„Rannsóknin snýr að samfélagsmiðlanotkun barna og unglinga. Kveikjan að henni er auðvitað þessi altumlykjandi umræða um skaðsemi þessara miðla, kannski sérstaklega þegar kemur að ungmennum. Sem er auðvitað magnað þar sem yfirlýst markmið samfélagsmiðla er að auka tækifæri fólks til að tengjast og eiga samskipti.“
Þetta segir Ársæll Már Arnarsson, prófessor á Menntasvísindasviði HÍ, og vísara í hluta rannsóknarinnar „Health Behaviour in School-aged Children (HBSC)“, en Ársæll hefur vakið mikla athygli fyrir framgöngu sína í fjölmiðlum síðustu misseri. Þar hefur hann túlkað margt af því sem telst til megináskorana í íslensku samfélagi nútímans, ekki síst fyrir börn og ungmenni.
Ársæll hefur tekist á við jafn ólíka þætti í rannsóknum sínum og húmor og grimmd, en reyndar getur þetta tvennt stundum fléttast saman eins og hann hefur raunar bent á. Þegar Ársæll beinir sjónum að börnum og unglingum hefur hann augun á fjölbreyttum þáttum, mörgum afar hversdagslegum, sem hafa áhrif á líðan þeirra og heilsu. Farsímar og samfélagsmiðlar eru partur af því.
„Flest okkar notum samfélagmiðla daglega af fúsum og frjálsum vilja. Samt erum við í þeirri stöðu núna að vilja takmarka notkun þeirra vegna þess að við teljum þá auka einmanaleika og minnka félagsfærni. Ég dýrka að reyna að ráða í svona mótsagnir,“ segir Ársæll og þar hefur hann reynsluna af því að glíma við grimmdina og húmorinn.
Notkun samfélagsmiðla getur orðið stjórnlaus
Ársæll segir að á undanförnum árum hafi komið fram vísbendingar um að í einhverjum tilfellum geti notkun einstaklinga á samfélagsmiðlum orðið stjórnlaus og jafnvel þráhyggjukennd.
Hann segir að þessar áhyggjur hafi einkum og sér í lagi beinst að börnum og unglingum. Hann bendir á fjölþjóðlega rannsókn máli sínu til stuðnings sem nefnist „Health Behaviour in School-aged Children (HBSC)“. Rannsóknin er studd af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og í henni er heilsa og aðstæður 11 til 15 ára barna í 45 löndum skoðuð fjórða hvert ár. Í síðasta rannsóknarátaki, sem gert var veturinn 2017 til 2018, tóku nærri 300 þúsund unglingar þátt. Þeir svöruðu m.a. spurningum um ákefð og vandamál sem tengdust samfélagsmiðlanotkun sinni.
„Niðurstöðurnar benda til þess að notkun samfélagsmiðla getur verið jákvæð fyrir unglinga og hjálpað þeim að mynda og viðhalda tengslum við félaga. Í einhverjum tilfellum geta unglingar hins vegar misst stjórn á þessari notkun og þá veldur hún skaða. Það má hins vegar velta því fyrir sér hvort þessi fjársterku fyrirtæki sem reka miðlana gætu ekki fundið lausnir á þessum vanda eða hvort skaðlega notkunin sé of mikilvæg fyrir afkomu þeirra.“ MYND/Adem Ay/Sótt á unsplash.com
Skaðleg notkun hefur neikvæð áhrif á lífsánægju
„Niðurstöðurnar sýna hvernig unglingar nota samfélagsmiðla og mikilvægi þeirra í daglegu lífi,“ segir Ársæll. „Þegar horft er til unglinga sem nota samfélagsmiðla mikið er hægt að skipta þeim í tvo hópa: Annars vegar er um að ræða ákafa notkun, sem svarar til 35% þátttakenda, og hins vegar skaðlega notkun, sem svarar til 7% þátttakenda. Þessi tvískipting er mikilvæg vegna þess að skaðleg notkun líkist annarri fíknihegðun og hefur neikvæða fylgni við ýmsar breytur sem mæla vellíðan. Á meðan hefur áköf notkun jákvæða fylgni við sömu breytur. Í langflestum löndum voru jákvæð tengsl milli ákafrar notkunar samfélagsmiðla við upplifun unglinga af stuðningi vina sinna.“
Ársæll segir að skaðleg notkun hafi hins vegar haft neikvæð áhrif á lífsánægju unglinga í flestum löndum. „Niðurstöðurnar benda til þess að notkun samfélagsmiðla getur verið jákvæð fyrir unglinga og hjálpað þeim að mynda og viðhalda tengslum við félaga. Í einhverjum tilfellum geta unglingar hins vegar misst stjórn á þessari notkun og þá veldur hún skaða. Það má hins vegar velta því fyrir sér hvort þessi fjársterku fyrirtæki sem reka miðlana gætu ekki fundið lausnir á þessum vanda eða hvort skaðlega notkunin sé of mikilvæg fyrir afkomu þeirra.“