Skip to main content

Eykur öryggi sjófarenda með kortlagningu á fari borgarísjaka

Eykur öryggi sjófarenda með kortlagningu á fari borgarísjaka - á vefsíðu Háskóla Íslands

 Þetta er nú bara toppurinn á ísjakanum! 

Þetta máltæki þekkja nær allir en það er notað yfir flest í veruleika okkar sem er bara sýnilegt að hluta. Það má rekja til útlits borgarísjaka á floti eða öllu heldur til eðlisþyngdar hans en stærsti hluti ísjakans er alltaf neðansjávar. Hann er því að mestu ósýnilegur. Þetta gerir þá einstaklega hættulega fyrir sjófarendur þar sem þeir sjást svo illa. Líklega er eitt þekktasta og mannskæðasta sjóslys sögunnar tengt jómfrúarferð risaskipsins Titanic sem sigldi utan í borgarís suður af Nýfundnalandi þann 15.  apríl árið 1912. Með skipinu fórust um 1500 manns. 

En hvernig er best að fylgjast með fari borgarísjaka sem geta reynst svo skæðir sjófarendum? Svarið er einfalt en úrvinnslan er talsvert flókin. Stuðst er að miklu leyti við fjarkönnunarmyndir sem teknar eru úr flugvélum og gervihnöttum úr mikilli hæð. Áhersla á fjarkönnunarrannsóknir hefur aukist gríðarlega undanfarin ár og hefur Háskóli Íslands verið mjög framarlega á því sviði á alþjóðavísu. ShanghaiRanking Consultancy birti fyrir skemmstu lista yfir bestu háskóla heims innan rösklega fimmtíu fræðigreina og raðast Háskóli Íslands þar í 6. sæti yfir þá sem fremstir standa í heiminum í fjarkönnun.

Auk þess sem fjarkönnunarmyndir eru notaðar við að rannsaka ferðir borgarísjaka hér við land nýtast þær m.a. við að meta hita- og landhæðarbreytingar jarðhitasvæða, jarðskorpuhreyfingar í aðdraganda eldgosa og gengi í virkum eldgosum auk eftirlits með hafís og hitastigi sjávar. 

Hægt að greina myndir þótt ský hylji landið

Ingibjörg Jónsdóttir, dósent í landfræði við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, hefur verið frumkvöðull í fjarkönnunarrannsóknum hérlendis. Hún vakti mikla athygli fyrir rannsóknir sínar í Holuhraunsgosinu ásamt samstarfsteymi árið 2014 og 2015 þar sem unnt var að fylgjast með hraunflæði í rauntíma, streymi hættulegra lofttegunda úr gígnum og ýmsum öðrum eiginleikum með því að hagnýta myndir úr gervihnöttum. Vegna tækni við tökur og úrlestur mynda í mörgum bandvíddum var unnt að nýta myndir sem teknar voru af eldstöðinni þrátt fyrir að skýjahula væri yfir landinu.

Ingibjörg fylgist einnig með borgarísjökum við strendur Íslands sem að mestu koma úr þeim skriðjöklum Austur-Grænlands sem kelfa í sjó. Jakarnir berast svo áfram með hafstraumum suður á bóginn og stundum inn á íslensk hafsvæði. Smám saman brotnar úr þeim en þeir geta engu að síður verið afar skeinuhættir sjófarendum. Að lokum bráðna þeir þó og verða hluti af hringrás hafsins.

„Rannsókn okkar felst í greiningu á tíðni og dreifingu borgarísjaka á íslenskum hafsvæðum,“ segir Ingibjörg. „Hún tengist einnig almennum hafísrannsóknum en hafís myndast við önnur skilyrði, þ.e. þegar efsta lag sjávar frýs við ákveðin skilyrði. Hafís og borgarísjakar eru oft í samfloti þó að mest beri á borgarís síðsumars og á haustin, en hafísútbreiðsla er hins vegar mest á vorin.“ 

„Með rannsókninni verður unnt að fylgjast nánar með reki borgarísjaka þar sem nákvæmar gervitunglamyndir berast nú mun oftar. Þá verður einnig hægt að fylgjast með ef borgarísjökum fer að fjölga mikið eða ef aðrar breytingar verða á útbreiðslu eða tíðni í komum jakanna sem benda til frekari umhverfisbreytinga,“ segir Ingibjörg Jónsdóttir.

Ingibjörg Jónsdóttir

Gögn hagnýtt úr flugvélum og gervitunglum

Ingibjörg segir að gögn úr gervitunglum, frá ískönnunarflugi Landhelgisgæslunnar og tilkynningar frá sjófarendum og Veðurstofu Íslands séu grunnur að verkefninu. 

„Það þarf að fara vel yfir þessi gögn og greina á ýmsan hátt. Ef litið er til lengri tíma eru ýmis söguleg gögn einnig til hér á landi um borgarís og hafís,“ segir hún og bætir því við að verkefnið tengist bæði veðurfarsrannsóknum og öryggismálum á hafi. 

„Það hefur því talsvert gildi auk þess sem í því felst áhugaverð áskorun við að greina borgarísjaka í rauntíma út frá fjarkönnunargögnum.“  

Fjarkönnun gríðarlega mikilvæg

Í verkefninu er byggður gagnagrunnur um borgarísjaka við Ísland en einnig bætist við þekkingu á ástæðum breytileika í komum borgarísjaka. Niðurstöður hafa þegar verið birtar í ritrýndum tímaritsgreinum en fleiri eru einnig í vinnslu. 
 
„Með rannsókninni verður unnt að fylgjast nánar með reki borgarísjaka þar sem nákvæmar gervitunglamyndir berast nú mun oftar. Þá verður einnig hægt að fylgjast með ef borgarísjökum fer að fjölga mikið eða ef aðrar breytingar verða á útbreiðslu eða tíðni í komum jakanna sem benda til frekari umhverfisbreytinga,“ segir Ingibjörg. 
 
„Þessi rannsókn og rannsóknir almennt eru hugsaðar til að dýpka skilning okkar á ástandi og orsakasamhengi, þær geta haft bæði fræðilegt og hagnýtt gildi. Áhugi minn felst einkum í rannsóknum á umhverfisbreytingum og náttúruvá þar sem samnýtt eru söguleg gögn, vísbendingar úr umhverfi, og margvísleg fjarkönnunargögn.“