Ein helsta áskorun mannkyns er að kljást við sjúkdóma og fyrirbyggja þá. Af þeim sökum fjallar eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um þá brýnu vegferð að tryggja öllu mannkyni heilsu og vellíðan. Eitt helsta heilsufarsvandamál samtímans tengist krabbameini sem er ekki einn sjúkdómur heldur samheiti yfir marga ólíka sjúkdóma með áþekkt eðli oft á tíðum. Gríðarlegur fjöldi vísindamanna um heim allan beinir sjónum sínum að krabbameinum með það fyrir augum að leita að lausnum og lækningu. Tölfræðin er enda þannig að einn af hverjum þremur fær þennan illvíga sjúkdóm einhvern tímann á lífsleiðinni. Vegna tíðninnar, og oft á tíðum alvarleika meinanna, eru þau næst stærsti orsakavaldur dauðsfalla í heiminum. Hjartasjúdkómar valda flestum dauðsföllum. Rannsóknir á þróun krabbameina, leitin að lyfjum og leiðum til að draga úr myndun þeirra eru því gríðarlega brýn hagsmunarmál allra þjóða.
Arnar Snær Ágústsson er doktorsnemi við Læknadeild Háskóla Íslands. Hann hefur síðasta kastið beint sjónum sínum að rannsóknum á krabbameini en það verkefni sem hann vinnur nú að snýst um að kanna hvort ákveðin lyf sem fólk tekur að staðaldri fyrir greiningu krabbameins geti aukið lifun einstaklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein.
„Fyrri rannsóknir hafa sýnt að hjartamagnyl dregur úr áhættu á myndun og þróun bæði ristil- og endaþarmskrabbameina og forstigsbreytinga þeirra. Önnur bólgueyðandi lyf sem virka með öðrum hætti hafa hins vegar ekki verið rannsökuð,“ segir Arnar Snær.
„Rannsóknir stuðla að nýrri þekkingu, nýrri tækni, nýjum meðferðum og gera okkur öllum kleift að vinna upplýst, til að mynda í þágu sjúklinga. Til að undirstrika mikilvægið hafa rannsóknir, þar á meðal á Íslandi, verið lykilþáttur í baráttunni við COVID-19 heimsfaraldurinn,“ segir Arnar Snær Ágústsson. MYND/Kristinn Ingvarsson
Þetta er afar spennandi rannsókn því hún snýst í raun um að kanna hvort notkun lyfja, sem gríðarlega margir taka og sumir hverjir mjög oft, geta haft fyrirbyggjandi verkun eða aukið lifun einstaklinga sem fá ákveðna tegund af krabbameinum.
Sjúkraskrár í miklum gæðum lykill að rannsókn
„Myndun ristilkrabbameina er vel þekkt og hér á Íslandi eru til gögn og sjúkraskrár í miklum gæðum. Við höfum þannig frábært tækifæri til að framkvæma stórar lýðheilsufræðilegar rannsóknir til að svara spurningum þar sem ekki er skynsamlegt að framkvæma slembiraðaðar íhlutunarrannsóknir,“ segir Arnar Snær.
Rannsóknin er í fullum gangi og niðurstöðurnar ekki komnar. „Við erum enn að afla gagna,“ segir Arnar Snær, „en okkar væntingar eru að þessi bólgueyðandi lyf dragi úr myndun ristil- og endaþarmskrabbameina og að þau stuðli að betri lifun. Við bíðum afar spennt eftir niðurstöðunum.“
Óhætt er að segja að mörg fleiri en vísindamennirnir bíði spennt því þessi rannsókn hefur bein áhrif á alla þá einstaklinga sem eru að taka framangreind bólgueyðandi lyf en á meðal þeirra eru lyf eins og Ibuprofen sem er selt án lyfseðils í apótekum.
Hvert er hlutverk bólgu í þróun krabbameina?
Arnar Snær segir að einnig standi vonir vísindafólksins til að rannsóknin beini kastljósinu að hlutverki bólgu í þróun krabbameina og hvort hægt sé að hafa áhrif þar, raunverulega áður en krabbamein myndast. Brýnt er að standa að frekari rannsóknum á þessu sviði að mati Arnars Snæs og jafnvel lyfjaþróun ef svo ber undir en hann bætir því við að rannsóknir sem snúi að krabbameinum og í raun hverju sem er í þágu lýðheilsu séu lykilstoð í upplýstu velferðarsamfélagi.
„Rannsóknir stuðla að nýrri þekkingu, nýrri tækni, nýjum meðferðum og gera okkur öllum kleift að vinna upplýst, til að mynda í þágu sjúklinga. Til að undirstrika mikilvægið hafa rannsóknir, þar á meðal á Íslandi, verið lykilþáttur í baráttunni við COVID-19 heimsfaraldurinn.“
Leiðbeinendurnir Arnars Snæs í þessu viðamikla doktorsverkefni eru þau Einar Stefán Björnsson, prófessor við Læknadeild HÍ og yfirlæknir lyflækninga við Landspítala, Jóhann Páll Hreinsson, læknir við Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsið í Gautaborg, Sigurdís Haraldsdóttir, dósent við Læknadeild HÍ og yfirlæknir krabbameinslækninga á Landspítala, Jón Gunnlaugur Jónasson, prófessor við Læknadeild HÍ og yfirlæknir á meinafræðideild Landspítala, Sigrún Helga Lund, tölfræðingur hjá deCODE, og Helgi Birgisson, yfirlæknir krabbameinsskrár og dósent við Uppsalaháskóla.