„COVID-19 faraldurinn er áhugaverður frá mörgum sjónarhornum og ekki síst kynjajafnrétti. Faraldurinn hefur raskað mjög atvinnulífi og heimilislífi með lokun vinnustaða, heimavinnu og fleiri þáttum. Áhugavert er í því samhengi að skoða hvort einhverjar breytingar hafi orðið á stöðu og samskiptum kynjanna í tengslum við foreldrahlutverkið,“ segir Guðný Björk Eydal, prófessor við Félagsráðgjafardeild, um rannsókn sem hún vinnur að ásamt innlendu og erlendu samstarfsfólki.
Rannsókninni var ýtt úr vör að frumkvæði fræðimanna við Utrecht-háskóla í Hollandi og ber hún heitið “Gender (In)equality in Times of COVID-19”, en fræðimenn frá ólíkum löndum nýta sama spurningalista til að eiga kost á að bera saman niðurstöður milli landa síðar.
„Í rannsókninni ætlum við að reyna að komast að því hvort og þá hvernig viðbrögð stjórnvalda og vinnumarkaðar við COVID-19-faraldrinum hafi haft áhrif á stöðu feðra og mæðra innan og utan heimila. Spurt er hvaða áhrif faraldurinn hefur haft á aðstæður í vinnu og heima frá því að hann hófst og þar til samkomubanni var að hluta til aflétt 4. maí 2020 hér á landi,“ segir Ingólfur V. Gíslason, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, sem einnig vinnur að verkefninu hér á landi. Tómas Bjarnason, sviðsstjóri mannauðsrannsókna og ráðgjafar hjá Gallup, vinnur einnig með þeim Guðnýju og Ingólfi að verkefninu.
Rannsóknin byggist á spurningakönnun sem fræðafólk við háskólana í Utrecht, Amsterdam og Radboud í Hollandi unnu og hefur verið þýdd yfir á íslensku. Gallup lagði könnunina fyrir 1337 manns hér á landi í maí og júní í fyrra en þátttakendur koma úr viðhorfahópi fyrirtækisins og eru á aldrinum 21-69 ára. Skilyrði var að eitt barn yngri en 18 ára byggi á heimili svarenda. „Spurt var um atvinnuþáttöku, umönnun og lífsgæði svaranda og maka hans fyrir faraldur og eftir að hann hófst. Spurningarnar sneru m.a. að samkomulagi og ágreiningi í parasamböndum um skiptingu heimilisstarfa og launavinnu og umhyggju barna,“ útskýrir Guðný.
Prófessorarnir Ingólfur V. Gíslason og Guðný Björk Eydal rannsaka ásamt innlendum og erlendum samstarfsaðilum hvort og þá hvernig viðbrögð stjórnvalda og vinnumarkaðar við COVID-19-faraldrinum hafi haft áhrif á stöðu feðra og mæðra innan og utan heimila. MYND/Kristinn Ingvarsson
Fyrstu niðurstöður liggja fyrir og að sögn Ingólfs staðfesta þær að mæður sinna almennt í mun meira mæli umönnun og heimilisstörfum en feður. „Niðurstöðurnar, sem ná til fyrstu bylgju COVID-19, sýna enn fremur að mæður unnu frekar heima og frekar á kvöldin og um helgar og þær upplifðu í meira mæli en karlar aukið vinnuálag. Feður hafa þó aukið þátttöku í umönnun barna í faraldrinum og lítið eitt í heimilisstörfum,“ segir Ingólfur enn fremur. Hann bætir við að mæður upplifi í örlítið meiri mæli en feður aukningu á ágreiningi í sambandinu og ójafnvægi í vinnu og einkalífi.
Guðný segir enn fremur að þegar horft sé til þess hversu framarlega Ísland telst standa í heiminum þegar kemur að jafnrétti kynja og möguleikum beggja kynja til fullrar þátttöku í atvinnu- og fjölskyldulífi verði afar forvitnilegt að skoða samanburð milli landa í þessu tilliti.
Ingólfur bætir við að niðurstöður rannsóknarinnar skipti einnig máli fyrir samfélagið og jafnréttismál í löndum heims óháð faraldrinum. „Þessi rannsókn eykur skilning á stöðu karla og kvenna gagnvart vinnumarkaði og fjölskyldulífi og getur þannig stuðlað að markvissum aðgerðum í átt að auknu kynjajafnrétti í framtíðinni, t.d. þegar næsta pest þjakar heimsbyggðina. Til að mynda verður áhugavert að sjá í þessum alþjóðlega samanburði hvaða áhrif það hefur að hafa leik- og grunnskóla opna og að grípa frekar til samkomutakmarkana en útgöngubanns,“ segir hann að endingu.