Íslendingar eiga því láni að fagna að hafa skrifað um sjálfa sig nærri þeim tíma þegar land var numið. Ef horft er á varðveislu þessa efnis er það út af fyrir sig undravert eitt og sér. Þessar bókmenntir eru ekki einungis perlur út frá listrænu gildi þeirra heldur varpa þær líka ljósi á fólkið sem reit þetta menningarefni og dregur líka hulu frá menningarlegum uppruna heillar þjóðar.
Torfi H. Tulinius er prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Háskóla Íslands og stýrir alþjóðlegu meistaranámi í þeirri grein. Hann er þess vegna í hópi þeirra sem verja drjúgum hluta ævinnar í að rannsaka fornbókmenntirnar okkar. Það er mikilvægt því „rannsóknir í hugvísindum fást við afurðir mannsandans, dýpka skilning okkar á þeim og opna augu okkar fyrir endalausri margbreytni þeirra,“ segir Torfi sjálfur.
Hann fullyrðir að fornsögurnar hafi um langt skeið mótað skilning okkar á því hverjir Íslendingar eru. „Tímarnir breytast og íslenskt samfélag hefur verið að ganga í gegnum meiri breytingar á síðustu hundrað árum en lengi áður. Þörf er að hugsa upp á nýtt hver við erum. Það er meðal annars hægt með því að spyrja nýrra spurninga um bókmenntaarfinn. Við þetta bætist að þessi tiltekni arfur er einstakur á heimsvísu, hefur gildi sem nær langt út fyrir landsteinana. Því leiðir aukin skilningur á bókmenntahefð Íslendinga líka til bættrar þekkingar á heimsbókmenntunum.“
Leitar að áföllum
Torfi skoðar núna frásagnir af landnámsmönnum í Íslendingasögum og Landnámabók í leit að áföllum af ýmsu tagi sem tengjast landnáminu. Þarna leitar Torfi ekki endilega að neinu skemmtiefni því fókusinn er m.a. á frelsissviptingu, dauðsföll skyldmenna í heimalandi, missi á auði eða þjóðfélagsstöðu.
„Frásagnirnar eru skráðar meira en tvö hundruð árum eftir atburðina sjálfa en gefa þó hugmynd um félagslegar kringumstæður landnáms á Íslandi á 9. og 10. öld,“ segir Torfi. „Þó eru þær enn betri heimild um það hvernig höfundar og viðtakendur sagnanna á 12., 13. og 14. öld sáu fortíðina í ljósi eigin samtíðar.“
Áfallasamfélögin sem fæddu af sér bókmenntir
Torfi segir að mjög margt í fornsögunum bendi til þess að samfélagið sem ól þær af sér hafi glímt við ýmiss konar áföll. Fortíðarmyndin sem dregin sé upp mótist um margt af missi á heimalandi, þjóðfélagsstöðu og jafnvel góðu lífi í frjósömu landi. „Gott dæmi er vísa Önundar tréfótar, landnámsmanns á Ströndum, sem finna má í Grettis sögu, en hún endar svona: „Hefi ek lönd ok fjöld frænda flýð, en hitt er nýjast. Kröpp eru kaup ef hreppi ek Kaldbak, en læt akra.“
Hér bætist við enn eitt undrið, við skiljum þessa vísu næsta auðveldlega í nútímanum.„Í frásögnum Landnámu og Íslendingasagna, er oft eins og þjóðfélagsstaða viðkomandi ákvarðist af því hvar og hve mikið landnámið var eða hvort hann eða forfeður hans hafi numið lönd eða þurft að þiggja af landnámsmönnum sem komu fyrr. Þjóðfélagsstaðan verður því stundum lægri en sjálfsmynd viðkomandi segir til um. Væntanlega eru þessar frásagnir úr fortíð sagðar vegna þess að þær endurspegla þjóðfélagslegan veruleika ritunartímans á 13. og 14. öld, ekki síst ofsafengin átök Sturlungaaldar.“
„Tímarnir breytast og íslenskt samfélag hefur verið að ganga í gegnum meiri breytingar á síðustu hundrað árum en lengi áður. Þörf er að hugsa upp á nýtt hver við erum. Það er meðal annars hægt með því að spyrja nýrra spurninga um bókmenntaarfinn. Við þetta bætist að þessi tiltekni arfur er einstakur á heimsvísu, hefur gildi sem nær langt út fyrir landsteinana. Því leiðir aukin skilningur á bókmenntahefð Íslendinga líka til bættrar þekkingar á heimsbókmenntunum,“ segir Torfi.
Beitir mörgum fræðigreinum saman
Torfi er ólatur maður þegar kemur að rannsóknum en þar hefur hann fyrst og síðast fengist við íslenskar miðaldabókmenntir, einkum fornaldarsögur Norðurlanda og Íslendingasögur. Við túlkun hefur Torfi verið þverfræðilegur. Hann hefur stuðst við frásagnarfræði, félagsfræði, sagnfræði, táknfræði, viðtökufræði og jafnvel sálfræði til að dýpka skilning á hlutverki sagnanna í samfélaginu sem fæddi þær.
„Já, þetta er rétt,“ segir Torfi, „þverfræðilegar rannsóknir á menningarafurðum, einkum bókmenntum, þar sem leitast er við að tvinna saman félagsfræði, sálfræði og sagnfræði til að auðga og dýpka bókmenntafræði, þetta er mitt meginviðfangsefni. Frá því að ég byrjaði að fást við miðaldabókmenntir hef ég haft áhuga á því hvernig þær tala til ætlaðra viðtakenda þeirra í samtímanum. Ég hef einkum haft áhuga á því hvernig frásagnir af ýmsu tagi spegla andstæð gildi og spennu milli þjóðfélagshópa. Rannsóknir mínar á fornaldarsögum Norðurlanda í upphafi ferils míns sýna þetta vel. Síðan hef ég kafað dýpra ofan í frásagnarhætti og merkingarmyndun í fornsögunum og komist að þeirri niðurstöðu að sálrænir og félagslegir þættir eru samofnir í sögunum. Í því sambandi fékk ég áhuga á þeim miklu áföllum sem verða í íslensku samfélagi, einkum á 13. öld, og hvernig fortíðarmynd Íslendingasagna og Landnámabókar kunna að túlka þessi áföll með ýmsum hætti.“
Afkastamikill fræðimaður
Torfi hefur verið afkastamikill í ritun greina og bóka um fræðaefnin. Á þessu ári hafa komið út eftir hann þrír bókarkaflar í ritrýndum fræðiritum, sem allir tengjast þessu viðfangsefni beint eða óbeint. „Sá fyrsti fjallar um sjálfsveru 13. aldar Íslendinga og hvernig hún markast af spennu milli þjóðfélagslegra gilda og trúarlegra og hvernig þessi spenna mótar frásagnir, bæði samtíðarsögur og Íslendingasögur. Í næsta er Eyrbyggja saga tekin til skoðunar og lesin úr henni viðleitni goðaætta til að endurskilgreina stöðu sína í þjóðfélagi sem er að breytast. Sá þriðji fjallar um ólíkar greinar frásagnarbókmennta á miðöldum og hvernig hver um sig er sprottin úr veruleika Íslendinga á 12. og 13. öld. Innan fárra vikna mun ég ljúka við að skrifa grein, ásamt tveimur samstarfskonum mínum, um kvíða vegna þjóðfélagsstöðu sem lesa má úr fornbókmenntunum.“
Vísindamenn eins og Torfi huga oft að gildi rannsókna til að hvetja sig áfram á fræðabrautinni. „Rannsóknir hafa fjölþætt gildi,“ segir hann. „Aukin þekking getur leitt til framfara á öllum sviðum: tækni, vísindum, samfélagi. Sú þjálfun og menntun sem þarf til að sinna rannsóknum eflir getuna til að hugsa skýrt og gagnrýnið um veruleikann, greina kjarna frá hismi og – þegar tilefni er til – að sjá í gegnum blekkingar.“
Það síðasttalda er afar mikilvægt á tímum þegar falsfréttir spretta upp með hraða ljóssins nánast um víða veröld.