Skip to main content

Hvernig er best hægt að búa fólk undir berghlaup úr Svínafellsheiði?

Hvernig er best hægt að búa fólk undir berghlaup úr Svínafellsheiði? - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Loftslagsbreytingar hafa í för með sér aukna hættu í umhverfi okkar af áður óþekktri stærð og umfangi, þar á meðal á ýmsum nýjum stöðum. Þetta kallar á skýra og virka áhættustjórnun á hættulegum svæðum, bæði hér á Íslandi og annars staðar í heiminum,“ segir Stephanie Alice Matti, doktorsnemi í mannfræði, sem rýnir í hættuna sem getur skapast ef risaberghlaup verður úr Svínafellsheiði í Öræfum á Suðausturlandi.

Doktorsrannsóknin hverfist um svokallaða áhættustjórnun en hún gengur út að meta og undirbúa viðbrögð við ýmiss konar ógnum og tækifærum, hvort sem er innan fyrirtækja, svæða, landa eða á alþjóðavettvangi. Stephanie leggur í rannsókn sinni sérstaka áherslu á það hvernig best sé að búa fólk undir fordæmalausa hættu. „Stærstur hluti rannsóknarinnar hefur hingað til beinst að afmörkuðu svæði en þar hef ég rannsakað áhættustjórnun í tengslum við stóra bergsprungu sem er í Svínafellsheiði,“ segir Stephanie. 

Sprungan sem um ræðir hefur verið töluvert í fréttum en hún er í brattri hlíð á heiðinni sem er ofan við Svínafellsjökul. Heimamenn urðu fyrst varir við sprunguna árið 2014 en mælingar jarðvísindamanna Háskóla Íslands og Veðurstofunnar sýna að sprungan er að gliðna auk þess sem fleiri sprungur hafa fundist á svæðinu. „Vísindamenn telja hættu á því að á bilinu 60 til 100 milljónir rúmmetra af jarðvegi geti hlaupið fram á jökulinn en slíkt berghlaup getur brotið jökulísinn og valdið hlaupi í jökullóninu fyrir neðan og þannig skapað hættu fyrir bæði fólk og innviði þar fyrir neðan,“ segir Stephanie.

sprunga

Sprungan sem um ræðir hefur verið töluvert í fréttum en hún er í brattri hlíð á heiðinni sem er ofan við Svínafellsjökul.

Svínafellsjökull og nágrenni hans hefur verið afar vinsæll ferðamannastaður og var m.a. nýttur í upptökum á hinni geysivinsælu þáttaröð Game of Thrones. „Samkvæmt spá vísindamanna  yrði berghlaup frá Svínafellsheiði að fordæmalausri stærð og jafnframt er þetta í fyrsta sinn hér á landi sem hætta af þessari tegund ógnar bæði fólki og innviðum.“

Sem mannfræðingur horfir Stephanie á mannlega þáttinn í þessari hættu. „Í því felst m.a. að kanna hvaða þýðingu þekking heimamanna hefur í áhættumatinu, hvaða áhrif ákvarðanir tengdar áhættustjórnun hafa á líf þeirra og velferð og hvernig miðla má bæði hættunni og viðbragðsáætlunum sem best,“ segir Stephanie enn fremur um verkefni sitt. „Ég hef líka skoðað áhættu af völdum loftslagsbreytinga hér á landi og á alþjóðlegum grundvelli en spár um loftslagsbreytingar munu gegna æ meira hlutverki við hamfarastjórnun. Ég rýni líka í hvernig þessar spár eru nýttar núna, hvar skóinn kreppir og hvernig bæta má þessi kerfi til framtíðar.“

Hamfarir í Pakistan kveiktu áhugann á viðfangsefninu

Áður en Stephanie hóf doktorsnám við HÍ starfaði hún við mannúðaraðstoð í sex ár, m.a. fyrir Sameinuðu þjóðirnar og frjáls félagasamtök í Pakistan, Afganistan, Mjanmar og á Ítalíu. Það var á fyrstnefnda staðnum sem áhugi hennar á loftslagstengdum hamförum kviknaði. „Þegar ég starfaði fyrir Samræmingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) í Pakistan urðu nokkur mannskæð skyndiflóð sem rekja mátti til hlaupa í jökullónum í Himalaya-fjöllunum í norðurhluta landsins. Vegna þess hve brátt þau bar að varð manntjónið mikið -  yfir 150 manns létust -  og miklar skemmdir urðu á innviðum,“ segir Stephanie og bætir við að hvorki stjórnvöld né mannúðarsamtök hafi verið vel undir slíka hættu búin. „Það eru yfir 5.200 jöklar í Norður-Pakistan og því kemur ekki á óvart að jökulhlaup skapi hættu fyrir nærliggjandi samfélög. Þessi hætta mun bara aukast samfara frekari hlýnun.”

Upprunalegar áætlanir Stephanie gerðu því ráð fyrir að rannsaka áhættustjórnun vegna jökulhlaupa í Pakistan en það breyttist þegar hún heimsótti Ísland í rannsóknartilgangi. „Ég ákvað að koma hingað til að kynna mér hina miklu reynslu sem Íslendingar hafa af því að bregðast við jökulhlaupum og annarri jökultengdri hættu. Ég ætlaði sem sagt að fá trausta þekkingu á þeim öflum sem eru að verki og viðbrögðum við þeim en í fyrsta viðtalinu sem ég tók sagði viðmælandi minn mér frá sprungunni í Svínafellsheiði. Þarna væri á ferðinni hætta á hamförum sem Íslendingar hefðu ekki fengist við áður. Hér væri um að ræða samspil risastórs berghlaups, skriðjökuls og jökullóns og því væri afar flókið og erfitt að vinna að áhættustjórnun vegna mögulegra hamfara.“ 

rannsoknahopur

Stephanie ásamt samstarfsfólki í rannsóknaleiðangri við Svínafellsheiði.

Og þá var ekki aftur snúið. „Því fleiri heimamenn sem ég ræddi við í Öræfum, þeim mun áhugasamari varð ég um viðfangsefnið. Það vantar svo mikla þekkingu á því hvernig við tökumst á við áhættu í fjalla- og jöklaumhverfi af þessu tagi. Af þessum sökum hefur stærstur hluti rannsóknar minnar hingað til snúið að Íslandi,” segir Stephanie en bætir við að hún vonist til að niðurstöður rannsókna hennar nýtist í áhættustjórnun tengdum jöklahamförum bæði hér á landi og í fjalllendi um allan heim.

„Ég ætlaði sem sagt að fá trausta þekkingu á þeim öflum sem eru að verki og viðbrögðum við þeim en í fyrsta viðtalinu sem ég tók sagði viðmælandi minn mér frá sprungunni í Svínafellsheiði. Þarna væri á ferðinni hætta á hamförum sem Íslendingar hefðu ekki fengist við áður. Hér væri um að ræða samspil risastórs berghlaups, skriðjökuls og jökullóns og því væri afar flókið og erfitt að vinna að áhættustjórnun vegna mögulegra hamfara,“ segir Stephanie. 

Stephanie Matti

Í smalamennsku á Svínafellsheiði í rannsóknartilgangi

Í rannsókninni styðst Stephanie við blandaðar rannsóknaraðferðir, þátttökuathuganir og ýmiss konar viðtöl þar sem byggt er á reynslu bæði heimamanna og innlendra og erlendra sérfræðinga. Þannig má segja að samfélagið í Öræfum taki þátt í að móta þá þekkingu sem til verður um hættuna sem býr í Svínafellsheiði og möguleg viðbrögð við henni. „Ég hef tekið yfir 50 viðtöl í doktorsrannsókninni, þar á meðal við heimamenn, erlenda starfsmenn í ferðaþjónustu, vísindamenn, áhættustjórnendur og ferðamenn,” segir hún og bætir við að flest hafi farið fram á ensku. „Vonandi get ég einn daginn tekið viðtöl á íslensku, en ég er ekki alveg komin með það góð tök á tungumálinu,“ segir hún og brosir. 

Áhugi Stephanie á jöklum og fjalllendi er þó ekki aðeins fræðilegur því hún segist vera mikil fjallamanneskja og njóti þess að ganga á jökla bæði hér á landi og í Himalajafjöllunum. „Ég stundaði m.a. rannsóknirnar í Öræfum þegar ég starfaði sem jöklaleiðsögumaður árið 2019. Sú reynsla gaf mér miklu betri þekkingu á svæðinu og ástandi þess,” segir Stephanie sem tók skrefið enn lengra og gekk í Hjálparsveit skáta í Kópavogi að undangenginni ítarlegri þjálfun.

„Ég hef sömuleiðis farið í 12 vettvangsferðir tengdar rannsókninni, þar á meðal í vöktunarferðir jarðvísindamanna, á upplýsingafundi fyrir heimamenn og einnig til að smala fé á Svínafellsheiði,” segir hún. „Með því að draga saman þekkingu úr þessum ólíku áttum hef ég öðlast mun betri skilning á ástandinu.”

saudfe

„Ég hef sömuleiðis farið í 12 vettvangsferðir tengdar rannsókninni, þar á meðal í vöktunarferðir jarðvísindamanna, á upplýsingafundi fyrir heimamenn og einnig til að smala fé á Svínafellsheiði,” segir Stephanie.

Óhætt er að segja að rannsóknarviðfangsefnið sé þverfræðilegt og því kemur ekki á óvart að leiðbeinendur Stephanie koma úr ólíkum áttum. „Leiðbeinandi minn er Helga Ögmundardóttir, sem er lektor í umhverfismannfræði. Hún hjálpaði mér að móta rannsóknina innan marka mannfræðinnar en um leið ögra þeim mörkum með tilliti til loftslagsmála,” segir Stephanie. Auk Helgu eru í doktorsnefndinni þær Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor í jöklafræði og einn af höfundum nýjustu loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna, og Uta Reichardt, nýdoktor við Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun við Háskóla Íslands, sem hefur sérhæft sig í hamfarastjórnun með áherslu á hlut lista og hönnunar í viðbúnaði og viðbrögðum

Þekking heimamanna mikilvæg í áhættustjórnun gagnvart nýjum hættum

Aðspurð hvað rannsókn hennar hafi leitt í ljós hingað til nefnir Stephanie þrjá þætti. „Samkvæmt fræðunum er þekking heimamanna mikilvægur þáttur í aðlögun þeirra að óvissu. Hins vegar er óljóst hvaða hlutverki þekkingin gegnir þegar um er að ræða hamfarir sem ekki hafa átt sér stað áður. Niðurstöður benda hins vegar til að þrátt fyrir að skorta reynslu af viðkomandi hamförum gegni heimamenn áfram mikilvægu hlutverki í leitinni að hættum og áhættustjórnun á svæðinu. Íbúar í Öræfum hafa öðlast mikla þekkingu á svæðinu í gegnum smalamennsku sem segja má að sé nokkurs konar árleg óformleg landvöktun. Það kom t.d. ekki á óvart að það voru gangnamenn á svæðinu sem fyrstir rákust á sprunguna á Svínafellsheiði og vöktu athygli vísindamanna á henni,“ bendir Stephanie á.  

Í öðru lagi, segir Stephanie, benda niðurstöður hennar og samstarfsfélaga til þess að bann við uppbyggingu á tilteknum svæðum sem talin eru hættusvæði í Öræfum hafi bæði haft bein og óbein áhrif á sálfélagslega líðan heimamanna. „Það olli fólki gremju að geta ekki breytt húsakynnum sínum og fyrirtækjum vegna banns við uppbyggingu. Því telja sumir viðmælenda að framtíðarplön þeirra séu í uppnámi og íhuga jafnvel að flytja. Bannið varð líka til þess að umræða um hættuna á svæðinu varð meiri og það skapar óróa í daglegu lífi fólks á svæðinu.“

Stephanie bendir enn fremur á að hættan hafi líka mikil áhrif á ferðaþjónustu en Svínafellsjökull var um tíma á meðal vinsælustu áfangastaða landsins í jöklaferðamennsku. „Ferðamenn treysta leiðsögumönnum fyrir öryggi sínu. Þess vegna geta þær upplýsingar sem leiðsögumenn koma á framfæri haft mikið að segja um viðbrögð ferðmanna. Flestir leiðsögumenn í Öræfum eru erlendir en hins vegar byggist áhættustjórnunarkerfið á svæðinu á viðbrögðum heimamanna. Þetta hefur áhrif á það hvernig möguleg hætta var upphaflega metin og hvernig áhættu og viðbragðsáætlunum er miðlað til fólks á hættusvæðum.“

ferdamenn

Svínafellsjökull hefur verið meðal vinsælustu áfangastaða jöklaferðamanna á undanförnum árum.

Rannsóknirnar fela í sér skýrar ráðleggingar

Líkt og rannsóknir vísindamanna Háskólans hafa sýnt hopa jöklar á Íslandi hratt vegna hlýnunar og bent hefur verið á að það skapi aukna hættu á því að jarðvegur og hlíðar sem eftir standa fari á skrið. Það verður því sífellt mikilvægara að kortleggja áhættu og viðbrögð á slíkum svæðum að sögn Stephanie. 

„Rannsóknir okkar benda til að jákvæð skref hafi þegar verið tekin í þessu tilliti en jafnframt að á ýmsum sviðum má bæta áhættustjórnun. Í niðurstöðum okkar erum við með skýrar ráðleggingar fyrir stefnumótendur og stjórnvöld, t.d. að virkja betur erlenda íbúa á svæðinu í miðlun áhættunnar, að setja saman skriflegar áætlanir og upplýsingar sem auðvelt er að deila milli fólks á svæðinu í stað þess að treysta á að þær berist munnlega frá manni til manns og loks að taka mið af andlegri velferð fólks á svæðinu þegar ákvarðanir eru teknar um landnotkun,“ segir Stephanie um þýðingu niðurstaðnanna. 

Hún bendir enn fremur á að skort hafi á rannsóknir á þessum sviðum og því felist talsvert nýnæmi í rannsóknunum út frá sjónarhóli vísindanna. „Flestar rannsóknir á þekkingu heimamanna á fordæmalausri hættu hafa verið gerðar í þróunarlöndum en nú bætist við rannsókn á því hvernig slík þekking er notuð í kortlagningu hættu og viðbrögðum við henni á Íslandi. Rannsóknirnar leggja því ýmislegt nýtt til áhættustjórnunarfræða.“