Ungmenni sem upplifa slakari tengsl við foreldra eru tvöfalt líklegri til að hafa prófað bæði áfengi og kannabis heldur en þau sem eru í góðum tengslum við foreldra. Brýnt er að styðja við fjölskyldur sem glíma við fjölþættan vanda enda eru börn sem alast upp við slíkar aðstæður í mestri hættu á að þróa með sér vímuefnavanda og alvarlegar geðraskanir. Þetta sýnir ný rannsókn sem unnin er af tveimur fræðimönnum við HÍ. Rannsóknin var kynnt á Menntakviku, ráðstefnu Menntavísindasviðs HÍ.
Slæm líðan eykur líkur á vímuefnaneyslu
Á unglingsárum takast einstaklingar á við margvíslegar áskoranir. Andleg vanlíðan er ein þeirra. Áhyggjur vekur að líðan ungmenna fer hrakandi, bæði hér á landi og víða erlendis. Jafnframt byrja ungmenni oft að neyta vímuefna á þessum aldri. „Margir áhættuþættir geta skipt máli fyrir andlega velferð og vímuefnaneyslu en í þessari rannsókn skoðuðum við tengsl ungmenna við foreldra sem ýmist voru slök, góð eða mjög góð. Enn fremur var könnuð líðan ungmenna eftir því hvort þau upplifðu sállíkamleg einkenni eins og höfuðverki, magaverki, bakverki, depurð, pirring, kvíða, svefnörðugleika og svima,“ segir Ragný Þóra Guðjohnsen, lektor við HÍ, sem stýrir rannsókninni ásamt Ársæli Arnarssyni, prófessor við sömu stofnun. Tilgangur hennar er að skoða tengsl þessara þriggja þátta hjá ungmennum í 10. bekk; tengsl við foreldra, líðan og vímuefnaneyslu. Helstu niðurstöður leiddu í ljós að ungmenni í 10. bekk í grunnskóla sem upplifa slakari tengsl við foreldra eru líklegri en þau sem höfðu góð eða mjög góð tengsl við foreldra, til að líða illa og upplifa fleiri sállíkamleg einkenni eins og magaverk og svefnörðugleika.
Ragný segir það mikilvægt að foreldrar hlúi að góðum tengslum við börn sín með því að sýna þeim umhyggju, styðja þau og leiðbeina bæði í námi og samskiptum. Gefandi samvera og samræður skipta lykilmáli í þessu sambandi og brýnt er að leita eftir sjónarmiðum barnanna. Við slíkar aðstæður skynji foreldrar líðan barnsins, geti brugðist við og fengið stuðningsþjónustu við hæfi. „Uppeldisaðferðir foreldra gegna því mikilvægu hlutverki en jafnframt þarf samfélagið að styðja mun betur við fjölskyldur sem glíma við margþættan vanda.“
„Við sjáum einnig að slæm líðan og upplifun af sállíkamlegum einkennum eykur líkur á vímuefnaneyslu. Ef ungmenni finna fyrir að minnsta kosti tveimur sállíkamlegum einkennum,vikulega eða oftar, aukast líkur á því að unglingurinn noti vímuefni og geri það oft. Athyglisvert er að óháð því hvernig tengslum við foreldra er háttað er vanlíðan sjálfstæður áhættuþáttur fyrir áfengis- og kannabisneyslu. Ef gripið væri inn í þegar slík einkenni gera vart við sig hjá börnum mætti minnka eða koma í veg fyrir að slík líðan þróist á verri veg,“ bætir Ragný Þóra við.
Brýnt að styðja við fjölskyldur í vanda
Ragný segir það mikilvægt að foreldrar hlúi að góðum tengslum við börn sín með því að sýna þeim umhyggju, styðja þau og leiðbeina bæði í námi og samskiptum. Gefandi samvera og samræður skipta lykilmáli í þessu sambandi og brýnt er að leita eftir sjónarmiðum barnanna. Við slíkar aðstæður skynji foreldrar líðan barnsins, geti brugðist við og fengið stuðningsþjónustu við hæfi. „Uppeldisaðferðir foreldra gegna því mikilvægu hlutverki en jafnframt þarf samfélagið að styðja mun betur við fjölskyldur sem glíma við margþættan vanda.“