Miklar breytingar eru að verða á hreyfingum og farmynstri dýra á norðurslóðum í takt við loftslagsbreytingar. Þetta kemur fram í grein sem birtist í vísindatímaritinu Science í vikunni sem leið. Á meðal höfunda er Jose Alves, gestavísindamaður við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Laugarvatni, en þar hafa verið stundaðar mjög áhugaverðar fuglarannsóknir síðustu ár. Í greininni er kynnt viðamikið samstarfsnet um rannsóknir á ferðalögum dýra á norðurslóðum en íslenskir tjaldar eru meðal tegundanna í gagnasafninu í greininni.
Jose Alves hefur stundað rannsóknir ásamt Verónicu Méndez Aragón á tjaldi en hún starfaði sem nýdoktor við rannsóknasetrið á Laugarvatni. „Greinin í Science sýnir hvernig mynstur á fari dýra á norðurslóðum er að breytast í tengslum við loftsbreytingar. Breytingar eru örari á norðurslóðum en annars staðar vegna þess að hlýnunin er hlutfallslega meiri þar en annars staðar á hnettinum,“ segir Jose.
Þegar kemur að gögnum um tjaldinn segir Jose að svo virðist sem að hærra hlutfall tegundarinnar dvelji nú yfir vetrartímann á Íslandi en áður. Leiða megi líkur að því þetta orsakist af mildara loftslagi, harðir vetur séu orðnir fátíðari. „Ákveðnir einstaklingar af þessari tegund fljúga einfaldlega ekki suður á bóginn heldur eru um kyrrt á Íslandi allt árið og þeim fer fjölgandi.“
Jose segir að niðurstöðurnar sýni að breytt farmynstur dýra sé þannig viðbrögð við umhverfissviptingum. „Til dæmis má nefna að farfuglarnir sem við fylgjumst með á Íslandi sýna töluverðar breytingar í árstíðabundinni hegðun. Flestar tegundir koma nú fyrr á vorin á varpstöðvar þar sem vorið er fyrr á ferðinni og sumrin eru oftar hlýrri. Með sama hætti þá hefur hlýrra veður gert bændum kleift að nýta meira land og sláttur hefst fyrr. Tegundir sem verpa í túnum geta því lent í vandræðum ef varpi og uppeldi unga er ekki lokið fyrir slátt,“ segir Jose. „Ekki er víst að uppeldistími unga nái að halda í við snemmbærari slátt og þetta gæti orðið vandamál fyrir tegundir sem eru bændum og Íslendingum öllum kærar.“
Jose Alves hefur stundað rannsóknir ásamt Verónicu Méndez Aragón á tjaldi en hún starfaði sem nýdoktor við rannsóknasetrið á Laugarvatni. Þær hafa m.a. leitt í ljós að hærra hlutfall tegundarinnar dvelur nú yfir vetrartímann á Íslandi en áður. Leiða megi líkur að því þetta orsakist af mildara loftslagi, harðir vetur séu orðnir fátíðari. MYND/Jón Örn Guðbjartsson
Fuglar bregðast við breytingum – mennirnir þurfa það líka
Jose segir að breytingar í umhverfi okkar sýni að viðbrögð manna séu mikilvæg og enn sé ekki of seint að svara merkjum í náttúrunni. „Við þurfum bráðnauðsynlega að breyta því hvernig við nýtum náttúruauðlindirnar, sem eru okkur nauðsynlegar líkt og öllum lífverum. Við getum hringt viðvörunarbjöllum með svona rannsóknum sem sýna okkur hvernig dýr eru að bregðast við. Þá vaknar spurningin, af hverju bregðumst við mennirnir ekki líka við? Við lifum á jörð með takmarkaðar auðlindir, eða í það minnsta erum við að nota auðlindir eins og jarðeldsneyti miklu örar en það myndast, og ljóst er að slíkar auðlindir ganga til þurrðar. Ísland getur nýtt sjálfbærar auðlindir, t.d. jarðhita og við þurfum að auka áþekka sjálfbærni í heiminum öllum.“
Ísland mikilvæg uppeldisstöð margra tegunda
Jose segir að Ísland sé mjög mikilvægt svæði til að rannsaka áhrif loftslagsbreytingar á lífríkið. „Á Íslandi er mikið af sjófuglum, öndum og vaðfuglum. Af sumum tegundum vaðfugla, eins og lóu og spóa, verpur stór hluti heimsstofnanna á Íslandi. Við sjáum að fullorðnir einstaklingar eru með mjög fastmótað hegðunarmunstur. Það eru nýliðarnir, nýjar kynslóðir, sem breyta hegðun í takt við umhverfisbreytingar. Ísland er uppeldisstöð fyrir marga þessara fugla og það er mikilvægt að stofnarnir séu sterkir til að mæta breytingum í lífríkinu.“