Íslendinga
Í rannsókninni er að sögn Ólafar ætlunin að byggja upp gagnagrunn sem inniheldur fæðingarskrá Íslendinga og gögn úr hinn umfangsmiklu Reykjarvíkurrannsókn Hjartaverndar, sem hófst fyrir meira en 50 árum og hafði m.a. það markmið að kanna áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma hjá stórum hópi Íslendinga. Einnig verða gögn úr Öldrunarrannsóknum Hjartaverndar, sem nefnast AGES 1 og AGES 2, nýtt en þar hefur einstaklingum úr Reykjarvíkurrannsókninni verið fylgt frekar eftir. „Að lokum verða upplýsingar um RAI-vistunarmat sömu einstaklinga sett in í gagnagrunninn,“ segir Ólöf og vísar þar til alþjóðlegs og yfirgripsmikils tækis til að leggja mat á þarfir og heilsu fólks á hjúkrunarheimilum.
Þarna er því verið að skoða lífsstílsþætti hjá afar stórum hópi Íslendinga frá fæðingu nánast til lífsloka. „Þannig mun verkefnið veita upplýsingar um þá þætti sem hægt er að hafa áhrif á og geta spáð fyrir um farsæla öldrun. Sérstaklega verða skoðaðir lífsstílsþættir eins og líkamssamsetning, hreyfing og mataræði og hvaða áhrif þessar breytur hafa á vitræna getu, hreyfifærni, sjúkdóma og sem forvörn fyrir vistun á hjúkrunarheimili,“ segir Ólöf enn fremur og bætir við að von sé á fyrstu niðurstöðum á vordögum.
„Ef við getum sýnt fram á hvaða þættir í lífsstíl fólks hafa jákvæð áhrif á farsæla öldrun og hverjir hafa neikvæð áhrif getum við sett fram ráðleggingar sem gætu komið í veg fyrir ótímabært andlegt og eða líkamlegt færnitap fólks og um leið jafnvel sett tón fyrir forvarnastefnu stjórnvalda í þessum efnum. Þetta myndi ekki aðeins auka lífsgæði hvers og eins einstaklings heldur má leiða líkur að því að kostnaður við heilbrigðis- og/eða öldrunarþjónustu myndi ekki aukast með auknum fjölda aldraða í samfélaginu heldur jafnvel minnka til framtíðar,“ segir Ólöf um ávinning rannsóknarinnar.
Vilborg Kolbrún Vilmundardóttir, klínískur næringarfræðingur og doktorsnemi Ólafar, vinnur að verkefninu í doktorsrannsókn sinni en þverfræðlegur hópur vísindamanna kemur einnig að því auk þeirra Ólafar. Þetta eru næringarfræðiprófessorarnir Alfons Ramel og Þórhallur Ingi Halldórsson, Vilmundur Guðnaon, forstöðulæknir Hjartaverndar og prófessor við Læknadeild, Pálmi V. Jónsson, yfirlæknir öldrunarækninga við Landspítala og prófessor við Læknadeild, og Milan Chang Guðjónsson, rannsóknarmaður á Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítalans í öldrunarfræðum.
Ávinningurinn bæði einstaklinga og samfélags
Ætla má að flest telji að lífsgæði sín felist ekki síst í því að verja ævinni í sem bestu líkamlegu og andlegu ástandi í sem lengstan tíma og þá helst heima í faðmi ættingja og vina. Ávinningur af slíkum lífsgæðum er ekki bara einstaklingsins því samfélagið getur einnig sparað mikla fjármuni. Ólöf bendir á að kostnaður vegna hjúkrunarheimila fara vaxandi hér á landi og er nú áætlaður yfir 20 milljarða á ári. Því er til mikis að vinna að finna þá áhættuþætti sem tengjast heilsu fólks og ekki síður þá þætti sem hægt er að hafa áhrif á og styðja við farsæla öldrun „frá vöggu til grafar“ eins og hún orðar það.
„Ef við getum sýnt fram á hvaða þættir í lífsstíl fólks hafa jákvæð áhrif á farsæla öldrun og hverjir hafa neikvæð áhrif getum við sett fram ráðleggingar sem gætu komið í veg fyrir ótímabært andlegt og eða líkamlegt færnitap fólks og um leið jafnvel sett tón fyrir forvarnastefnu stjórnvalda í þessum efnum. Þetta myndi ekki aðeins auka lífsgæði hvers og eins einstaklings heldur má leiða líkur að því að kostnaður við heilbrigðis- og/eða öldrunarþjónustu myndi ekki aukast með auknum fjölda aldraða í samfélaginu heldur jafnvel minnka til framtíðar,“ segir Ólöf um ávinning rannsóknarinnar.