Anna-Lind Pétursdóttir, dósent við Kennaradeild
„Of oft er gripið til refsinga þegar unnið er með börn með alvarlega hegðunarerfiðleika en slík úrræði skila oft takmörkuðum árangri og geta jafnvel haft slæm áhrif,“ segir Anna-Lind Pétursdóttir, dósent við Menntavísindasvið. Hún rannsakar nú áhrif virknimats og einstaklingsmiðaðrar stuðningsáætlunar á námsástundun og truflandi eða árásargjarna hegðun nemenda með langvarandi hegðunarerfiðleika.
„Með virknimati er athugað hvaða þættir hafa áhrif á hegðun og af hverju einstaklingur sýnir óæskilega hegðun. Í einstaklingsmiðaðri stuðningsáætlun er margþætt inngrip sett saman með hliðsjón af tilgangi erfiðrar hegðunar. Þetta er gert til að fyrirbyggja slíka hegðun, kenna viðeigandi hegðun í stað þeirrar erfiðu og styrkja hana markvisst samhliða því að hætta að styrkja þá óæskilegu,“ segir Anna-Lind.
Anna-Lind Pétursdóttir
Anna-Lind rannsakar áhrif virknimats og einstaklingsmiðaðrar stuðningsáætlunar á námsástundun og truflandi eða árásargjarna hegðun nemenda með langvarandi hegðunarerfiðleika.
Að sögn Önnu-Lindar sýna að meðaltali tveir til þrír nemendur erfiða hegðun að staðaldri í hverjum bekk og slíkir hegðunarerfiðleikar eru eitt helsta áhyggjuefni kennara. „Hegðunarerfiðleikar byrja oft snemma á lífsleiðinni og horfur eru afar slæmar án árangursríkra inngripa. Virknimat og einstaklingsmiðuð stuðningsáætlun hafa skilað góðum árangri við að draga úr hegðunar- og tilfinningalegum erfiðleikum barna og raunar betri árangri en önnur inngrip,“ segir Anna-Lind.
Mældar eru breytingar fyrir og eftir að virknimat og stuðningsáætlun eru gerð að sögn Önnu-Lindar. Þetta er gert með samantekt á beinum athugunum. Framhaldsnemar í uppeldis- og menntunarfræðum gerðu athuganirnar í grunn- og leikskólum um allt land og var vinna þeirra hluti af verkefni í valnámskeiðinu Nemendur með hegðunar- og tilfinningalega örðugleika: Viðbrögð og úrræði skólasamfélagsins. Mælingar voru gerðar vorin 2009 og 2010 og er ætlunin að halda þeim áfram núna á vormisseri. Framhaldsnemarnir fengu kennslu í að framkvæma virknimat og setja fram stuðningsáætlun. Þeir fóru síðan út í skólana, beittu aðferðunum í samvinnu við starfsfólkið og tóku saman niðurstöður fyrir þann nemanda sem þeir unnu með. Í framhaldinu safnar Anna-Lind gögnunum saman og vinnur úr þeim.
Anna-Lind vonast til að niðurstöður rannsóknarinnar auki líkur á því að virknimat og einstaklingsmiðuð stuðningsáætlun verði notuð víðar til að bæta hegðun og námsástundun nemenda með alvarlegustu frávikin.