Brýnn hluti af starfi háskóla felst í að takast á við áskoranir sem mannkynið glímir við á hverjum tíma. Sumar af þessum áskorunum tengjast aðgerðum mannsins sjálfs en aðrar eiga sér rætur í umhverfinu og lífríkinu og í þeim flókna veruleika sem helgast af sjúkdómum og baráttunni við þá. Í stefnu HÍ segir að þekkingarsköpun við skólann styðji samfélagið við að takast á við margvíslegar áskoranir, allt frá umhverfisbreytingum, náttúruvá og örum tæknibreytingum til margvíslegrar ógnar við heilsu og velferð fólks.
Segja má að Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki við HÍ, hafi lungann úr sínum fræðaferli tekist á við áskoranir eins og að framan er lýst. Í rannsóknum sínum hefur hann að mestu fengist við efni á sviði siðfræði og tilvistarheimspeki og heimspeki samfélags og stjórnmála. Vilhjálmur hefur t.d. oft beint sjónum að siðfræði lífs og heilsu og hefur ítrekað verið gefið út efni eftir hann sem helgað er því viðfangsefni.
Undanfarið hefur Vilhjálmur beint sjónum sínum að þeim áskorunum sem einkenndu COVID-19-heimsfaraldurinn auk þess að kanna hvaða áhrif viðbrögð við honum höfðu fyrir siðfræði stjórnmála og lýðheilsu.
„Ég tek einkum mið af aðstæðum og ákvörðunum hérlendis, en greini þær í ljósi alþjóðlegrar umræðu um efnið,“ segir Vilhjálmur aðspurður um verkefnið en í því veltir hann upp þeim siðfræðilegu spurningum sem faraldurinn sjálfur og viðbrögð stjórnvalda og almennings við honum vöktu.
Heimsfaraldur sem kostaði milljónir manna lífið
Kveikjan að rannsókninni er augljós – um er að ræða verkefni sem tengist gríðarlega alvarlegum heimsfaraldri sem kostaði milljónir manna lífið. Þegar þetta er ritað er talið að um 621 milljón manna hafi smitast af kórónaveirunni sem olli Covid-19 og að dauðsföll af völdum hennar séu um sex og hálf milljón á heimsvísu. Þetta er sviðsmynd sem fæstir gerðu ráð fyrir á 21. öld en staðreyndin er sú að með breyttum lífsháttum manna geta skapast aðstæður fyrir faraldur sem þennan „Ég valdi verkefnið vegna þess að faraldurinn og þær ákvarðanir sem teknar voru til að bregðast við honum vöktu margar siðfræðilegar spurningar. Þetta efni er líka á einu þeirra sviða sem ég hef helgað rannsóknir mínar, siðfræði lífs og heilsu.“
Vilhjálmur segir að verkefnið sé unnið með aðferðum heimspekilegrar siðfræði þar sem áhersla er á greiningu hugtaka, röksemda og málsmeðferðar. Lagt sé mat á ákvarðanir, bæði hvaða ákvarðanir voru teknar og hvernig að þeim hvar staðið, í ljósi hugmynda og kenninga lífsiðfræðinnar, einkum siðfræði lýðheilsu.
„Í grófum dráttum má segja að aðgerðir og málsmeðferð íslenskra stjórnvalda standist mjög vel skoðun í ljósi þessara kenninga og meginviðmiða siðfræði lýðheilsu. Með trúverðugu samtali við almenning og almennt vel rökstuddum aðgerðum var stuðlað að trausti og samstöðu í samfélaginu. Þegar árangur aðgerða er metinn nægir þó ekki að mæla heildarafleiðingarnar, heldur er brýnt að skoða sérstaklega áhrifin á berskjaldaða hópa, svo sem fatlaða og börn, og læra af þeim,“ segir Vilhjálmur m.a.
Lærdómur getur nýst í endurmati á viðbragðsáætlunum
„Drög að niðurstöðum greiningar í ljósi tveggja ólíkra kenninga liggja fyrir. Fyrri greiningin byggir á kenningu Davids Miller um góða stjórnvaldsákvörðun og sú síðari á viðmiðum Normans Daniels og James Sabine um hvernig meta eigi sanngirni lýðheilsuaðgerða,“ segir Vilhjálmur.
„Í grófum dráttum má segja að aðgerðir og málsmeðferð íslenskra stjórnvalda standist mjög vel skoðun í ljósi þessara kenninga og meginviðmiða siðfræði lýðheilsu. Með trúverðugu samtali við almenning og almennt vel rökstuddum aðgerðum var stuðlað að trausti og samstöðu í samfélaginu. Þegar árangur aðgerða er metinn nægir þó ekki að mæla heildarafleiðingarnar heldur er brýnt að skoða sérstaklega áhrifin á berskjaldaða hópa, svo sem fatlaða og börn, og læra af þeim. Náið samstarf stjórnvalda við ÍE var árangursríkt en vekur spurningar um gagnsæi og lýðræðislega málsmeðferð sem skoða þarf betur.“
Niðurstöður verkefnisins hafa verið kynntar í fyrirlestrum á ráðstefnum og málþingum, bæði hérlendis og erlendis. „Ég vinn nú að þriðju útgáfu bókar minnar „Siðfræði lífs og dauða. Erfiðar ákvarðanir í heilbrigðisþjónustu“ og þar ræði ég niðurstöður þessarar rannsóknar.“
Nýsköpun er eitt mikilvægasta aflið í umbreytingu samfélaga til hins betra og mikil áhersla er á nýsköpun í stefnu HÍ. Hægt er skilgreina nýsköpun sem endurbættar aðferðir og starfshætti og því hefur verkefni Vilhjálms slíkan flöt þegar litið er á mat á sóttvörnum og lýðheilsu frá siðfræðilegu sjónarmiði.
Hann segir sjálfur að samfélagsleg áhrif rannsóknarinnar og gildi hennar fyrir vísindin felist í þeim lærdómum sem draga megi af matinu á viðbrögðum við faraldrinum, bæði því sem vel var gert og því sem betur hefði mátt huga að frá sjónarhóli lýðheilsusiðfræði. „Þeir lærdómar gætu nýst í endurmati á viðbragðsáætlunum fyrir faraldra af þessu tagi.“
Bein tengsl við heimsmarkmið SÞ
Rannsókn Vilhjálms hefur einnig bein tengsl við tvö heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. „Það eru augljós tengsl við markmið þrjú, heilsa og vellíðan og einnig er skýr tengsl við markmið tíu, aukinn jöfnuður,“ segir Vilhjálmur. „Heimsfaraldurinn dró ótvírætt fram mikilvægi þess að jafna stöðu fólks til að sóttvarnaráðstafanir verði sanngjarnar.“
Vilhjálmur Árnason er einn af þeim fræðamönnum HÍ sem hefur ítrekað verið í fjölmiðlum við að túlka fjölbreytt efni sem tengjast áskorunum samtímans. Hann hefur átt langan og farsælan feril við kennslu og rannsóknir. Vilhjálmur er fæddur í Neskaupstað árið 1953 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni. Hann nam fyrst við HÍ, heimspeki og bókmenntir, en lauk framhaldsnámi og doktorsprófi í heimspeki frá Purdue-háskóla árið 1982. Vilhjálmur hefur starfað við Háskóla Íslands við kennslu og rannsóknir frá árinu 1983. Aðspurður um gildi rannsókna segir hann að þær hafi mikla þýðingu, bæði til að afla nýrrar þekkingar og til að skapa skilyrði til að bæta samfélagið og mannlífið almennt. Þessi orð eiga hliðstæðu í ljóði skáldsins og vísindamannsins Jónasar Hallgrímssonar sem sagði vísindin efla alla dáð.
Lesa má nánar um Vilhjálm Árnason, prófessor í heimspeki við HÍ, á Vísindavef HÍ.