Skip to main content

Airbnb og traustið í deilihagkerfinu

Guðmundur Lúther Hallgrímsson, MS frá Viðskiptafræðideild

Deilihagkerfið byggist á því að almenningur deili þjónustu og vöru, ýmist gegn gjaldi eða í skiptum fyrir eitthvað sem gagnaðili getur boðið. Nýtt snið á deilihagkerfinu hefur vaxið fram úr öllum væntingum á síðustu misserum en það tengist sölu almennings á gistingu í gegnum vefsvæði Airbnb. Viðskiptalíkan Airbnb byggist á því að almenningi er gert kleift að afla tekna með því að bjóða eignir sínar til útleigu í gegnum netvang Airbnb og samfélagsmiðlar eru hagnýttir til að vekja traust milli kaupenda og seljenda. Allir hafa hag af þessu fyrirkomulagi, kaupandinn, eigandinn og miðlarinn.

Árið 2014 hafði Airbnb selt yfir 20 milljónir gistinátta, að mestu í heimahúsum, í hartnær tvö hundruð þjóðlöndum í nærfellt 35 þúsund borgum. Þetta hafði netvangurinn gert án þess að eiga einn einasta legubekk. Í haust greindi Landsbankinn frá greiningu sinni á ferðaþjónustunni á Íslandi sem fól í sér tölur um að velta heimagistingar fyrir tilstuðlan Airbnb hefði numið 6,1 milljarði króna á Íslandi árið 2016. Þetta eru gríðarlega háar tölur í hagkerfi sem áður var algerlega óskrifað blað og þar sem drjúgur hlutur tekna rennur í vasa einstaklinga sem eru að selja aðgang að persónulegum eignum sínum.

Guðmundur Lúther Hallgrímsson hefur rannsakað traust innan þessa hagkerfis en eins og flestir vita er traust afar mikilvægt í viðskiptum. Guðmundur vildi kanna hvernig stæði á því að svona viðskiptalíkan gæti þrifist þar sem íbúðaeigendur treysta ókunnugu fólki fyrir persónulegum eignum sínum.

Samkvæmt tölum Landsbankans vex markaðshlutdeild Airbnb í sölu á gistingu stöðugt og áætlar bankinn að Airbnb hafi verið með yfir 40 prósent markaðshlutdeild í höfuðborginni sumarið 2017. Þessi rannsókn er því einkar spennandi með hliðsjón af vexti Airbnb og svipaðra þjónustugátta á netinu. „Hugmyndin að rannsókninni kemur upprunalega frá áhuga mínum á deilihagkerfinu en ég er framkvæmdastjóri hjá Bungalo og hef starfað þar síðastliðin fimm ár. Bungalo er markaðstorg fyrir útleigu á sumarbústöðum í eigu einstaklinga til ferðamanna og er viðskiptalíkan þess keimlíkt því sem Airbnb notast við. Út frá reynslu minni hjá Bungalo hefur mér þótt áhugavert að sjá hvers vegna fólk treystir ókunnugum fyrir mjög persónulegum eigum sínum,“ segir Guðmundur.

Ástæðu þess að Guðmundur valdi Airbnb sem miðlæga þjónustugátt í verkefninu segir hann einfaldlega þá að fyrirtækið sé með mikil umsvif á Íslandi en um þrjú þúsund eignir séu í boði hjá Airbnb í Reykjavík einni. „Þá tengist Airbnb afar vel hugtakinu um deilihagkerfi.“

„Hugmyndin að rannsókninni kemur upprunalega frá áhuga mínum á deilihagkerfinu en ég er framkvæmdastjóri hjá Bungalo og hef starfað þar síðastliðin fimm ár. Bungalo er markaðstorg fyrir útleigu á sumarbústöðum í eigu einstaklinga til ferðamanna og er viðskiptalíkan þess keimlíkt því sem Airbnb notast við. Út frá reynslu minni hjá Bungalo hefur mér þótt áhugavert að sjá hvers vegna fólk treystir ókunnugum fyrir mjög persónulegum eigum sínum.“

Guðmundur Lúther Hallgrímsson

Guðmundur segir að það hafi vakið athygli sína í rannsókninni hversu tregir Íslendingar væru að leigja samlöndum sínum en að hans sögn eru niðurstöðurnar úr rannsókn hans helstar þær að eigendur sem miðla eignum sínum á Airbnb treysta leigjendum vel. „Þá virðast eigendur bera gott traust til Airbnb sem milliliðar í viðskiptum. Í niðurstöðum kom fram að mikilvægi umsagna-, skilaboða- og öryggiskerfis Airbnb skipti mestu máli til að mynda traust til leigjenda.“

Guðmundur segist vonast til að niðurstöður rannsóknarinnar veiti innsýn í traust á milli jafningja í viðskiptum innan deilihagkerfisins og hvaða máli það skipti að stuðla að trausti og að bæta það.

Leiðbeinandi: Auður Hermannsdóttir, aðjunkt við Viðskiptafræðideild.